Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 18:12:38 (1002)


[18:12]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér fannst mjög mikilvægt það sem kom fram í máli hv. 10. þm. Reykn., sem er formaður þeirrar nefndar sem hafði veg og vanda af þessu frv., að hún lítur svo á varðandi kostnaðinn að það eigi að meta verkefnin með tilliti til nýrrar lagasetningar og nýrra krafna samkvæmt þeim lögum. Ég vil því spyrja hv. þm. hvort í þessari afstöðu hennar felist þá ekki það sem kom fram í mínu máli áðan, að ríkið eigi að taka þátt í kostnaði við einsetningu skóla. Þannig að við erum ekki að ræða hér um verkefnaflutning upp á fimm eða sex milljarða heldur tólf eða þrettán. Ég vil fá þetta alveg skýrt.
    Síðan varðandi það sem hv. þm. nefndi um sérkennsluna og sérkennsluúrræðin, þá fannst mér koma fram í hennar máli staðfesting á því sem ég og fleiri hafa haldið hér fram, að þetta er allt saman galopið og mér finnst vera lítil trygging eða haldreipi í þessum ákvæðum frv., að sérkennsluúrræðin verði ekki síðri heldur en þau hafa verið hingað til.
    Varðandi það sem ég sagði, að það kæmi fram í frv. að kennslan eigi að fara fram í heimaskólum nemandans eins og frekast er kostur. Þingmaðurinn áleit að það væri rangt, að það stæði ekki. Það stendur í skýringum um 37. gr. og það er litið á skýringar í þessari grein þegar verið er að athuga lagagreinarnar og skýringu með henni, þar stendur: ,, . . .  að kennsla fari fram í heimaskóla nemandans eins og frekast er kostur.``