Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 18:10:24 (1001)


[18:10]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins um sérkennsluna. Í 54. gr. grunnskólalaga segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Börn og unglingar sem að dómi kennara og annarra sérfræðinga skóla og fræðsluskrifstofu þurfa sérkennslu vegna erfiðleika í námi, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar eiga rétt á kennslu við sitt hæfi sbr. 2. gr. Kennslan getur verið einstaklingsbundin eða farið fram í hópi, innan eða utan almennra bekkjardeilda, í sérstökum deildum eða í sérskóla.``
    Fyrstu tvær málsgreinar 54. gr. grunnskólalaganna. Og ég fullyrði: það er ekkert í frv. sem kemur í staðinn fyrir þessar greinar, en það er bent á tvennt í málsmeðferðinni sem vísar í þessa átt. Það er annars vegar 37. gr. og þó sérstaklega síðasta málsgrein greinargerðarinnar með greininni, sem er nú dálítið tæpt. Í öðru lagi hugmyndirnar um að jöfnunarsjóður fái aukið framlag til þess að kosta sérstök jöfnunarverkefni sem sveitarfélögin telja óhjákvæmilegt að grípa til. Þetta kemur fram í þessari skýrslu hér, sem var gefin út í síðasta mánuði. Að öðru leyti hef ég ekkert séð um þetta mál. Það síðarnefnda sem ég nefndi varðandi jöfnunarsjóðinn finnst mér alveg fáránlegt. Ef það er svo að félmrh. eigi að verða menntmrh. í hjáverkum, það tel ég algjörlega út í hött, með því að setja reglugerð um sérkennslu af einu eða öðru tagi.
    En aðalatriðið er að ákvæði 1. og 2. mgr. 54. gr. grunnskólalaganna eru felld niður. Þar með er réttur barnanna tekinn út. Það er aðalatriðið.