Endurnýjun starfsleyfis Kísiliðjunnar í Mývatnssveit

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 13:52:43 (1051)


[13:52]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er ekki svo að það sé neitt leynisamkomulag sem um er að ræða eða geymt er í skúffum í umhvrh. Ef hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson hefði fylgst með því sem vatt fram á vorþinginu 1993 hefði hann getað heyrt það í fréttum að opinbert samkomulag var gert fyrir opnum tjöldum milli þáv. iðnrh. og þáv. umhvrh. um að binda vinnsluleyfið við árið 2010 og jafnframt yrði lagt fram stjfrv. því til staðfestu. Það frv. var síðan lagt fram í ríkisstjórninni af forvera mínum, Eiði Guðnasyni, og á ríkisstjórnarfundi 6. apríl 1993 var því frestað. Á ríkisstjórnarfundi 20. apríl sama ár var það falið hæstv. núv. landbrh. og þáv. umhvrh. að ganga frá málinu. Ekki náðist sátt um það milli þeirra tveggja þannig að það var einungis lagt fram til kynningar. Vegna þess að ég taldi að þarna hefði verið opið samkomulag við Náttúruverndarráð, m.a. með því að gera þetta mál með þessum hætti, þá hef ég tvisvar reynt að fá frv. samþykkt í ríkisstjórninni. Það hefur ekki tekist. Það hefur strandað á mönnum innan ríkisstjórnarinnar. Ég hef eigi að síður lagt það fram til kynningar bæði síðustu árin þannig að ég vísa því algerlega á bug að það sé eitthvert leynisamkomulag sem hér um ræðir. Það sem um er að ræða er einfaldlega samkomulag sem þáv. umhvrh. tók að sér að beita sér fyrir innan ríkisstjórnarinnar með þessum árangri.