Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 15:46:42 (989)


[15:46]

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu eitt stærsta mál þessa vetrar og ég get tekið undir það að þetta mál þarf að fá mjög rækilega umfjöllun hér í þinginu og við þurfum að taka góðan tíma til þess að fara ofan í alla þætti málsins. Staðreyndin er sú, herra forseti, að hver einasta þjóð þarf að skoða menntakerfi sitt með reglulegu millibili og vega það og meta hvort skólakerfið þjónar þeim tilgangi sem því er ætlað, hvort það sinni þeim einstaklingum sem þangað koma og hvort þörfum samfélagsins fyrir menntun er sinnt. Og þær spurningar sem við hljótum alltaf að spyrja aftur og aftur eru þessar: Hvað á að kenna, hvers konar menntun þarf þjóðin og hvernig verður kennslu best fyrir komið?
    Mér hefur fundist í þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað um skólamál á undanförnum árum og ekki síst eftir að nefnd sú sem hæstv. menntmrh. setti á laggir, eftir að sú umræða hófst, þá hafi menn alls ekki svarað þeirri spurningu: Hvaða menntun þarf þjóðfélagið? Ég held að að mörgu leyti séum við mjög föst í gömlum hugmyndum um það hvers konar menntun við þurfum. Að sumu leyti er gott að skólakerfið sé svolítið íhaldssamt og haldi í menningararfinn og sinni ýmsum grundvallarþáttum samfélagsins, en við megum líka passa okkur á því að vera ekki of íhaldssöm og að sú staða komi upp að skólakerfið sé ekki í takt við breytingar þjóðfélagsins. Ég held einmitt að það sé sá vandi sem við erum lent í hér. Við höfum verið að ganga í gegnum gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar á undanförnum áratugum. Við stöndum frammi fyrir því að fjölskyldan er börnum hvorki það skjól sem hún áður var né veitir börnum þann stuðning sem þau áður fengu og fjölskyldan er því miður ekki lengur sá þekkingarbrunnur sem hún áður var. Nú er ég auðvitað að alhæfa og þetta er gríðarlega misjafnt, en þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir í skólakerfinu eiga ekki síst rætur að rekja til hinna miklu þjóðfélagsbreytinga og við höfum ekki brugðist við þeim eins og við hefðum átt að gera. Það tekur oft langan tíma að átta sig á breytingum og ekki síst því hvernig það verður gert. Við þurfum á hverjum tíma að svara þeirri spurningu: Hvert er hlutverk skólans? Hvað nær fræðsluhlutverkið langt og að hve miklu leyti á skólinn að taka að sér uppeldishlutverkið? Og hvernig getur hann sinnt því hlutverki, hvernig er hann í stakk búinn til þess að sinna því hlutverki? Það er einu sinni staðreynd að það hefur slaknað á skyldum foreldra. Því miður eru margir foreldrar sem ekki sinna sínu uppeldishlutverki sem skyldi og það hefur ekki verið brugðist við því, en það þarf að gera.
    Mér þóttu afar merkilegar þær upplýsingar sem komu fram á fundi menntmn. í síðustu viku þar sem upplýst var að sérkennsla taki til sín á milli 15--20% af þeim kostnaði sem fer í grunnskólann og einnig það að þörfin fyrir sérkennslu er sívaxandi í framhaldsskólunum. Og þó að þarna sé um að ræða nemendur sem eiga við fötlun að stríða eða lestrarerfiðleika þá er það staðreynd að hluti þeirra sem koma illa undirbúnir inn í skólana hefur ekki fengið aðhald og það hefur ekki verið skilað til þeirra arfi kynslóðanna eða þeirri þekkingu sem hingað til hefur gengið frá kynslóð til kynslóðar. Þarna er brotalöm og það er sífellt meiri þörf á því að skólakerfið taki á þessu jafnframt því sem reynt er að styðja foreldra betur í uppeldishlutverkinu.
