Vegaframkvæmdir á Austurlandi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 14:52:38 (1073)


[14:52]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta er nú þvílík þvæla í hv. ræðumanni að það er varla svaravert. Það kom enginn ágreiningur fram milli okkar þingmanna Alþb. sem um þetta töluðu. Við þvert á móti gagnrýndum báðir þessa tillögu og bentum á veilurnar í því að standa svona að málum. Og af því að hv. þm. nefndi hér jarðgöng og sérverkefni í vegamálum þá eru þau einmitt ágætt dæmi um það hvernig á að leysa slík mál. Þetta er dæmi um hið gagnstæða. Þetta er dæmi um það hvernig á ekki að gera þetta. Það sem ég var að segja er það að Austurlandskjördæmi á að lúta sömu reglum um framkvæmdir í vegamálum og önnur kjördæmi landsins. Allt annað er tóm della. Ef menn komast að þeirri niðurstöðu að vegakerfið á Austurlandi hafi dregist svo mikið aftur úr að það þurfi meira fé í það, hvernig á þá að taka á því? Það á að taka á því innan vegáætlunar og innan ramma vegalaga að sjálfsögðu. Þá setjast menn niður í samgöngunefnd þingsins og segja: Er ástandið þannig að það er verið að hækka hlut Austurlands, skiptaprósentuna til Austurlands? Eru rök fyrir því, eru þar meiri verkefni eftir óunnin en annars staðar? Og þá gera menn það þar eins og gert var með jarðgöng á Norðurl. e. og Vestfjörðum. Það var einmitt leyst í tengslum við afgreiðslu vegáætlunar 1989, þegar svonefnd sérverkefni voru skilgreind, búinn til sérstakur flokkur sem laut öðrum skiptareglum heldur en vegaframkvæmdir almennt. Þá var nákvæmlega unnið að því þannig að það var tekið á því í tengslum við afgreiðslu vegáætlunar og það var hluti af þeirri heild sem heita vegaframkvæmdir á Íslandi. Þessi hólfunarhugsunarháttur er auðvitað út í hött. Eða vilja menn fara til baka til þess tíma að þingmenn einstakra kjördæma standi gráir fyrir járnum og sláist hér um krónurnar á hverju ári? Ég vona að guð forði mönnum frá því og menn reyni að standa saman um þá skynsemi sem er fólgin í langtímaáætlunum í framkvæmdum af þessu tagi og samstöðu þingmanna um allt land varðandi það hvernig að svona framkvæmdamálum er staðið. Það væri afturhvarf til miklu óheilbrigðari hátta í þessum málum ef hugsunarháttur af þessu tagi yrði hér ríkjandi.