Grunnskóli

23. fundur
Þriðjudaginn 01. nóvember 1994, kl. 22:59:28 (1032)


[22:59]
     Ágústa Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Frv. það sem hér er til umræðu felur í sér miklar breytingar á skólastarfi í landinu. Það eru vissulega mörg atriði í þessu frumvarpi sem eru jákvæð og vonandi verður framfylgt og fjármagn til þess tryggt. Ber þar hæst ákvæði um aukningu kennslumagns, þ.e. fjölgun kennslustunda á viku og fjölgun virkra kennsludaga og einsetningu skóla. Enn fremur fagna ég þeirri nýbreytni að innleiða gæðastjórnun í skólakerfið. Hins vegar ætla ég ekki að leyna því að ég óttast að við flutning grunnskólans og þar með taldið sérskóla eins og Öskuhlíðarskóla, Hvammshlíðarskóla og Heyrnleysingjaskólann, frá ríki til sveitarfélaganna, þá verði ekki nægilega tryggt jafnrétti til náms. Ég vil spyrja hæstv. menntmrh., hvort það verði tryggt að landsbyggðarnemendur fái pláss í þessum sérskólum?
    Áður en lengra er haldið ætla ég að minnast á eitt atriði sem ekki er í frv. Í gildandi grunnskólalögum stendur í 41. gr., með leyfi forseta:
    ,,Þegar kennari nær 55 ára aldri minnkar kennsluskylda hans um 1 / 6 og er hann nær 60 ára aldri minnkar kennsluskylda hans enn um 1 / 6 af fullri kennsluskyldu. Til þess að öðlast þennan rétt þarf 10 ára kennsluferil.``
    Ég reikna með því að þetta ákvæði sé tekið út vegna þess að hér sé um kjaraatriði að ræða, en benda má á að ákvæði um rétt til endurmenntunar eru enn þá inni í frv. Hins vegar leiðir þetta huga minn að mismunandi stöðu einstakra sveitarfélaga til samninga við kennara. Mér þætti vænt um að hæstv. menntmrh. skýrði þetta nánar. Því var hvíslað að mér líka að það gæti verið að þetta ákvæði þjónaði líka þeim tilgangi að vernda börnin, þ.e. að þreyttir kennarar væru ekki ofnýttir.
    Þrjár hv. þingkonur Kvennalistans hafa í dag fjallað allítarlega um þetta frv. og ætla ég ekki að fara að endurtaka þau atriði sem þær hafa tekið þar fram. En það eru nokkur atriði sem ég vil fjalla sérstaklega um.
    Fyrst er að telja ákvæði um kennslu barna með sérstaka námsörðugleika. Ég vil vekja athygli á því, eins og fleiri, að orðið ,,sérkennsla`` kemur hvergi fyrir í nýju lögunum. Rökin munu vera þau að orðið ,,sérkennsla`` feli í sér mótsögn við lög um málefni fatlaðra og stefnu stjórnvalda. Þá má spyrja: Ef orðið er í andstöðu eru þá ekki verkin líka í andstöðu við stefnu stjórnvalda? Ég tel að þetta veiki stöðu sérkennslubarna í skólakerfinu. Það eru ekki nema u.þ.b. 20 ár síðan sérkennslubörnum var tryggður lagalegur réttur til náms og ákveðnum aðilum skylt að sjá um hagsmunagæsluna, svo sem sérkennslufulltrúum á fræðsluskrifstofum og sérkennurum í skólum. Þeir sem eru hlynntir þessari nýju stefnu benda á heiltæka skólastefnu, en hún felur í sér að allir nemendur eigi rétt á skólagöngu og allir eiga að vera í bekk hvernig svo sem þeir eru í stakk búnir. Þeir segja að þeim verði tryggt fjármagn í heild þannig að engin mismunun eigi að eiga sér stað.
