Vegaframkvæmdir á Austurlandi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 15:26:46 (1086)


[15:26]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er bersýnilegt að hv. þm. Egill Jónsson skilur ekki málið og hefur aldrei lesið vegalögin. Það er ekki hægt að túlka texta tillögugreinarinnar öðruvísi en þannig að þar sé verið að tala um sérstaka áætlun um almennar vegaframkvæmdir á Austurlandi, algerlega sérstaka og sjálfstæða áætlun sem standi bara fyrir Austurland. Tillagan segir, með leyfi forseta: ,, . . . að gerð verði áætlun um byggingu og endurbætur vega í Austurlandskjördæmi sem miðist við að koma á samfelldu vegakerfi með bundnu slitlagi eftir öllu kjördæminu, auk vega til allra þéttbýlisstaða.``
    Hvað skyldi þetta nú þýða á mannamáli og á Austurlandi? Þetta er væntanlega uppbyggður vegur með bundnu slitlagi frá Bakkafirði í norðri og eigum við að segja til Hofs í Öræfum í suðri eða hvaða þéttbýli vill hv. þm. miða við? Frá Hallormsstað á Héraði og niður á Borgarfjörð eystri í norðri eða hvaða þéttbýlisstaði vill hv. þm. miða við? Með öðrum orðum, nánast allt vegakerfi Austurlands.
    Það er það sem hér er verið að segja, að um slíkar almennar vegaframkvæmdir í heilu landshlutunum á að fjalla samkvæmt vegalögum í vegáætlun og skipta fé til vegaframkvæmda í landinu á grundvelli þeirra laga og þeirra vinnubragða sem vegalög mæla fyrir um. Það er þetta sem maður var að reyna að fá hv. þm. til að átta sig á. Þó að þingmenn flytji tillögur um athugun á vegastæði eða könnun á einstakri framkvæmd eins og Gilsfjörð eða jarðgöng eða eitthvað því um líkt er allt annar hlutur. Það kemur inn á undirbúnings- eða ákvörðunartökustig málsins. Hér er verið að tala um sjálfstæða framkvæmdaáætlun fyrir almennar vegaframkvæmdir í heilu kjördæmi og það er auðvitað rugl, hv. þm. Slíkt á að leysa í vegáætlun. Það eru alveg skýr lagafyrirmæli sem mæla fyrir um það.