Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 21:47:24 (1029)


[21:47]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Þetta hefur um margt verið fróðleg umræða sem hér hefur farið fram í dag og er það vel þar sem um jafnstórt mál og grunnskólann er að ræða og framtíðarstefnumótun í honum.
    Ég ætla að mestu leyti að takmarka mig við sameiginlegt áhugamál okkar hæstv. menntmrh. sem er aukin verkmenntakennsla. En því miður hefur mér fundist nokkuð skorta á að því væri sinnt nema þá helst í orði að ætla sér eitthvað um úrbætur. Miðað við yfirlýsingar hæstv. ráðherra --- og vona ég að hann heyri orð mín. Er ekki víst, hæstv. forseti, að ráðherra sé hér að hlusta eða er hann vant við látinn?
    ( Forseti (KE) : Hann er að hlusta.)
    Hann er að hlusta, já það er gott því það er ekki sama að vera á svæðinu og vera að hlusta. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sjái því stað innan þessa grunnskólafrv., ef að lögum verður, að það sé hægt að bæta við verkmenntakennslu miðað við þær aðstæður sem skólar búa hér við. Mér er ljóst að það er nokkurt svigrúm með lengingu skólatíma en það er ekki nóg að hafa svigrúm í tíma ef ekki er sérstaklega ætlað fjármagn til að fylgja því eftir. Ég get ekki séð á þeim gögnum sem fylgja þessu

frv. að það sé neinn sérstakur heimanmundur sem mun fylgja þessum áherslum ef það er rétt skilið hjá mér að hæstv. ráðherra hafi það enn á sinni forgangsstefnuskrá að það verði stutt við bakið á slíkri kennslu. Það er ljóst að list- og verkmenntakennsla er miklum mun dýrari vegna þess að í flestum tilvikum þarf að hafa færri í hóp. Það er líka aukinn kostnaður vegna tækjabúnaðar og ýmislegt fleira sem þar þarf að koma til. Þannig að ef þau sjónarmið sem ég veit að hæstv. ráðherra hefur mjög talað fyrir eiga að birtast í þessu frv. þá hlýt ég að lýsa eftir því. Vissulega kemur þarna fram í b-lið 30. gr. þessa frv. að listir og verkmenntir eigi að vera í aðalnámsskrá og þar skuli setja ákvæði um inntöku og skipulag náms. Þetta er eitt af níu sviðum sem þar eru sérstaklega tilgreind. Ef þetta á ekki bara að vera stafur á bók þá hlýtur að þurfa að koma meira til og ég leitaði í frv. að þessum áherslum og verð að viðurkenna að ég finn þær ekki. Það má vel vera að sá hugur fylgi og mér er það ljóst að það er svigrúm ákveðið til þess en ekki nema peningar fylgi.
    Það er einnig mjög nauðsynlegt í ljósi þessa að skoða saman grunnskóla- og framhaldsskólafrv. Þótt það sé ekki til umræðu hér í dag þá verður væntanlega mælt fyrir því í næstu viku, mér skilst að það sé á áætlun. Ef þar fer sem horfir að þar sé verið að reyna að móta stefnu sem eflir verkmennt hér á landi þá verður að leggja grunninn strax á fyrstu skólastigum, leikskólastigi og grunnskólastigi. Til þess að það sé hægt á grunnskólastigi þá mun þurfa að breyta kennsluháttum verulega. Þar þarf líka á verulegri sérfræðiráðgjöf að halda sem sveitarfélög verða að geta sótt sér og þeir skólar sem á þeirra vegum starfa. Það held ég að sé alla vega eftir því sem ég kemst næst nokkuð sem þarf miklu betri og meiri útfærslu. Þetta er ekki eitthvað sem gerist af sjálfu sér með góðum vilja, við búum því miður við þá stöðu að hér er þessum greinum virkilega ýtt úr í horn allt of víða vegna aðstöðuleysis og peningaleysis. Ef það á með þessu grunnskólafrv. að fara að gera þarna bragarbót þá vil ég fá að vita hvernig það er hugsað.