    Sú stóra spurning sem vaknar í tengslum við þetta frv. og þá miklu breytingu sem hér er verið að leggja til er auðvitað sú hvernig skólar, sérstaklega á landsbyggðinni, verða í stakk búnir til þess að axla þá ábyrgð sem verið er að leggja þeim á herðar. Ríkið hefur sinnt bæði eftirlitshlutverki og þjónustuhlutverki við skóla úti á landsbyggðinni og hefur verið það jöfnunartæki sem hefur gert litlum skólum úti á landsbyggðinni kleift að starfa og það hlýtur að verða ein meginspurningin hvernig skólarnir úti á landi verða færir um að sinna sínu hlutverki.
    Þetta frv. felur í sér margar og miklar breytingar og ég get tekið undir margt af því sem fram kemur í frv., en það er líka mjög mörgum spurningum ósvarað og ekki síst í málum sem snúa að kennurum og öðru starfsfólki skólakerfisins, starfsfólki fræðsluumdæmanna, og ekki síður sú mikla og stóra spurning: Hvar á að afla fjár til skólakerfisins? Því að það kemur fram í umsögn fjmrn., og reyndar einnig í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga sem hér var vitnað til áðan, að það er erfitt að meta þann kostnað sem þessar breytingar hafa í för með sér og fjmrn. telur í sínu áliti að e.t.v. verði hann mun meiri en gert hefur verið ráð fyrir og við hljótum auðvitað að spyrja: Hvar á að taka þá peninga? Í ljósi þess hvernig búið hefur verið að skólakerfinu hér á undanförnum árum þá er ástæða til þess að hafa áhyggjur af því hvort skólarnir muni fá það fjármagn sem þeir þarfnast og þá detta mér í hug þau ummæli Þórarins V. Þórarinssonar, sem hann viðhafði á fundi um daginn, að íslenska grunnskólakerfið væri hlægilega ódýrt eða að varið væri til þess hlægilega litlum peningum. Ég get svo sannarlega tekið undir það því eins og við vitum þá er það grunnmenntunin sem skiptir ekki síst máli þegar við horfum á skólakerfið.
    Fyrst í þessari umræðu langar mig að velta fyrir mér aðeins hugtökunum skólaskylda og fræðsluskylda. Þegar almennri skólaskyldu var komið á árið 1907, skólaskyldu 10--14 ára barna, þá fólst mikil framsýni í því, enda mætti það mikilli andstöðu. Fólki fannst á þeim tíma að það væri hlutverk heimilanna að fræða börnin og þar væri hægt að sinna því sem þyrfti að sinna. Síðan er mikið vatn runnið til sjávar og hjá ýmsum þjóðum er alls ekki skólaskylda heldur eingöngu fræðsluskylda, sem leiðir af sér að það er hægt að haga menntun með ýmsum hætti. Það er t.d. mikil hreyfing í Bandaríkjunum sem felst í því að foreldrar vilja sjálfir fá að fræða börn sín heima og síðan er ákveðið eftirlitskerfi sem fylgist með því hvort þeirri fræðslu hefur verið sinnt á réttan hátt. Skýringin á þessu er bæði trúarlegs eðlis, en líka það að fólki stendur ógn af ástandinu í skólum í Bandaríkjunum og getur hreinlega ekki hugsað sér að

senda börnin sín þangað inn. Fræðsluskylda getur líka leitt til þess að það séu mismunandi skólar og það sé auðveldara að gera tilraunir í skólastarfsemi og fara mismunandi leiðir í kennslu. Í sjálfu sér er ekkert í kerfum sem byggjast á skólaskyldu sem hindrar það að tilraunir séu gerðar og að menn prófi sig áfram á ýmsan hátt og ég held að ég geti fullyrt að sú skólaskylda sem hefur verið í gildi á flestum Norðurlandanna hefur verið eitthvert sterkasta jöfnunartæki þessara samfélaga. Og það að ríkt hefur skólaskylda á flestum Norðurlandanna hefur gert það að verkum að öllum börnum hefur verið boðið upp á sömu menntun, í sömu skólum og án þess að þar hafi verið greint á milli barna eftir því hvaðan þau koma eða hvaða stéttum þau tilheyra, þó að reyndar hafi alltaf verið til einkaskólar á öllum Norðurlöndunum.