    Eins og staðan er í gömlu grunnskólalögunum þá er litið á þennan hóp nemenda sem forréttindahóp. Það verður að tryggja þessum nemendum rétt til skólagöngu með sérþjónustu og með lagaákvæðum, annars verður um afturhvarf að ræða og þau ekki sett í forgangsröð. Skýr ákvæði og reglur og lagasetning verða að vera til til að tryggja þessum börnum rétt til náms. Og eins og ég sagði áðan, með því að taka orðið ,,sérkennsla`` út úr nýju grunnskólalögunum þá tel ég að það veiki stöðu þessara barna og það eru börnin og réttur þeirra sem við verðum að tryggja.
    Annað atriði sem ég vildi koma inn á eru fræðsluskrifstofur. Fræðsluskrifstofur gegna í dag veigamiklu hlutverki sem tengiliður milli skóla og ráðuneytis. Í núgildandi lögum stendur, með leyfi forseta, í 16. gr.:
    ,,Verkefni fræðsluskrifstofu eru einkum þessi: Áætlanagerð og eftirlit með námi og kennslu, sálfræðiþjónusta, kennsluráðgjöf, skólaþróun og nýbreytnistarf, endurmenntun og símenntun kennara í samráði við skóla sem veita kennaramenntun.``
    Nú á að leggja þessa starfsemi niður og í staðinn á að koma sérfræðiþjónusta sveitarfélaga. En eins og kemur fram í grunnskólafrumvarpinu, sem er í gildi, hafa fræðsluskrifstofurnar ekki bara veitt sérfræðiþjónustu heldur líka gætt réttar nemanda hvað varðar sérkennslu og veitt aðhald í skólum. Ef aðhaldið er flutt til misvitra skólanefnda og til menntmrn. þá er hætt við að einhver börn týnist. Hvað á svo að verða um kennslugagnasafnið, myndbandaútlánin og alla þá ráðgjöf sem fræðsluskrifstofur hafa veitt kennurum og foreldrum, jafnt í stórum sem litlum skólum, jafnt í borgum og bæjum sem í afskekktustu byggðarlögunum?
    Í 33. gr. frv. er fjallað um kennslugögn, kennslu- og námsgögn. Þar er sveitarfélögum frjálst að skipta við Námsgagnastofnun eða einhverja aðra bókaútgefendur. Hver á að hafa eftirlit með því að námsgögn í hverju og einu sveitarfélagi uppfylli skilyrði gildandi laga og aðalnámsskrár? Eru það skólanefndirnar eða skólastjórinn? Ætlar ríkisvaldið að tryggja það að ætíð séu til heppileg sérkennslugögn? Kennslugögn fyrir sérkennslubörn eru mjög dýr því þau eru svo fá og hvert barn þarf nánast sérefni.
    Aukin völd skólanefnda eru mér talsvert áhyggjuefni ef ekki er tryggt að í skólanefnd sitji einhverjir aðilar, einhverjir fulltrúar með fagþekkingu og hafi þar atkvæðisrétt. Hins vegar gæti verið erfitt að manna skólanefndir með fagfólki sem ekki eru beinir hagsmunaaðilar og á þetta sérstaklega við um smærri sveitarfélög.
    Sveitarstjórnarmenn eru af mörgu sauðahúsi og ég hef töluverðar áhyggjur af því að misvitrir fulltrúar þeirra í skólanefndum fari að hlutast til um of um verksvið kennaranna, eins og markmið og leiðir. Kennarar eiga að hafa þá fagþekkingu sem þarf til að þeim sé treystandi til þess að hafa frelsi til að ákveða eigin leiðir. Þeir eiga einnig að hafa frelsi til að velja bækur sjálfir, ekki að þurfa e.t.v. að kaupa bara bækur sem frændi formanns skólanefndarinnar gefur út.
    Virðulegi forseti. Ég vil að lokum leggja áherslu á að í lögum um grunnskóla er fjallað um starfsumhverfi og rétt barnanna okkar til náms. Við verðum að tryggja öllum börnum jafnrétti til náms, ekki bara þeim sem vel gengur og búa í stærstu sveitarfélögunum.