    Það er ekki sjálfgefið að sveitarfélög muni leggja þessar áherslur. Þó að það sé vissulega mikið af skynsömu fólki sem velst í skólanefndir og starfar í sveitarstjórnum og ekki nema gott eitt um það að segja þá held ég engu að síður að það sé ofætlað að halda að á einni nóttu breytist sú hefð sem við búum við sem er fyrst og fremst bóknámshefð. Það mun þurfa meira til en góðar áætlanir góðs fólks til að það gerist eitthvað í því. Þarna þarf fagmennsku og skólapólitík og um þessa skólapólitík þarf að sameinast ef menn á annað borð eru reiðubúnir til að stíga þetta skref og gera þessum greinum hærra undir höfði.
    Ég get ekki séð að þeir tekjustofnar sem hugsað er að fylgi grunnskólanum yfir til sveitarfélaganna og ég tek undir gagnrýni þá sem fram hefur komið hér í dag að þar er allt of margt óljóst. En ég get ekki séð að þarna sé sérstaklega verið að taka tillit til þessara atriða og hæstv. ráðherra leiðréttir mig þá ef mér hefur eitthvað yfirsést þar. Þessu atriði held ég að þurfi að gefa mjög góðan gaum í umfjöllun málsins innan hæstv. menntmn. Ég vona að hæstv. menntmrh. sé mér sammála um að það verði að fylgja þessu máli eftir og jafnvel hafa ákveðið frumkvæði til að hér sé ljóst að hugur fylgi máli.
    Þetta er það atriði sem ég hef kannski helst saknað í þeirri umræðu sem ég hef heyrt hér í dag án þess að það hafi alveg verið vanrækt því hér er um mjög viðamikið mál að ræða. Ég get út af fyrir sig tekið undir ekki bara þá gagnrýni á ýmislegt óljóst varðandi fjármögnun þessara mála og vanáætlun vegna kostnaðar heldur líka undir þær athugasemdir sem fram hafa komið um að ekki skuli vera ákvæði um fjölda nemenda í bekkjum.
    Hæstv. menntmrh. sagði í ræðu sinni fyrr í dag að hann mundi ekki gera ágreining ef þessum ákvæðum eða þessari grein yrði breytt í meðförum nefndarinnar eða svo skildi ég hann. Hann hefði sem sagt ekki á móti því að það ákvæði yrði sett inn ef hv. menntmn. teldi það vera heppilegt. Mér finnst þetta kannski ekki alveg nógu ígrundað vegna þess að ég held að þetta hefði þurft að fylgja með frá upphafi. Séu önnur rök og vangaveltur fyrir hendi eins og fram hefur komið í ýmsum ábendingum um aðra möguleika í skólastarfi þá hefði í raun og veru þurft að fylgja þessu eftir. Þarna kemur aftur að því sem ég vil kalla skólapólitík. Ég held einfaldlega að ef við erum að tala um jafnrétti til náms þá sé engin ástæða til og ekkert vantraust á sveitarstjórnir þó að maður geri ekki ráð fyrir því að frumkvæði komi upp hér og þar um land. Ég held að það sé einfaldlega ekki hægt að ætlast til þess. Ef þarna er um ákveðnar áherslur að ræða sem menn vilja breyta og hafa meiri sveigjanleika og svigrúm þá verður það líka að koma fram með einum eða öðrum hætti ef við erum þá að tala um að það sé enn sú hugmynd að tryggja jafnrétti til náms þrátt fyrir þessa tilfærslu. Það hefur komið hér margoft fram að það er enginn að hverfa frá því, alla vega ekki í orði.
    Það eru einstök stök atriði sem ég held að sé full ástæða til að hlaupa hér í gegnum þó þau séu ekki endilega skyld og ég er ekki með neina yfirlitsræðu um málið. Hér hafa aðrar kvennalistakonur talað á undan og tekið það að sér en ég hef fyrst og fremst erindi hingað vegna þess að ég á ekki sæti í menntmn. hv. og vil ég gjarnan koma að stökum ábendingum.
    Þá vil ég í fyrsta lagi geta þess sem gott er. Ég fagna því að í 36. gr. og e.t.v. víðar er verið að ræða sérstaklega um rétt nýbúa. Eins og fyrr hefur komið fram hér á Alþingi þá höfum við hæstv. ráðherra átt tal um þau málefni oftar en einu sinni. Ég verð að segja að þar hef ég verið ánægð með áherslur og árangur. Það er sjálfsagt að geta þess sem gott er líka. Hins vegar hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sér þessi mál fyrir sér í framtíðinni og hvort það sé ástæða til að það sé sérstaklega hugað að því hvernig eigi að haga varðandi tilfærslu. Hvernig í rauninni við náum utan um þá framkvæmd sem er á því að tryggja nýbúabörnum kennslu. Eins og segir í 36. gr., með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Nemendur sem hafa annað móðurmál en íslensku eiga rétt á sérstakri kennslu í íslensku sem öðru tungumáli.