    Það er mín skoðun að það sé mjög mikilvægt að varðveita þetta jöfnunarhlutverk skólakerfisins jafnframt því að við gerum skólakerfið þannig úr garði að það leiði bæði sveigjanleika og tilraunir. Og ég get enn einu sinni lýst þeirri skoðun minni að ég vil hafa rétt til þess að stofna kvennaskóla ef ég hef þá trú að kvennaskólar geti orðið til þess að bæta stöðu kvenna og efla þær í því að taka virkari þátt í þjóðfélaginu. Ég hef ekki tíma til að segja frá því hér, en ég var að skoða og heimsækja kvennaskóla í Bandaríkjunum núna í september og það er mikill uppgangur í kvennaskólum í Bandaríkjunum á háskólastigi, þar sem tilgangurinn er fyrst og fremst sá að efla konur til dáða.
    En sú stóra spurning sem við erum að velta fyrir okkur hér er sú: Hvar á skólinn heima? Á hann heima hjá ríkinu eða á hann betur heima hjá sveitarfélögunum? Hér á landi hafa flestir skólar lengstum verið ríkisskólar, þannig að sú breyting sem hér er lögð til er auðvitað grundvallarbreyting á íslensku skólakerfi. Hér er um grundvallarbreytingu að ræða. Þar af leiðandi þarf að velta því fyrir sér hvað þessar breytingar þýða og hvernig því verður fyrir komið.
    Það er nokkuð ljóst að það eru ekki aðrir en ríkið og sveitarfélögin sem ráða við almennt skólahald hér í landinu. Þó að skólaflóran sé býsna lífleg og mörg blóm í henni þá er alveg ljóst að það eru ekki aðrir aðilar sem ráða við það að mennta þjóðina en ríki og sveitarfélögin, en sveitarfélögin standa mjög misjafnlega að vígi. Og ég vil minna á það hér að það var ein forsendan fyrir flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna að það ætti sér stað veruleg sameining sveitarfélaganna, að þar yrðu stærri einingar sem gætu rekið skólann. Þetta kom fram í skýrslu nefndarinnar sem undirbjó sameiningu sveitarfélaga, að þar voru einmitt ein meginrökin fyrir sameiningu sveitarfélaga þau að þau tækju við rekstri grunnskólanna. Eins og við vitum þá mistókust þau áform að miklu leyti þannig að hér eru enn þá mjög lítil sveitarfélög sem munu eiga í erfiðleikum með reksturinn.
    Maður hlýtur að spyrja sig, hvernig verður þessi skipting milli ríkisins annars vegar og sveitarstjórnanna hins vegar og er þarna í raun og veru um einhverja bót að ræða? Ég var að reyna að tína það saman hvert yrði hlutverk sveitarstjórnanna eða sveitarfélaganna og mér sýnist að í fyrsta lagi verði það hlutverk þeirra að byggja skólana og að móta þar með það ytra umhverfi sem börnin munu verða í. Sveitarfélögin eiga að kosta allt skólahaldið. Hér með eru skólarnir algerlega á þeirra vegum, fyrir utan það fjármagn sem hugsanlega kann að koma úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, ef sú leið verður farin að reyna að aðstoða lítil sveitarfélög með styrkjum. Ráðning starfsfólks, bæði skólastjóra, kennara og annarra, verður í höndum sveitarfélagsins og skólanefndanna. Sveitarfélagið á að sjá um það að kjósa skólanefndir og þau þurfa að kaupa allt námsefni til skólanna og svo að semja við kennara og annað starfsfólk. Og þar kem ég einmitt að því atriði sem auðvitað skiptir alveg gríðarlegu máli í öllum þessum breytingum og það er hvernig staðið verði að samningum við kennara. Eiga kennarar að semja við sitt sveitarfélag þar sem þeir eru starfsmenn eða verður það sameiginleg nefnd á vegum sveitarfélaganna sem sér um samninga líkt og gert hefur verið gagnvart öðrum hópum sem vinna hjá sveitarfélögunum? Þetta er stórt atriði frá sjónarhóli kennara, en það er spurning hvort sveitarstjórnirnar þurfa ekki að hafa svolítið svigrúm til þess að geta tryggt sér kennara. Stefnan hjá ríkinu hefur verið sú að afnema öll, ég vil ekki kalla það forréttindi, en það að kennarar fái aukagreiðslur eða hlunnindi fyrir það að koma, búa og kenna á ákveðnum stöðum sem kannski þykja ekki mjög eftirsóknarverðir.
