Samstarfsörðugleikar innan lögreglunnar í Kópavogi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 15:40:08 (1092)

[15:40]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Vegna ummæla hv. fyrirspyrjanda vil ég taka fram að ærin ástæða er til þess að greina á milli þeirra almennu samskiptaörðugleika sem um langan tíma hafa verið fyrir hendi í lögreglunni í Kópavogi og þeirra tilefna sem leiddu til þess að aðstoðaryfirlögregluþjóni var veitt formleg áminning. Að mati dómsmrn. voru þau tilefni þess eðlis að rétt viðurlög voru talin að veita áminningu.
    Varðandi þá samstarfserfiðleika sem hér hafa verið gerðir að umtalsefni er það að segja að svo virðist sem þeir hafi verið fyrir hendi í þessu lögregluembætti alveg frá árinu 1988 þó að þeir hafi keyrt úr hófi fram nú síðustu daga. Ugglaust eru margþættar ástæður fyrir því að þessir erfiðleikar hafa komið upp. Þar koma til mismunandi sjónarmið um embættisrekstur og framkoma. Mitt álit er það að þar sé enginn einn sekur og hér eigi það við eins og oft þegar deilur af þessu tagi rísa upp að fleiri en einn beri þar ábyrgð.
    Varðandi ábyrgð á stjórn lögreglunnar í Kópavogi, þá er það svo að yfirlögregluþjónn ber ábyrgð á daglegum rekstri og hefur það verksvið með höndum að tryggja að löggæslustarfsemi fari daglega fram í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru. Lögreglustjórinn eða sýslumaðurinn í Kópavogi ber ábyrgð á störfum lögreglunnar og ber ábyrgð gagnvart ráðuneytinu í þeim efnum.
    Að undanförnu hefur ráðuneytið átt viðræður við sýslumann um það með hvaða hætti væri unnt að bregðast við þessum alvarlegu aðstæðum sem þarna eru uppi þannig að unnt verði að koma á eðlilegu starfi í lögreglunni í Kópavogi. Enn er ekki komin endanleg niðurstaða í þeim efnum, en ég vænti þess að hún verði á næstu dögum. Þeir sem þarna eiga hagsmuna að gæta eru auðvitað fyrst og fremst íbúar þess byggðarlags sem eiga í hlut. Þeir eiga kröfu á því að löggæslan fari fram með eðlilegum hætti og að því verður unnið af hálfu dómsmrn. í samstarfi við þá sem ábyrgð bera á störfum lögreglunnar, sýslumanninn.
    Varðandi þá skýrslu sem hér hefur verið gerð að umtalsefni og dómsmrn. lét gera vil ég taka fram að það er fullkomlega eðlilegt að ráðuneytið, þegar mál af þessu tagi koma upp, láti kanna hvernig málum víkur við, en það er ástæða til þess að taka fram að engin ákvörðun hefur verið tekin á grundvelli þessarar skýrslu, a.m.k. ekki enn sem komið er.
    Ég vil aðeins ítreka það að ráðuneytið hefur átt samtöl við sýslumanninn sem er lögreglustjóri í þessu lögsagnarumdæmi um leiðir til þess að koma eðlilegu skipulagi og eðlilegum vinnuanda á í þessu lögregluliði og ég vona að þær viðræður leiði til þess að þær aðgerðir verði gerðar innan skamms sem komi málum í eðlilegt horf.