Flutningur ríkisstofnana út á land

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 14:02:13 (1059)


[14:02]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég átti svo sem von á því að það yrði farið að reyna að snúa út úr þessu máli og vitna til tillögugerðar um flutning embættis veiðimálastjóra sem var allt annað mál og kemur þessu máli ekkert við, kemur stofnanaflutningi ekkert við heldur þeim aðferðum sem við það var beitt. Ég frábið mér að því sé blandað inn í þessa umræðu vegna þess að hér er verið að ræða um áform um flutning stofnana sem voru kynnt af virðulegri nefnd sem hæstv. forsrh. skipaði. Það hefur komið berlega í ljós að það er ekki gerður nokkur skapaður hlutur til að fylgja þessu máli eftir. Það er þá eins gott að það vitnist og sé ekki verið að vekja væntingar af þessu tagi. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð.