Vegaframkvæmdir á Austurlandi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 14:17:09 (1063)


[14:17]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að segja örfá orð við þessa umræðu um þá tillögu sem hér um ræðir. Hún fer að sjálfsögðu til samgn. og verður þar skoðuð. Efnislega er ég hjartanlega sammála tillögunni um að leggja slitlag á vegi á Austurlandi eftir öllu kjördæminu og til allra þéttbýlisstaða. Það er auðvitað það sem við hv. þm. Austurlands erum að stefna að. Eigi að síður er ég í svolitlum vafa um að hv. flm. hafi farið rétta leið að þessu.
    Það er alveg rétt sem hann segir að mjög stór verkefni eru eftir í almennri vegagerð á Austurlandi og ekki síst vegna þess að framkvæmdir á hringveginum hafa verið í öðrum kjördæmum mestan part og það eru stór verkefni eftir á hringveginum á Austurlandi. Ég held að það sé verkefni Alþingis og það ríði á að fá breiða samstöðu um það að gera átak á næstu árum í því að klára bundin slitlög á vegum. Satt að segja eru þeir kaflar vega sem eru án bundinna slitlaga orðnir stórhættulegir og því hættulegri eftir því sem gerð bundinna slitlaga miðar fram. Átaks er því þörf. Ég ætla ekkert að gera lítið úr því að það hefur verið átak í gangi í vegagerð á liðnum árum og þessum málum hefur miðað fram. Það er alveg rétt. Austurland situr eftir að því leyti að stórir kaflar, m.a. á hringveginum, eru án bundins slitlags. Þetta á auðvitað að vera verkefni við endurskoðun vegáætlunar í vetur. Það á að fara fram heildarendurskoðun vegáætlunar í vetur og mikil þörf á að þá verði litið á þetta mál sérstaklega. Það er nauðsynlegt að skapa um það breiða samstöðu í Alþingi. Ég get ekki séð að það sé mál samgrh. eins að fjalla um þessi mál. Við höfum kappkostað það og m.a. þingmenn Austurlands að vinna saman að framgangi vegamála í kjördæminu og ég vona að sú samstaða takist áfram og það verði góð samstaða um þau markmið sem þar er þörf á.
    Ég hef áhyggjur af því að samkvæmt því sem sýnt er í fjárlögum nú verður ekki haldið áfram

átaksverkefninu í vegamálum. Það er verið að hætta við það og það kemur okkur á Austurlandi í koll eins og annars staðar og ekki síst okkur af því að þar eru mikil verkefni eftir eins og rækilega er sýnt fram á í tillögugerð hv. 3. þm. Austurl. Eins og er hef ég mestar áhyggjur af því að minna fé er til framkvæmda á næstu árum en verið hefur síðustu árin. Það er því vafamál á þessu stigi hve okkur miðar fram til aldamóta.
    Ef þessi tillaga um vegaframkvæmdir á Austurlandi þokar okkur fram þá er ekkert nema gott um það að segja. En ég hefði samt viljað að hv. flm. hefði reynt að ná víðari samstöðu um þessi mál innan þingsins en þessi tillögugerð sýnir. En tillagan fjallar um gott mál. Hún fjallar um það að þoka áfram vegagerð á Austurlandi og bendir á það sem þar er eftir sem eru mikil verkefni í almennri vegagerð og mikil nauðsyn að þeim þoki áfram á næstu árum vegna þess að þeir kaflar t.d. á hringveginum sem eftir eru eru beinlínis stórhættulegir þegar vegakerfið hefur batnað svo sem raun ber vitni.
    Ég vildi undirstrika það að um vegamál almennt og um vegamál á Austurlandi verður að nást góð samstaða í hv. Alþingi. Ég vona að sú vinna sem verður við þessa tillögu í hv. samgn. þegar hún kemur þangað auki þá samstöðu þannig að það verði litið á málefni Austurlands með sérstökum skilningi þegar kemur til þess að afgreiða endurskoðun vegáætlunar í vetur. Ég vil áfram vinna í góðu samkomulagi og góðu samstarfi við þingmenn Austurlands í því efni.