    Heimilt er að veita þessum nemendum undanþágu frá því að þreyta samræmt lokapróf í íslensku og leggja fyrir þá sérstakt lokapróf í íslensku.
    Menntamálaráðherra setur nánari reglur um kennslu þessara nemenda.``
    Í greinagerð fjmrn. kemur ekki fram að það eigi að fylgja þessum pósti sérstakt fjármagn. Í athugasemdum um 36. gr. kemur fram að árið 1993 fékkst sérstök fjárveiting til kennslu erlendra nemenda. Nú á haustdögum 1994 eru 350 nemendur a.m.k. sem flokkast undir þennan hóp.
    Ég get ekki séð að það sé sérstaklega verið að velta fyrir sér hvort eitthvað muni breytast í þessum málum með þessu frv. og ég hef satt að segja svolitlar efasemdir og svolitlar áhyggjur af þessu máli svo framarlega sem það er ekki einhvers staðar annars staðar búið að taka á því þar sem þarna er hreinlega um mjög viðkvæmt og nýsprottið blóm að ræða í íslenskri náms- og kennsluflóru og það má ekki höggva í þetta. Áður var því svo komið fyrir að þarna var tekinn peningur af sérkennslukvóta, ef ég man rétt, áður en sérstök fjárveiting fékkst í þetta. Nú vitum við að það hefur ýmsu ægt saman undir slíkum sérmerktum peningum en eins og fram hefur komið margoft í dag þá eru að verða mjög miklar breytingar á þeim verkefnum sem áður hafa flokkast undir sérkennslu og ég spyr um þennan tiltekna lið í þeim veltum sem þar eru að verða.
    Annað mál sem mig langar að taka hér fram er að taka undir þær ábendingar sem fram hafa komið um það að stóru sveitarfélögin eins og t.d. Reykjavík eru eitt skólahverfi samkvæmt þessu. Ég þykist skynja að það sé ákveðinn vilji til valddreifingar sem fylgir þessu frv. og þess vegna get ég ekki skilið hvers vegna sveitarfélögum er ekki gefin heimild til að skipta sínu sveitarfélagi hverju fyrir sig upp í skólahverfi ef það kýs svo.
    Á fundi sem ég var á í gær kom fram að það er nokkuð kaldhæðnislegt að nú fyrst þegar þessi málaflokkur er að fara yfir til sveitarfélaga skuli farið að taka á því að setja lágmarksmörk sem þýða lengdan vikulegan kennslutíma. Núna þegar sveitarfélögin eiga að fara að taka við þá á loksins að vera hægt að framkvæma þetta. Því miður verð ég að taka undir það það er dálítið kaldhæðnislegt og á þá ekki bara við þann tíma sem núv. ríkisstjórn hefur setið heldur einnig fyrri ríkisstjórnir. Því miður hefur þetta gengið hægt og illa.
    Önnur athugasemd sem ég vil taka undir eru áhyggjur ýmissa um að það sé ekki áætlað ákveðið fjármagn sem þarf til hvers nemanda í námsgögn og það er atriði sem ég held að þurfi að líta á ef ég hef skilið það rétt. Varðandi 41. gr. núgildandi laga þá kemur þar fram að eftir 55 ára aldur kemur ákveðinn afsláttur á kennsluskyldu og ég held að það sé bæði vegna kennara og nemenda skynsamlegt að hafa þann möguleika inni en hann mun ekki vera í hinu nýja frv.
    Það er smávægileg ábending sem ég vil taka undir líka og það er að eðlilegra sé að það sé skóli frekar en sveitarfélög sem ákveði hvenær heppilegt er að afhenda nemendum bækur til eignar. Ég skil svo sem hugsunina í þessu fyrirkomulagi að sveitarfélög ákveði þetta vegna þess að þarna er um ákveðinn kostnað að ræða og maður veit ekki hvort tekjustofnar duga og framlög úr jöfnunarsjóði til þess að gera það sem gera þarf en engu að síður er það ákveðið mat skóla sem ég held að þurfi að vera hjá honum hvaða námsgögn það eru eða bækur sem nemendur eiga að hafa.