    Hlutverk ríkisins eftir þessar breytingar verður í fyrsta lagi það að móta skólastefnuna, setja lagarammann utan um skólastarfið í landinu og móta skólastefnuna. Ríkið á áfram að sjá skólum fyrir námsgögnum, þó að það sé svolítið óljóst hvernig það verður gert. Ríkið ákveður aðalnámsskrána. Ríkið sér um að semja samræmd próf og ríkið á að hafa eftirlit með skólastarfinu og leggja mat á það sem þar fer fram með ýmsum aðferðum, þó að það sé líka eitt af því sem er mjög óljóst í frv., hvernig eftirlitið og matið á að fara fram.
    Ég vil varpa fram þeirri spurningu, fyrst menn eru að gera svona miklu breytingu á skólastarfinu og flytja það yfir til sveitarfélaganna, er þá sveitarfélögunum ekki allt of þröngur stakkur skorinn? Ættu sveitarfélögin ekki að hafa meiri áhrif á mótun skólastefnunnar en hér er gert ráð fyrir? Ríkið ætlar meira að segja að hafa hönd í bagga með þeim valgreinum sem á að bjóða upp á. Og hver er kostur þess að færa skólana yfir til sveitarfélaganna ef þau hafa svona lítil áhrif á innra starf og á skólastefnuna sjálfa? Ég veit að vísu að þetta hefur t.d. verið mjög umdeilt í Svíþjóð, þar sem sveitarfélögin hafa nokkur áhrif á mótun skólastefnunnar. Þar hefur komið upp mikill mismunur, bæði á milli skólahverfa og á milli svæða. Þetta er ákaflega umdeilt og þetta er bara ein af þeim spurningum sem þarf að hugsa sig í gegnum. Er bara verið að velta kostnaðinum yfir á sveitarfélögin til þess að létta af ríkinu eða er tilgangurinn sá í rauninni að dreifa valdi og sjá til þess að fleiri komi að mótun skólastefnunnar heldur en nú er? Er það einhver kostur í sjálfu sér að mótun allrar skólastefnu fari fram í menntmrn. og hvernig ætlar menntmrn. að standa að mótun þeirrar skólastefnu? Þannig að það eru mjög miklar grundvallarspurningar sem hér þarf að spyrja.
    Varðandi þennan flutning til sveitarfélaganna þá, eins og ég hef kannski verið að ýja að hérna, kallar það á breytta hugsun. Þetta er ekki bara tilfærsla á kostnaði, þetta er kerfisbreyting. Þetta er mikil breyting á skólakerfinu og menn verða að hugsa það algerlega upp á nýtt hvað í því felst og spyrja sig í rauninni þeirrar spurningar: Hvert á vald sveitarfélaganna að vera?
    Ég gæti haldið hér lengi áfram að velta fyrir mér þessum grundvallarspurningum, en ég ætla að snúa mér að nokkrum atriðum frv. sjálfs og verð að snúa mér seinna að hinum stóru línum í þessu máli. En fyrsta spurningin sem vaknar hjá mér er varðandi 2. gr. þessa frv. þar sem kveðið er á um það að starfshættir skólans skuli mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi. Við þurfum að spyrja okkur þess í alvöru hvort það eigi að taka það fram í lagatexta að íslenska skólakerfið eigi að byggjast á kristilegu siðgæði. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því þó að kristin kirkja, lútersk kirkja, sé hér ríkiskirkja samkvæmt stjórnarskrá, að þá eru að verða hér miklar breytingar og hingað hefur flust fólk frá ýmsum þjóðlöndum og við eigum auðvitað að virða trúfrelsi og skoðanafrelsi fólks og mér finnst í raun og veru óþarfi að hafa þetta inn í lagatexta.
