Vegaframkvæmdir á Austurlandi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 14:56:08 (1075)


[14:56]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er náttúrlega afar erfitt að eiga orðastað við þingmenn sem eiga ekkert erindi annað í þennan ræðustól heldur en útúrsnúningana eina, eins og hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, 5. þm. Austurl. Og það er náttúrlega langt fyrir neðan virðingu þingmannsins að vera að reyna frammi fyrir öllum að snúa svona út úr orðum manna, eins og hann hefur gert hér ítrekað. Að ég hafi staðið hér og skipt um skoðun í vegamálum á einu augnabliki undir áhrifum af hinni göfugu og merku ræðu sem þingmaðurinn flutti hér áðan, það er misskilningur. Ég hef talsvert hugsað um vegamál og glímt við þau og það þarf meira til en hv. þm. Gunnlaug Stefánsson, merkur sem hann er, til þess að róta til grundvallarsannfæringum mínum í þessum málum. Ég er alveg sannfærður um það, eftir að hafa skoðað þennan málaflokk mikið og fylgst með honum um 10, 12, 15 ára skeið, að eitt af bestu skrefum sem menn hafa tekið í þessum efnum var upptekt framkvæmdaáætlananna. Það er það skipulag sem vegalögin ganga út frá og mæla skýrt fyrir um það að hlut kjördæmanna skuli skipt á tilteknum grundvelli samkvæmt vegáætlun og um það snýst þetta mál. Hv. þm. hefur haft alger hausaskipti á málinu. Hann tekur hér tillögu um það að Austurland sé bara eitt í heiminum og framkvæmdir þar eigi að lúta allt öðrum lögmálum og notar hana með þessum hætti í sínum málflutningi. Þetta er misskilningur. Og ég hef heldur aldrei sagt að ég væri orðinn þeirrar skoðunar að vegamál á Austurlandi væru í svo slæmu horfi að þau þyrftu endilega meira en þau hafa fengið af hlutfalli undanfarin ár. Ég er ekki búinn að sannfærast um það. Ég er líka sæmilega kunnugur vegakerfinu t.d. á Vestfjörðum. Þar er gríðarlega langt malarvegakerfi óuppbyggt. Ég þekki ágætlega vegakerfið á Norðurlandi. Þar eru gífurleg verkefni í báðum kjördæmum, sérstaklega þó á

Norðurlandi eystra. Svo ég nefni nú bara eitt verkefni, norðausturleiðina frá Húsavík og austur á Vopnafjörð, sem hv. þm. ætti að muna eftir því hún nær að hluta til inn í hans kjördæmi. Þannig að ég er ekki búinn að sjá það að búið sé að sýna fram á, þegar við munum svo eftir framkvæmdaþörfinni hér á höfuðborgarsvæðinu, að það hafi skapast forsendur til að breyta mikið skiptaprósentunni sem við lýði hefur verið undanfarin ár, enda er hún ekki tilviljun. Hún er vandlega grundvölluð með tilliti til umferðarþunga, lengdar vegakerfis og fleiri slíkum þáttum.