Vegaframkvæmdir á Austurlandi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 14:24:00 (1064)


[14:24]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Annaðhvort er þessi tillaga sýndarmennskutillaga, og í besta falli er hún það líklega, eða, sem er verra en ég held að maður verði að draga þá ályktun að það sé reyndin, hún er yfirlýsing um það að hv. þm. Egill Jónsson, sem á sæti í samgn. þingsins, hafi orðið undir í átökum um það hvað eigi að gera í vegamálum. Það stendur yfir endurskoðun á þessum málum og í vetur á að leggja fyrir þingið endurskoðaða vegáætlun. Ég trúi því ekki að hv. stjórnarliðar hafi ekki rætt í alvöru hvaða verkefni það eru sem ættu að breytast í þeirri vegáætlun og þess vegna hef ég miklar áhyggjur af því að hér skuli vera komið fram þingmál af þessu tagi.
    Ég vék mér að hæstv. ráðherra frammi áðan. Hann var að ganga út úr dyrum og ég spurði hvort hann ætlaði ekki að vera við þessa umræðu og gefa til kynna sína afstöðu til þessara mála. Hann hélt nú ekki. Hann hefði öðru þarfara að sinna. Mér finnst það ekki benda til að hægt sé að vonast til að þetta sé bara sýndarmennskutillaga. ( Gripið fram í: Ha.) Ég held sem sagt að hv. tillöguflytjandi og hans sjónarmið hafi orðið undir og þess vegna sé full ástæða til þess fyrir samgn. þingsins að reyna að fara vel yfir þessi mál til þess að bjarga þeim verkefnum sem hér er verið að tala um.
    Nú ætla ég ekki að lýsa því yfir að mér finnist nákvæmlega þeir hlutir sem hér eru settir fram um verkefnaval þeir einu réttu. En ég er a.m.k. á þeirri skoðun að það þurfi að taka sérstaklega á málefnum Austurlands í endurskoðun vegáætlunarinnar og þess vegna hef ég áhyggjur af því að málið skuli bera að með þessum hætti. Í þessari tillögu eru góð áform sem eiga heima í vegáætluninni og þarf að fara yfir og vinna að þar. En það er ekki líklegt að það eigi að taka á þeim miðað við þennan aðdraganda. Og líka það að ríkisstjórnin hefur fallið algerlega frá hugmyndum um átak í vegamálum. Þær 450 millj. sem áttu að koma fyrir árið 1995 eru ekki í fjárlagafrv. og það er niðurskurður á mörkuðum tekjustofnum í fjárlagafrv. upp á 275 millj. Það er því um 800 millj. kr. minna fjármagn til vegamála á næsta ári en var á því síðasta og sjálfsagt hægt að tína upp fleiri tölur í því sambandi. Eins og þetta lítur út í fjárlagafrv. þá sýnist mér þetta vera svona í fljótu bragði. Þetta átak í vegamálum sem menn voru að tala um er greinilega liðin tíð og hugmyndir hæstv. forsrh. um einhvers konar viðbætur í þessu efni eru ekki heldur á blöðum og líklega líka liðin tíð.
    Ég tel að það þurfi að fara mjög vandlega yfir þær hugmyndir sem menn eru að leggja fram og auðvitað á að endurskoða svona hluti í einu lagi. Almennt um þennan tillöguflutning vil ég segja það að mér finnst þetta fráleitt. Ég tel að það eigi ekki að koma þáltill. um átök í einstökum landshlutum. Það á að takast á við þetta heildstætt í endurskoðun á vegáætlunni þannig að menn beri saman allar þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru og raði þeim að nýju upp í tímaröð eftir því mikilvægi sem menn telja að hafi breyst á hverjum tíma. Þannig á auðvitað að vinna að þessu. Kannski hefur hv. þm. Egill Jónsson lagt fram þetta frv. meðan hann stóð í kosningabaráttu fyrir austan til þess að vekja athygli á sínum störfum í þinginu. Ég vona að það sé einmitt þannig og það sé ekki hin ástæðan sem ég var að telja fram. Eitt er þó alla vega víst að hæstv. ráðherra var ekkert hrifinn af þessari tillögu.