    Það ber að fagna því að með lögum skuli vera kveðið á um einsetinn skóla og máltíðir í skólum og lengingu skólatíma og fleira sem hér er kveðið á um og er löngu tímabært og ætti að hafa komist á fyrir lifandi löngu. En ég spyr mig: Hvernig á þetta að gerast og hvernig á að afla fjármagns til þessara breytinga? Það er búið að leggja mat á það hjá Reykjavíkurborg hvað þetta þýðir og þetta þýðir einfaldlega að í Reykjavík þarf að byggja fjölda nýrra skóla. Og eins og Sjálfstfl. skildi við Reykjavíkurborg þá eru ekki miklar líkur á því að það takist að byggja hér upp marga grunnskóla á næstu árum, þó að reyndar hafi þegar verið ákveðið að hefja byggingu tveggja. En þarna kemur einmitt fram þessi mikla breyting, hún felur í sér m.a. að það þarf marga nýja skóla.
    Varðandi Reykjavík þá vaknar spurning varðandi þessi ákvæði hér um skólahverfi. Er skynsamlegt að Reykjavík, með sinn fjölda af grunnskólum, sé eitt skólahverfi eða væri ekki nær að skipta borginni upp í fleiri hverfi? En þá vaknar spurningin: Hvar á yfirsýnin að vera? Hvar verður þá yfirsýnin yfir skólana í Reykjavík sem borgarstjórnin verður að hafa? En þarna verður um allviðamikið starf að ræða sem skólanefnd Reykjavíkur mun hafa á sínum snærum og þar kem ég einmitt að skólanefndunum.
    Ég er mjög hlynnt því að draga foreldra og aðra sem áhuga hafa á skólastarfi inn í starfið og ég hef kynnt mér það lítillega í Danmörku þar sem foreldrar eiga sæti í skólanefndum og hafa þar full áhrif, að samkvæmt því sem ég hef heyrt, þá er það talið hafa haft mjög góð áhrif á skólakerfið í Danmörku. Foreldrar sinni skólunum miklu betur, þeir fylgist betur með, þeir séu mun reiðubúnari til þess að ganga til liðs við skólana og að taka þátt í tómstundastarfi og ýmsu því sem þeir geta liðsinnt með. Og ég vil gera athugasemd við það að foreldrar skuli ekki eiga beina og fulla aðild að skólanefndunum. Það er farin sú leið hér að kennarar og foreldrar eru áheyrnaraðilar með málfrelsi og tillögurétt, en mér hefði ekki þótt neitt að því að foreldrar hefðu átt þarna fulla aðild. Og ég spyr mig að því: Er einhver meiri ástæða til þess að VSÍ og ASÍ eigi aðild að t.d. húsnæðisnefndum sveitarfélaganna, þeir eru þar svokallaðir hagsmunaaðilar, heldur en það að foreldrar eigi beinan aðgang að skólanefndum og hafi þar áhrif. Ég held að það væri ástæða til þess að skoða þetta mál svolítið nánar en hér er gert. Það er mikil ástæða til þess hér á landi að gera foreldra miklu ábyrgari gagnvart skólastarfi en þeir eru nú og ég held að kennarar og þeir sem eru gagnrýnir á það að fólk komi nálægt stjórn skóla sem ekki hefur faglega menntun á því sviði, að fólk eigi að vera opið fyrir þessum breytingum og að treysta því að sveitarstjórnir, sem eru okkar kjörnu fulltrúar, vandi valið á fólki til skólanefnda. Auðvitað eru skiptar skoðanir í skólamálum og það er af hinu góða að það eigi sér stað umræða um skólamál. Þetta er mál sem snertir alla þegna samfélagsins og er ekkert einkamál kennarastéttarinnar eða skólastjórnenda. Þetta er mál sem þarfnast mikillar umræðu og mikillar umhyggju og einmitt tengist því að við þurfum að fá mjög góða og mikla umræðu um það frv. sem hér er til umræðu.
