Vegaframkvæmdir á Austurlandi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 14:42:24 (1071)


[14:42]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst þetta harla sérkennilegur tillöguflutningur sem hér er á ferðinni. Nú er það auðvitað ekki svo að samgöngubætur jafnt á Austurlandi sem og annars staðar séu ekki brýnar og þarfar og um það er yfirleitt held ég ríkjandi mjög góð samstaða í landinu að samgöngubæturnar eru eitt af því allra brýnasta og mikilvægasta sem við þurfum að ráðast í. En það er mjög sérkennilegt að sjá hér stjórnarþingmann og reyndan þingmann, hv. 3. þm. Austurl., koma og flytja tillögu af þessu tagi sem er auðvitað út í hött, algerlega út í hött, þegar að því er gáð hvernig lög mæla fyrir um framkvæmdir á þessu sviði. Hefur hv. þm. Egill Jónsson virkilega afrekað það að sitja hér á Alþingi í yfir 10 ár, 15 ár eða hvað það nú er án þess að hafa nokkurn tíma lesið vegalögin? Þekkir hv. þm. ekki til þess hvernig lög mæla fyrir um framkvæmdir í vegamálum og skipulag þeirra mála? Það verður ekki ráðið af orðalagi þessarar ályktunartillögu sem virðist ganga út á það að gerð verði sérstök ályktun og áætlun um vegaframkvæmdir í Austurlandskjördæmi alveg utan við og óháð öllu öðru og það sé unnið með allt öðrum hætti heldur en annars er gert, sem sagt, samgrh. eigi einn að gera svona ályktun, setja henni tímamörk o.s.frv.
    Hvernig er þetta, hæstv. forseti, þegar betur er að gáð? Þá er þetta þannig að meira að segja í nýsamþykktum vegalögum sem tóku við af eldri lögum eru nákvæmlega sömu ákvæðin og gilt hafa um þetta um árabil, mæla með mjög skýrum hætti fyrir um það að samgrh. skal að fengnum tillögum vegamálastjóra leggja fyrir Alþingi till. til þál. um vegamál og í þeirri tillögu skal gerð grein fyrir fjáröflun fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum og útgjöldum sundurliðuðum eftir helstu framkvæmdaflokkum. Svo segir enn fremur: ,,Við meðferð tillögunnar fyrir Alþingi skal ákveða skiptingu útgjalda til einstakra framkvæmdaliða og skal tillagan afgreidd í endanlegu formi sem þál. um vegáætlun fyrir fjögurra ára tímabil.`` Og það er meira að segja sagt í þessari núverandi 18. gr. vegalaga, að ef fé til vegagerðar skyldi nú verða ráðstafað inn í þann málaflokk með öðrum hætti, t.d. á grundvelli landshlutaáætlana eða eitthvað svoleiðis, þá

skal það samt fara inn í vegáætlun og Alþingi skipta því með slíkum hætti.
    Sama orðalag er í 28. gr. um langtímaáætlun í vegamálum, alveg sama orðalag. Hlutverk ráðherra og Alþingis er skilgreint með sama hætti. Þegar þetta er skoðað, þá er það auðvitað þannig að hafi leikið vafi á því að ónefnd vantrauststillaga hér um daginn væri þingleg, hæstv. forseti, þá má reisa enn meira spursmál yfir höfuð um það hvort þetta sé yfir höfuð þingtækur pappír því að hann gengur algerlega á skjön við skýr fyrirmæli gildandi laga um framkvæmdir á þessu sviði, algerlega á skjön við það. Og auðvitað er þetta í raun og veru hin argasta sýndarmennska, að flytja tillögu af þessu tagi. Það verður að kalla það bara þeim nöfnum sem því hæfir. Ef hv. þm. Egill Jónsson vill vekja athygli á bágu ástandi vega á Austurlandi, vill leggja því lið að meira fé komi til framkvæmda á því sviði og þar, þá eru til aðrar og eðlilegri leiðir til þess en þetta. Þá á hv. þm. í fyrsta lagi að mótmæla niðurskurði á vegafé, þá á hv. þm. í öðru lagi t.d. að tala þegar hér er til umræðu fjárlagafrv. og segja: Þetta gengur ekki að það sé svona naumt skammtað til vegamála því það þarf að gera meira á Austurlandi. Og þá á hv. þm. í þriðja lagi að tala þegar vegáætlun kemur, en síðast en ekki síst ætti hv. þm. sem stjórnarliði að berjast þá fyrir því að fjárveitingar væru auknar í þessum efnum. Eða dettur hv. þm. Agli Jónssyni það í hug að þingmenn annarra kjördæma mundu una því að Austurland fengi einhverja sérstaka meðhöndlun af þessu tagi, alveg sér-,,behandling``? Og á hvaða grundvelli ætti það að vera? Er ástand vegamála á Austurlandi verra en t.d. á Vestfjörðum? Ég leyfi mér að fullyrða að svo sé ekki og með því er ég þó ekki að gera lítið úr mikilvægi þess að unnið sé að samgöngubótum á Austurlandi eins og annars staðar. En það er bara víðar um mikilvæg verkefni að ræða og reyndar út um allt land og það gildir ákveðin skiptingarregla til þess að reyna að vega og meta þörfina eins og hún er með hliðsjón af lengd vegakerfis, umferðarþunga og öðrum slíkum þáttum. Þetta eiga reyndir alþingismenn að þekkja. Og þekki þeir til þeirra hluta en flytji samt svona tillögur, þá er það sýndarmennska, væntanlega ætluð til heimabrúks, en ég hef enga trú á því að hv. þm. slái miklar keilur á því gagnvart vel upplýstum kjósendum á Austurlandi, að fara svona billegar leiðir í málflutningi og tillöguflutningi. Það er harla nöturlegt, hæstv. forseti, að standa frammi fyrir svona pappír.
