Sjúkraliðar og greiðsla launa í vinnudeilum

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 13:41:08 (1042)


[13:41]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég taldi og tel að það hafi verið komið fram við sjúkraliða eins og venja er þegar boðað hefur verið verkfall hjá einstökum starfshópum. Þannig er að opinberir starfsmenn eru yfirleitt á fyrir fram greiddum launum sem er öðruvísi heldur en á hinum almenna vinnumarkaði og sú venja hefur skapast, og byggir að ég best veit á úrskurði í upphafi, að þegar boðað hefur verið verkfall í mánuði, þá séu einungis fyrir fram greidd þau laun fyrir þá daga sem telja fram að verkfallinu. Ég get því miður ekki svarað fyrirspurninni hvað snertir þá einstöku starfsmenn sem eru í leyfum eða orlofi eða þannig stendur á um að ekki eru í vinnu bókstaflega þá stundina, en ég get aflað upplýsinga um það.
    Hitt er svo annað mál að það er alltaf erfitt þegar boðað hefur verið til verkfalls. Ég vil láta það koma mjög skýrt fram, og það hef ég kynnt mér, að það hefur ekkert staðið á samninganefnd ríkisins varðandi viðræður á milli ríkisins og Sjúkraliðafélagsins um samninga. Það er ljóst að samningar hafa ekki tekist, en það er ekki hægt að kenna því um að samninganefnd ríkisins hafi af hálfu ríkisvaldsins látið undir höfuð leggjast að taka þátt í eðlilegum fundum til þess að freista þess að ná samkomulagi. Þetta finnst mér mjög mikilvægt að komi hér fram.
    Varðandi hitt svo hvort þetta sé efnilegt til að ná samningum að borga ekki fyrir fram greidd laun, þá snýst málið ekki um það. Málið snýst um hitt að þannig hagar til hjá opinberum starfsmönnum að þeim eru greidd laun fyrir fram og það veldur þessum erfiðleikum sem menn hafa vitað um um nokkurra ára bil og koma fram í því að ekki er hægt og ekki er talið eðlilegt að greiða nema fram að þeim verkfallsdegi sem boðaður hefur verið.