    Ég ætla aðeins að koma inn á það atriði sem snertir ráðningu kennara og sem hefur nokkuð komið hér til umræðu. Kennarar velta því m.a. fyrir sér hvort þarna sé staðið eðlilega að málum, hvort skólastjórar eigi ekki að hafa meira um ráðningu kennara að segja en gert er ráð fyrir í þessu frv. og ég held einmitt að það sé mikil ástæða til þess að athuga það nánar. Einmitt í því sambandi vil ég ítreka spurningu sem kom fram áðan hjá síðasta hv. ræðumanni um það hvernig verður háttað þjálfun kennaranema. Hvaða hugsun er hér að baki varðandi þjálfun kennaranema? Er sem sagt meiningin að Kennaraháskólinn geri samninga við alla grunnskóla í landinu eða hvernig verður tryggt að kennaranemar fái nauðsynlega þjálfun. Eins eru spurningar sem varða endurmenntun kennara og símenntun. Þær vakna auðvitað við þessar breytingar. Hvernig verður henni háttað? Eiga sveitarfélögin að gera samning við ríkið um endurmenntun eða við Kennaraháskólann eða hvernig á að koma þeim málum fyrir? Ég sá það nú fyrir mér að ef staðið hefði verið við þá áætlun að lengja skólaárið í 10 mánuði þá hefði allt endurmenntunarkerfi kennara verið rúst og það hefði haft í för með sér enn þá meiri breytingar og hefði þá þurft að koma því fyrir með einhverjum öðrum hætti. En það var sem betur fer hætt við þá breytingu, enda mun mikilvægara að byrja á því að einsetja skólana, lengja kennsludaginn og auka kennsluna á þessum 9 mánuðum sem við höfum nú til umráða heldur en að lengja sjálft skólaárið.

    Gert er ráð fyrir því í frv. að það starfi sjóður sem ætlað er að standa undir endurmenntun kennara og skólastjóra, 1% af dagvinnulaunum kennara, en það er svona líkt fyrirkomulag og nú er. En við þennan tilflutning þarf að skoða það hvernig þessum málum verður fyrir komið og hvernig það verður tryggt að kennarar eigi aðgang að endurmenntun þegar það fer ekki lengur í gegnum ríkið.
    Aðeins varðandi 29. gr., þar sem vikið er að aðalnámsskrá skólanna. Þarna kemur auðvitað spurningin um það, hver á að semja þessa námsskrá, hvernig verður að því staðið, hverjir koma að því verki? Og varðandi markmið kennslunnar þá segir hér, með leyfi forseta:
    ,,Markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skulu vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúarbragða eða fötlunar.``
    Ég held að ég fari rétt með það að þetta sé nokkurn veginn óbreytt frá gildandi lögum, en auðvitað vaknar sú spurning hvað menn eiga við með mismunun og hvort þetta þýði t.d. að það megi ekki kenna stelpum sérstaklega og strákum sérstaklega. Hvernig skilja menn reglur eins og þessa? Nú vitum við það að það eru nýlegar rannsóknir á því að sumt af því námsefni sem hér er notað í skólum, bæði í grunnskólum og framhaldsskólum, er mjög mótað af gömlum kynjahlutverkum og er alls ekki til þess fallið að ýta undir stelpur sérstaklega og að búa þær betur undir líf í lýðræðisþjóðfélagi eins og tilgangurinn er með skólakerfinu, skilgreint markmið. Þarna er því enn ein spurningin sem vaknar: Hvernig verður staðið að því að fylgja þessum markmiðum eftir? Hvernig verður staðið að námsefnisgerð? Og hvað meina menn með þessari mismunun? Telst það vera mismunun t.d. að kyngreina bekki sem er verið að gera tilraunir með víða og hefur gefist vel, t.d. í Danmörku, um sinn?
    Það er eitt atriði sem ég vildi gjarnan fá skýringu á og það er varðandi 35. gr. frv. þar sem gefin er heimild til þess að veita nemendum frí frá námi að loknum 9. bekk í allt að eitt ár vegna þátttöku í atvinnulífi og lýkur nemandinn þá grunnskólanámi síðar. Ég veit ekki hvort það er réttur skilningur að þetta sé úrræði til þess að kippa í liðinn einhverjum vandræðum eða hver er eiginlega hugsunin í þessu? Ég hefði talið það eðlilegra að nemendur lykju skólanum en kannski er þetta einmitt eitthvert úrræði. Það stendur ekki að það eigi að senda nemendur í sveitina en þetta er sú gamla trú að það sé hið mesta og besta læknisráð að senda fólk í vinnu, en það er náttúrlega spurningin ef þetta á að vera einhvers konar úrræði til þess að leysa vanda nemenda, er þá einhver aðstoð í þessu falin?
