Vegaframkvæmdir á Austurlandi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 15:14:59 (1078)


[15:14]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Það var aðeins örstutt, að hv. 3. þm. Austurl. undraðist að ég var að setja út á aðferðina við að koma þessum málum fram og sagði m.a. að við framsóknarmenn hefðum verið duglegir við að flytja tillögur um vegamál á Austurlandi. Það er alveg rétt. Ég hef verið flm. að einstökum tillögum um vegamál til að vekja athygli á ýmsum framkvæmdum sem ógerðar hafa verið þó að ég hafi alls ekki verið kannski nógu duglegur við það vegna þess að ég hef unnið að þeim málum á vettvangi vegáætlunar hverju sinni þegar fjallað hefur verið um hana.
    En þessi tillögugerð er sérkennileg að því leyti að hér er samgrh. falið að gera sérstaka vegáætlun fyrir Austurland til næstu fjögurra ára í almennri vegagerð. Það hefði verið betra að mínu mati, ef hv. þm. vill vekja athygli á þessu sem ég er ekki að lasta, síður en svo, að því hefði verið beint til þingsins sem eðlilega fjallar um þessi mál. Það var það sem ég var að setja út á ef það hefur ekki komið nægilega skýrt fram í minni ræðu.