    Það hefur svo sem nokkuð oft komið fram og ég tek undir þá ábendingu að nú er verið að rótast eitthvað með listskreytingasjóð og ég get ekki séð þó endurskoðun sé í gangi að þá sé hægt að fara að fella út fjárveitingar sem eiga að fara til listskreytinga fyrr en það er komið með aðra lausn í staðinn. Þarna er einfaldlega verið að gefa færi á því að tryggja ekki þann eðlilega þátt sem ég held að eigi að vera í öllum opinberum byggingum að það sé áætlað ákveðið til listskreytinga. Við hæstv. ráðherra getum verið sammála um að það má alltaf skoða hvort það sé alltaf besta fyrirkomulag fyrir hendi einmitt hér og nú en ég vil halda þessu til haga vegna þess að það er svo oft sem það gerist að það gleymist að athuga svona mál ef fyrst eru felld út ákveðin ákvæði með það í huga að endurskoða síðar.
    Það eru ekki mjög mörg atriði í viðbót sem ég hefði viljað koma að enda er tími minn á þrotum, þannig að hann er alveg greinilega hárnákvæmt mældur.
    ( Forseti (GunnS) : Ég bið hv. þm. velvirðingar en hann hefur enn allmargar mínútur til ráðstöfunar eða helmingi lengri tíma.)
    Virðulegi forseti. Já, mér fannst ég hafa talað dálítið hratt fyrstu 20 mínúturnar þegar ég var allt í einu búin með 21 á svona u.þ.b. einni en ætlaði ekki að fara að gera neina alvarlega athugasemd vegna þess að mér var ekki ljóst hvort það gilti fyrir alla þessi aukni tími eða hvort það var bara fyrir talsmann flokka eins og einstaka sinnum gerist. En mér þykir gott að hæstv. forseti upplýsir þetta. Engu að síður sé ég það að hann hefur mælt þetta nákvæmlega eftir því sem hann hefur ætlað að sá ræðumaður sem hér stendur muni þurfa og fer þar nú nokkuð nærri.
    Ég vil að lokum taka undir að það skýtur svolítið skökku við að í 29. gr. þessa frv. skuli vera sérstaklega tekið fram að markmið náms og kennslu og starfshættir grunnskóla skuli vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, búsetu, stéttar, trúarbragða eða fötlunar. En aftur á móti í markmiðsgreininni, 2. gr., er enn inni þetta orðalag að starfshættir skóla eigi að mótast af kristilegu siðgæði. Nú hef ég ekkert á móti kristilegu siðgæði og raunar þvert á móti þá er ég hlynnt því en ég get ekki

séð hvernig þeir sem tilheyra t.d. öðrum trúarhópum eða engum trúarhópum eiga að finna sig í þessu orðalagi. Ég vil minna á að það er ekki hægt að segja annaðhvort að þetta séu bara innihaldslaus orð, þá á að sleppa þeim, eða hins vegar að hafa þau inni og halda sig við 29. gr.
    Ég geri þessa athugasemd þó að aðrir hafi gert það hér á undan vegna þess að mér finnst þetta grundvallaratriði. Mér er kunnugt um það líka að það er ýmislegt fleira í starfi skóla sem stangast á við þessi ákvæði sem eru sett í 29. gr. og til að mynda eru nemendur í því skólahverfi sem ég þekki best til sem eru teknir úr skóla í desember vegna þess að allur jólaundirbúningurinn stangast á við trú þessara nemenda og foreldrarnir kjósa að taka þá úr skóla á meðan á þessu stendur. Ég er ekki að hafa á móti því að jólaundirbúningur sé í gangi en ég vil bara koma þessari ábendingu á framfæri hér að það verði þá reynt að hugsa þetta sem hátíðarundirbúning og að taka tillit og bera virðingu fyrir því að það eru ekki allir sem hafa fæðst til eða valið sér þau trúarbrögð sem eru algengust hér á landinu og að það verður a.m.k. reynt með einum eða öðrum hætti að hafa þessa 29. gr. í heiðri og að sneiða hjá árekstrum af því tagi sem ég get hér um. Mér er það fullljóst að það er erfitt að hrinda þessu í framkvæmd og það er ekki verið að tala um að svipta börnin jólagleðinni heldur bara að muna að það geta verið önnur sjónarmið og það er áreiðanlega hægt með góðum vilja að taka á því þannig að enginn skaðist.