    Hér væri ástæða til þess að hafa langt mál um sérkennsluna og hvernig henni verður háttað. Ég kom aðeins inn á það fyrr hversu gríðarlega aukin þörf er fyrir sérkennslu og ég vil einmitt ítreka þá spurningu sem hér hefur áður komið fram hvernig sveitarfélögin eiga að geta haldið uppi sérskólum. Maður sér það fyrir sér að Reykjavíkurborg og hugsanlega sveitarfélög hér á höfuðborgarsvæðinu hafi til þess bolmagn en það er vandséð að önnur sveitarfélög geti það. Þarna er í raun verið að hugsa kerfið eins og það er, færa það eins og það er yfir til sveitarfélaganna. En spurningin er hvort þetta gengur upp. Það er auðvitað algjörlega óviðunandi að þjónusta verði á nokkurn hátt skert við nemendur sem þurfa á sérþjónustu að halda. Og hvort sem þar er um að ræða fatlaða nemendur eða nemendur sem eiga í erfiðleikum af öðrum ástæðum þá kemur það einfaldlega bæði niður á þeim sjálfum og samfélaginu ef ekki er tekið á þeirra málum strax. Það er bara verið að búa til nýjan vanda með því.
    Aðeins hér um prófafarganið eins og það er kallað og námsmat og fleira og stærð í bekkjum þá er ég þeirrar skoðunar að það sé full þörf á því að skoða stöðu nemenda oftar en gert er núna. Það má spyrja sig hvort það að hafa samræmd próf eða könnunarpróf í 4., 7. og 10. bekk sé of mikið en ég held að það sé einmitt einn stærsti gallinn á okkar grunnskólakerfi að nemendur fljóta í gegn án þess að það sé tekið á þeirra vandamálum. Vandanum er ýtt upp í framhaldsskólann sem hefur orðið að bregðast við þessum straumi nemenda sem ekki ræður við það sem þar er verið að gera og þarna er bara verið að ýta vandanum á undan sér. Ég held að með því að skoða stöðu nemenda oftar þá fái skólinn fleiri úrræði eða þá á hann þess kost að taka á vanda nemenda og við verðum bara að horfast í augu við þessar breytingar og þann slælega undirbúning sem því miður allt of mörg börn koma með inn í skólann. Það verður bara að horfast í augu við þetta.
    Varðandi fjölda í bekk þá finnst mér í umræðunni að menn séu að ganga mjög mikið út frá óbreyttu kerfi, út frá því bekkjakerfi sem hefur tíðkast og ég skil að sjálfsögðu þau sjónarmið kennara að við hefðbundna kennslu mega hópar ekki vera allt of stórir. En það eru til ýmis kerfi og m.a. í Bretlandi hafa menn einmitt verið að bregðast við sérþörfum nemenda með því að mynda stóra hópa, taka svo út litla hópa í ýmsar greinar í stuðningskennslu, í sérkennslu, en þau eru kannski í bekknum sínum tiltölulega fáar stundir. Það verður að hugsa þetta út frá því að skólarnir geti þróað sín kerfi en auðvitað þarf að sjá til þess að það sé ekki verið að troða allt of mörgum nemendum inn í stofur eins og hér hefur verið gert í allt of ríkum mæli og leggja óhæfilega vinnu á kennara. Það er auðvitað staðreynd að í íslensku skólakerfi hefur aldrei verið brugðist við þeim breytingum sem fólust í því þegar hætt var að raða í bekki eftir námsgetu. Bekkirnir voru einfaldlega allt of stórir og það er ein skýringin á þeim vanda sem við er að stríða að það er verið að gera kennurum að kenna allt of mörgum börnum. Ég þekki ekki nógu vel hvernig það hefur gefist að blanda fötluðum nemendum inn í skólakerfið sem að mörgu leyti er gott fyrir þau en ég spyr þeirrar spurningar hvort skólakerfið hafi verið undir það búið. Það er nefnilega allt of mikið um það hér að teknar eru ákvarðanir um breytingar án þess að hugsa þær í gegn, án þess að undirbúa þær. Ég get ekki stillt mig um að nefna hér enn einu sinni þá breytingu sem samþykkt var í tíð fyrrv.

