Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 19:02:38 (1016)


[19:02]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Mér þykir mjög merkilegt ef nefnd á vegum menntmrn., sem leggur til kostnaðarmat á yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna, hafi sérskoðun sem er ekki í samræmi við þá skoðun sem menntmrn. annars hefur í málinu. Það þykir mér mjög sérstakt. Þá er ég að tala um Námsgagnastofnun. Ég tók það sérstaklega út vegna þess að ráðherrann virtist vera svo gáttaður á þeim spurningum sem þingmenn báru fram.
    Ég lít svo á að ég þurfi ekki að lesa fyrir ráðherrann upp úr ályktun Sambands ísl. sveitarfélaga. Þó vil ég lesa eina setningu þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Niðurstaða þarf að hafa náðst í þessum málum fyrir áramót svo yfirtaka sveitarfélaga geti átt sér stað á næsta ári.``
    Þetta mat þeirra, annars telja þeir að þurfi að fresta málinu og málið snýst kannski fyrst og fremst um það.