Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 18:50:11 (1009)


[18:50]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég sé nú ekki fyrir mér þörf á að halda sérstakt aukaþing út af þessu. Ef þetta frv. verður á annað borð samþykkt á þessu þingi, þá verður það gert fyrir febrúarlok vegna þess að það er ekki gert ráð fyrir að þingið standi lengur. Þá eru eftir nokkrir mánuðir til þess að ganga frá samningum við kennara því að yfirfærslan á ekki að eiga sér stað fyrr en 1. ágúst. Ég sé ekki hvers vegna sá tími ætti ekki að duga.
    Varðandi hitt atriðið um að það ætti eftir að setja ný lög um tekjustofna sveitarfélaga, þá liggur alveg ljóst fyrir að þau verða ekki sett fyrir þennan tíma. En það þarf ekki að þýða það að málið sé óleysanlegt. Sjá menn virkilega engar bráðabirgðalausnir í þessu sem dygðu fyrir árið 1995? (Gripið fram í.) Af hverju ekki? Ég nefni bara eitt atriði sem við getum haft til hliðsjónar. Það er þegar ákveðið var að fella aðstöðugjaldið niður hjá sveitarfélögunum. Þau fengu greidda þá upphæð sem ætlað var að þau mundu innheimta í aðstöðugjaldi það árið sem þessi breyting átti sér stað og á meðan löggjöfinni hafði ekki verið breytt um staðgreiðsluna. Ég sé það fyrir mér að auðvitað megi leysa þetta svona. Sjálfsagt eru einhverjar fleiri leiðir til en ég sé hins vegar ekki fyrir mér að lögunum um tekjustofna sveitarfélaga sem mundu þá kveða á um aukna hlutdeild þeirra í tekjuskattinum, í staðgreiðslunni, yrði breytt á þessu tímabili. Til þess vinnst ekki tími, það er ljóst. En það breytir ekki þeirri skoðun minni að það sé hægt að leysa þetta ef vilji er fyrir hendi.