Vegaframkvæmdir á Austurlandi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 14:58:32 (1076)


[14:58]
     Flm. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hún undirstrikar náttúrlega gagnsemi þess tillöguflutnings sem hér er til umræðu.
    Ég hlýt sérstaklega að fagna ræðu hv. 2. þm. Austurl., sem í rauninni tók undir þessa tillögu og reyndar undrar mig það nú ekki. En það sem ég átti afskaplega erfitt með að skilja í hans ræðu voru efasemdirnar um það hvort hér væri farin rétt leið í tillöguflutningi. Ég þarf reyndar ekki sérstaklega að leita eftir fordæmum í störfum þingbræðra minna af Austurlandi, en þannig vill til að þeir hafa verið býsna duglegir að flytja tillögur um vegamál á Austurlandi. Framsóknarmenn fluttu t.d. tillögu hér ár eftir ár um jarðgöng á Austurlandi, svo að hv. þm. getur af þeirri ástæðu hætt að hrista höfuðið.
    Hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, hefur flutt líklega á hverju einasta ári tillögu um vegagerð á Austurlandi. Ég held að sá tillöguflutningur hafi meira að segja skilað árangri. Hann hefur t.d. haldið uppi stöðugri umræðu um vegasambandið á Breiðamerkursandi og hann flytur núna í annað skipti tillögu um vegasamband allt árið milli Austurlands og Norðurlands. Þannig að þeir stjórnmálaflokkar sem eiga þingmenn á Austurlandi, þá fyrir utan hv. 5. þm. Austurl., hafa allir notað sams konar vinnubrögð í þessum efnum. En þó að þau fordæmi hefðu ekki verið fyrir hendi þá hefði ég náttúrlega ekki þurft að spyrja leyfis um það hvaða leiðir ég veldi til þess að koma mínum málum áfram í mínu kjördæmi. Ég hef reyndar hagað mínum störfum þannig hér í þinginu að ég hef ekki sett það fyrir mig að styðja góð mál, ég tala nú ekki um ef þau hafa snert Austurland, þó að þau hafi verið flutt af einhverjum öðrum þingmanni eða jafnvel þótt það væri úr öðrum stjórnmálaflokki. Svo ég fæ það eiginlega ekki skilið hjá hv. þm. hvernig hér er verið að rjúfa samstöðu þegar verið er að vinna með nákvæmlega sama hætti og þingmenn Framsfl. hafa gert áður og er það fjarri því að ég sé að vanþakka það á nokkurn einasta hátt.
    Það er hárrétt sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Austurl. og hv. 5. þm. Austurl. líka, að þegar litið er til hringvegarins sem slíks, og hann er nú skilgreindur eins og menn vita, þá er langstærsti hlutinn af því vegakerfi sem er óuppbyggt í Austurlandskjördæmi. Það sem er sérstaklega áhyggjuefni eða m.a. áhyggjuefni er að við höfum verið að leitast við að teygja bundna slitlagið. Það hefur verið lagt undir þeim vegakafla sérstaklega sem eru ódýrastir í uppbyggingu til þess að ná sem mestri vegalengd, en út af standa, eins og hv. 2. þm. Austurl. undirstrikaði alveg sérstaklega, vegakaflar sem eru bara ekki boðlegir fyrir umferðina í landinu.
    Hv. 3. þm. Vesturl. sagði að kostirnir eða ástæðurnar fyrir þessum tillöguflutningi væru trúlega einkum tvær. Annars vegar sýndarmennska, hins vegar að ég hefði orðið undir í sambandi við vegagerðarmál. Nú getur hann náttúrlega alið þessar skoðanir með sér og læt ég það gersamlega hreint óátalið. En það verður náttúrlega að segjast eins og er að þegar til þessara mála er litið þá stendur sérstaklega út af nyrsti hlutinn af Austurlandskjördæmi. Og það er mér alveg meinalaust þó að menn noti það orð að ég sérstaklega, ég held að það ætti þá við okkur þingmennina alla, hafi að þessu leyti orðið undir sem sést á því hvað þessum hluta landsins hefur lítið skilað áfram í vegaframkvæmdum. Og ástæðan fyrir því er auðvitað sú að menn hafa horft sérstaklega til suðurleiðarinnar, tenginganna meðfram fjörðum og svo með ströndum fram. Nú eru hins vegar komnar áherslur og búið að sanna ágæti samtengingar Norður- og Austurlands sem kostar að sjálfsögðu mikið fé. Vegaframkvæmdir sem er áætlað að hefjist á næstu öld, ég held árið 2002, eru núna komnar á fulla ferð, sem betur fer. Og þá er vissulega ástæða til þess að vekja athygli á því og leitast við að finna leiðir til að þessu verkefni geti skilað áfram í heild sinni.