hæstv. menntmrh. Svavars Gestssonar þegar framhaldsskólinn var opnaður öllum nemendum án þess að skólakerfið væri á nokkurn hátt undir það búið að taka við því. ( SvG: Þingmaðurinn veit bara ekkert hvað hann er að tala um.) Þingmaðurinn sem hér stendur var kennari í framhaldsskóla þegar þessi breyting átti sér stað
    ( Forseti (GunnS) : Háttvirtur.)
    ... háttvirtur, og skólakerfið er einmitt enn þá að glíma við þann vanda sem þá skapaðist. Þetta var óundirbúið, hv. þm. Svavar Gestsson.
    Virðulegi forseti. Sannleikurinn er sá að þetta frv. er svo viðamikið að það er varla nokkur leið að ná utan um það á þessum 40 mínútum sem ég hef til ráðstöfunar. Það sem ég hef verið að segja eru ýmsar vangaveltur og spurningar sem vaknað hafa upp í sambandi við frv. Ég get ítrekað það að mér finnst margt vera gott í frv. en það er líka mjög mörgum spurningum ósvarað. Ég get tekið undir það sem kemur fram í þeim gögnum sem Kennarasambandið og Hið íslenska kennarafélag hafa sent frá sér þar sem lögð er áhersla á að gengið verði frá fjármálum og samningum og lífeyrismálum kennara áður en þessi flutningur á sér stað. Það er reyndar það sem kemur fram í ályktun Sambands ísl. sveitarfélaga frá þessu ári þar sem það er gert að skilyrðum að samkomulag hafi náðst um alla þá þætti sem þarf að ganga frá milli ríkis og sveitarfélaga áður en þessi flutningur á sér stað og það er auðvitað mjög skiljanlegt að sveitarfélögin skuli setja þessi skilyrði því að samskipti þeirra við núv. ríkisstjórn hafa ekki verið með þeim hætti að þau beri sérstakt traust til ríkisstjórnarinnar. En þarna er auðvitað um framtíðarhagsmuni barna, foreldra, kennara og reyndar þjóðfélagsins alls að ræða, og ég vil gera það hér að mínum lokaorðum að við þurfum að gefa okkur mjög góðan tíma í þetta mál. Það þarf að fá rækilega umfjöllun úti í þjóðfélaginu með þeim breytingum sem nú hafa verið gerðar á frv. Og málið er nú það, virðulegi forseti, að það þarf að nást breið samstaða um það hvernig skólakerfið á að vera og það gengur auðvitað ekki að menntamálaráðherra eftir menntamálaráðherra setji á laggir nýjar og nýjar nefndir sem koma með viðamiklar tillögur sem lenda svo allar í ruslafötunni af því að ýmist er ekki reynt að ná breiðri samstöðu eða vegna þess að tillögurnar koma svo seint fram að það gefst ekki tími til að afgreiða þær fyrir kosningar og nýr menntmrh. byrjar á verkinu upp á nýtt. Svona er auðvitað ekki hægt að standa að málum. Ég gagnrýni það harðlega hvernig hæstv. menntmrh. stóð að skipun nefndarinnar sem samdi þetta frv. Ég held að það hefði verið miklu affarasælla að kennarar og fulltrúar stjórnmálaflokkanna hefðu átt þar aðild með fagfólkinu. Ég viðurkenni það að það er mikið af góðu fagfólki í nefndinni en til þess að ná breiðri samstöðu þá er auðvitað nauðsynlegt að standa þannig að verki að sem flestir hafi tækifæri til þess að segja álit sitt þannig að öll sú vinna sem liggur í þessu frv. endi ekki á ruslahaugum sögunnar.