Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 19:00:14 (1015)


[19:00]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil nú ekki láta snúa út úr fyrir mér. Ég hef aldrei látið það í ljós að það sé ekki vilji hjá mér að ganga frá samningum við sveitarfélögin. Ég hef bara ekki reiknað með að hægt væri að gera það fyrr en þetta frv. væri orðið að lögum. Ég get vel hugsað mér og reikna að sjálfsögðu með því að það verði teknar upp viðræður við sveitarfélögin. Ég hef sagt að um leið og frv. væri komið fram þá yrðu þær viðræður að sjálfsögðu hafnar. En ég sé einhvern veginn ekki fyrir mér að hægt sé að ganga frá samningunum á meðan frv. er enn til meðferðar. Ef sveitarfélögin vilja það með alls konar efum, ef þetta og hitt nær fram að ganga, þá skal ég aldeilis ekki þvælast fyrir því. ( RA: Og ekki á meðan kjarasamningar eru ógerðir.) Nei, ég hélt að það væri svo augljóst mál að við gætum ekki lokið slíkri samningagerð. Ég sagði áðan að við vitum ekki hver hin fjármálalega yfirfærsla verður frá ríkinu til sveitarfélaganna fyrr en við vitum hvaða laun á að borga kennurum. Ég hef sagt og get ítrekað það enn og aftur að þess vegna verður samningagerðin núna í fyrsta sinn að eiga sér stað af ríkinu. Svo verður það auðvitað

ekki meir, eftir það er nýr viðsemjandi sem eru sveitarfélögin.
    Það sem segir í skýrslunni um Námsgagnastofnun er skoðun þeirrar nefndar, sem hefur tekið saman allan kostnað sem ríkið hefur í dag af grunnskólanum, og þar er ekkert annað en það.