    Eins og ég sagði áðan þá eru samkvæmt áætlunum Vegagerðarinnar óuppbyggðir vegir frá Reyðarfjarðarbotni og suður á Hornafjörð eða suður á Breiðamerkursand, í kringum einn milljarður kr. og það er sama upphæð eða svipuð og þarf til þess að tengja veginn að norðan og standa þá mörg verkefni eftir. Þannig að það hefur verið tekin um það ákvörðun að byggja upp veginn norðan að sem, eins og ég sagði áðan, var ekki á langtímaáætlun fyrr en eftir aldamót. Þetta er að sjálfsögðu nauðsynlegur og góður kostur, en hann getur ekki gengið yfir önnur áform í kjördæminu. Og það er augljóst mál að þessi vegaframkvæmd hefur ekki talið inn í skiptiregluna, sem fylgt hefur verið eftir, með þeim hætti sem eðlilegt hefði verið, enda hafa þær reglur tiltölulega lítið breyst.
    Það er út af þessari óskaplegu vandlætingu hjá Alþb. út af þessu máli. Það þykir mesta ósvinna að það skuli vera sérstaklega talað um Austurland í þessum efnum, það sé verið að rjúfa samstöðu og hvaðeina. Ég man nú ekki betur og veit það reyndar vel, að um ýmsar framkvæmdir hafa verið gerðar sérstakar þingsályktanir. Ég minni á Vestfjarðagöngin í þeim efnum. Ég átti þá sæti í fjárveitinganefnd og er kunnugur því máli. Ég minni á skuldauppgjör við Reykjavíkurborg í þessum efnum. Ég minni á Hvalfjarðargöng í þessum efnum, sem menn eru nú að tala um útboð á, jafnvel núna á vordögum. Þannig að sú mikla vandlæting sem kemur fram hjá þessum hv. þm., það verður ekki séð annað heldur en hún stafi af minnimáttarkennd fyrir þessum tillöguflutningi. Það er augljóst mál að það standa auðvitað mikil verkefni út af í Norðurl. e. og hver er hér að leggjast gegn þeim? Hvað er það í tillögunni sem segir um að það eigi að draga sérstaklega fjármagn annars staðar að yfir í þetta verkefni? Það segir hvergi.
    Hins vegar er kannski hægt að skýra viðbrögð hv. þm. Steingríms Sigfússonar að því leyti að í tillögu hans og hv. 4. þm. Austurl. koma á vissan hátt fram aðrar áherslur og ég hef ekkert við það að athuga. Það koma upp áherslur um það að leitast verði við að gera úttekt á því hvort vegurinn eigi að liggja til norðurs um jarðgöng yfir í Vopnafjörð og þaðan svo áfram eða hvort það á að fylgja þeim ákvörðunum sem liggja nú fyrir. Ég hef nákvæmlega ekkert við þetta að athuga og það er mér að meinalausu þó að þessir hv. þm. flytji tillögu sem felur í sér aðrar áherslur heldur en þá sem ég er hér sérstaklega með, þ.e. könnun á vegarstæði og samanburð en ekki vegaframkvæmdir. En auðvitað er þetta tillaga sem snertir vegamál með alveg sama hætti og sú tillaga sem ég flyt, þó að hún sé ekki sama efnis, till. til þál. um vegasamband allt árið milli Austur- og Norðurlands og till. til þál. um vegaframkvæmdir á Austurlandi, eins og mín tillaga heitir. Þannig að allt þetta vængjabusl hjá þessum tveimur hv. þm. Alþb. er út í hött.
    Hér hefur það komið fram í þessu sambandi og þau skilaboð hafa verið flutt úr þessum stóli eða þær ályktanir dregnar, að þessi tillöguflutningur væri ekki þóknanlegur sérstaklega hæstv. samgrh. Það kemur mér reyndar á óvart því að tillöguna afhenti ég honum til yfirlestrar áður en --- vill hv. 3. þm. Vesturl. taka eftir mínum orðum --- áður en ég flutti hana og hann gerði að sjálfsögðu engar athugasemdir við þann tillöguflutning. Hæstv. ráðherra hefur, eins og við vitum, verið mikill frumkvöðull að vegagerðinni um Möðrudalsöræfi og það reyndar rifjast nú upp, af því að ég mundi ekki eftir því í augnablikinu að ég hafði flutt svo margar tillögur, að um þá vegaframkvæmd fluttum við tillögur fyrir mörgum árum, ég og hæstv. núv. samgrh. En það er svo annað mál. Það er nú reyndar einn hæstv. ráðherra hér sem ég meina þetta ekki sérstaklega til, en ég hef ekki orðið var við það að það væri yfirleitt mikil ánægja hjá ráðherrum þegar þingmenn væru að flytja tillögur sem snertu þeirra málaflokka. Það kom reyndar (Forseti hringir.) greinilega fram í máli hv. þm. Steingríms Sigfússonar, að það er stutt síðan hann var ráðherra, því að honum fannst það mesta ósvinna að hér skyldi ég leyfa mér að flytja tillögu sem snerti sérstaklega . . .  
    ( Forseti (GunnS) : Ég verð að biðja hv. þm. um að ljúka máli sínu nú þegar.)
     . . .  já, ég skal verða við ósk virðulegs forseta að því leyti --- tillögu, sem snerti sérstaklega Austurlandskjördæmi, því eins og ég sagði áðan, þá er stutt síðan hann var ráðherra og þeir vilja nú gjarnan ráða því sem talað er um á Alþingi.