    Staðreyndin er sú að þegar síðasta langtímaáætlun var til meðhöndlunar hér á Alþingi þá var það mat Vegagerðarinnar að það væri a.m.k. 25 ára verkefni að koma meginvegakerfi landsins í þokkalegt horf og þá er að sjálfsögðu átt við landið allt en ekki bara Austurland. Okkur væri, held ég, nær að ræða það og sameinast um það hvernig við getum staðið þannig að vegamálum að þessu verkefni í heild sinni þoki áfram. Það bíða gríðarlegar framkvæmdir í öllum landshlutum, og líka hér á höfuðborgarsvæðinu, sem óumflýjanlegt er að ráðast í. Því er tillöguflutningur af þessu tagi náttúrlega eins og út úr kú. Af hverju koma ekki hér upp einhverjir hv. þm. Reykvíkinga t.d. og láta í sér heyra með sínar áherslur eða Vestfirðinga? Ef menn vildu gera grín að þessum tillöguflutningi væri náttúrlega langeinfaldast að flytja hérna sjö samhljóða tillögur, eina um hvert kjördæmi. Þær ættu nákvæmlega jafnmikinn rétt á sér eins og þessi tillaga um Austurland, að Alþingi álykti að fela samgrh. að hlutast til um að gerð verði áætlun um byggingu og endurbætur vega í Suðurlandskjördæmi, í Vestfjarðakjördæmi, á höfuðborgarsvæðinu o.s.frv. En það mundi bara undirstrika fáránleika þess að nálgast þetta viðfangsefni með þessum hætti.
    Það sem er hins vegar aðaláhyggjuefnið er hinn mikli niðurskurður á framkvæmdafé til vegamála sem nú er í gangi. Það er verið að skera niður nýframkvæmdir samkvæmt fjárlagafrv. um á annan milljarð kr. Ætli það séu ekki um 1.122 millj. ef lagðir eru saman nýframkvæmdaliðurinn, fjallvegir o.s.frv. Og varðandi það mont sem hér var í frammi haft áðan af hv. þm. 5. þm. Austurl. um að þessi ríkisstjórn hefði staðið sig vel í vegamálum. Ja, við skulum fara yfir það og það gefst betri tími til þess við tækifæri. Staðreyndin er sú að ef lagt er saman það sem á þessu kjörtímabili kemur til vegaframkvæmda fyrir eigið aflafé Vegagerðarinnar þá er það lítið en ekki mikið borið saman við fyrri ár. Framkvæmdaátakið upp á 2.450 millj. kr. er lánsfé. Um það er held ég ekki deilt, því miður. Og þar með þýðir að það kemur að skuldadögunum og það dregur úr framkvæmdagetu Vegagerðarinnar, sem því nemur, á næstu árum þegar það lán verður borgað niður. Þar með er ég ekki að segja að það hafi ekki getað verið réttlætanlegt að taka slíkt lán, en menn eiga að tala um hlutina eins og þeir eru. Lán er eitt, framlag er annað. Þannig að það væri nær að ræða slíka hluti hér og kanna þá hvort til er í landinu pólitísk samstaða um að stórauka framlög til vegamála, en ekki flytja sýndarmennskupappír af þessu tagi, sem er auðvitað til skammar fyrir reynda þingmenn.