Flutningur ríkisstofnana út á land

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 14:03:33 (1060)


[14:03]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ekki batnar það þegar hv. þm. upplýsti að tillagan um rannsóknarnefnd á hæstv. umhvrh. væri vegna ráðagerða hans um að flytja embætti veiðimálastjóra út á landsbyggðina. Svo er nefnilega ekki. Það er veiðistjóri sem hann hyggst flytja þannig að þarna kastar nú tólfunum. Það er ekki aðeins að flutt sé tillaga um rannsóknarnefnd á ráðherra fyrir það að leyfa sér að flytja stofnun út á landsbyggðina heldur bætist nú við að mönnum er ekki ljóst hvaða stofnun það er. Væri þá ástæða til að leiðrétta tillöguflutning manna í því máli ef svona stendur.
    Eins og ég segi hefur verið rætt við forsvarsmenn Rafmagnsveitna ríkisins og við forsvarsmenn á Austurlandi um tilflutning Rafmagnsveitnanna þannig að það er ekki rétt að ekkert hafi gerst í því máli, en vegna þeirra mörgu kosta sem menn hafa verið að skoða í þeim efnum þá get ég fúslega upplýst að þess er ekki að vænta að það gerist eitthvað í því máli á næstunni.