Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 16:31:18 (993)


[16:31]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að við skulum horfa fram á veginn og horfast í augu við það ástand sem við okkur blasir, en það sem ég er fyrst og fremst að leggja áherslu á hér og vil endurtaka enn einu sinni er auðvitað það að við reynum að átta okkur á því hvað við erum að gera og hvaða afleiðingar það hefur. Og það er alveg furðulegt á þeim tíma þegar þessi ákvörðun var tekin ef fólk hefur ekki áttað sig á því hvað í henni fólst. En þetta eru dæmigerð íslensk vinnubrögð að ana áfram án þess að spyrja um nokkurn skapaðan hlut og ætla bara að redda hlutunum seinna meir, en ákvarðanir eins og þessar, ekki síst um jafnalvarlegt mál og skólakerfið þurfa að vera vel ígrundaðar. Og það er einmitt tækifæri til þess nú að vanda mjög vel meðferð þessa máls og reyna að átta okkur á því hvaða breytingar þetta eru, hvað þær kosta, hvaða afleiðingar þær hafa og hvort þær eru til bóta eður ei.