Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 15:03:57 (987)


[15:03]
     Pétur Bjarnason (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur fyrir að vekja athygli á þessu. Mér finnst það staðfesta það sem ég sagði áðan. Ég gat um að þetta væri í fjármálakaflanum. Ég gat líka um að það hefði komið til góða til verndar nemendum. Þrátt fyrir að þetta væri í fjármálakaflanum þá var þetta í lögunum og það hefur orðið að fara eftir þessu svo að það fór ekki á milli mála.
    Hvað snertir hámark nemenda í bekk þá finnst mér ráðuneytið hafa þá ábyrgð að það eigi að tryggja að sá réttur nemenda, sem ráðuneytið ber ábyrgð á, verði virtur. Ég óttast einmitt það sem hv. þm. var að nefna, þ.e. að sveitarfélög setji reglur og hvert einstakt sveitarfélag eigi að hafa það á sínu valdi. Það er einmitt það sem ég er að tala um að verði að forðast og verði að koma í veg fyrir því að með því móti verður börnum mismunað. Ég held að það verði að fyrirbyggja og það á að vera á ábyrgð ráðuneytisins að fyrirbyggja, ekki einstakra sveitarfélaga.
    Hvað snertir dönskuna sem afgangsstærð þá tel ég að verið sé að skáka henni út í horn með því að í skýrslu nefndar um mótun menntastefnu er hún ekki lengur skilgreind sem kjarnagrein. Ég segi lengur því svo hefur verið litið á með uppröðun samræmdra prófa að það séu fjórar greinar sem hvað mest vægi hafa og er ákveðið að prófa á samræmdum prófum. Það kalla ég því að gera hana að afgangsstærð. En ég fagna því að þarna eru áfram kröfur um að kenna dönsku og gera áfram kröfur til kennslunnar því að ég tel að nauðsynlegt að dönskukennslan sé skoðuð alveg sérstaklega og reynt að finna rætur þess árangurs sem hefur verið í kunnáttu unglinga í dönsku og það hið allra fyrsta.