Vegaframkvæmdir á Austurlandi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 15:20:40 (1082)


[15:20]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. 3. þm. Austurl. sagði að við hefðum einhvers konar minnimáttarkennd gagnvart þessum tillöguflutningi. Það þarf engan að undra því að það á bókstaflega að gera áætlun um það að klára alla vegi á Austurlandi með einu sérstöku átaki. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég undrast dálítið þá umræðu sem hér hefur farið fram vegna þess að það getur ekki verið að hv. þm. setji samasemmerki á milli annarra tillagna sem hann hefur verið að nefna og hafa verið fluttar af stjórnarandstæðingum á ýmsum tímum og tillögu sem hann flytur sem stjórnarþingmaður og sitjandi í samgn. þingsins, verandi leiðtogi og leiðarljós hæstv. ráðherra í málinu og segjandi mönnum það að hæstv. ráðherra sé búinn að skrifa upp á tillöguna. ( EgJ: Ég sagði það ekki.) Hv. þm. sagðist hafa afhent ráðherra tillöguna til yfirlestrar og ekki fengið neinar athugasemdir. Ég verð að segja alveg eins og er að ég verð enn þá meira undrandi og sé enn þá meir og meir eftir því að hafa ekki krafist þess að þessari tillögu yrði frestað þannig að ráðherra gæti gert grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Það er nánast furðulegt ef hæstv. samgrh. er tilbúinn að samþykkja að slík tillaga sem þessi verði samþykkt í þinginu, tillaga sem er í andstöðu við þann málatilbúnað sem er ætlast til að sé viðhafður með lögum.
    Ég sé að tími minn er búinn þannig að ég get ekki komið að öðrum atriðum, en ég vek athygli á því alveg sérstaklega að það er full ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra út úr í þessu máli.