Setning laga og reglugerða um lífræna búvöru

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 13:48:14 (1047)


[13:48]
     Elín R. Líndal :
    Virðulegi forseti. Ég er með fsp. til landbrh. Ég vil spyrja hann eftir því hvað líði setningu laga og reglugerða um staðla og lágmarkskröfur fyrir framleiðslu, úrvinnslu og viðskipti með lífræna búvöru. Í þeim gífurlega samdrætti í framleiðslu, sem orðinn er hjá bændum, er áhugi hjá hluta þeirra að reyna þessa leið en meðan ekki er búið að marka hana er ekki hægt að leggja upp í þá ferð. Síst er það hlutverk stjórnvalda að láta standa upp á sig í þessum efnum. Það er ekki tími hér til að fara yfir stöðu mála en ástandið er háalvarlegt og brýn nauðsyn er að taka á þeim bráða vanda sem fyrir liggur í sveitum svo ekki komi til hrun byggða. En það sem hér um ræðir eru langtímalausnir sem ekki koma til góða fyrr en eftir ótiltekinn árafjölda og því nauðsynlegt að það komist sem fyrst á hreint hvernig þeir bændur, sem ætla að taka þátt í þeirri vaxandi hlutdeild á heimsmarkaði, sem lífrænt ræktuð matvæli hafa, þurfi að breyta búskaparháttum sínum því að þær breytingar taka tíma.