Samstarfsörðugleikar innan lögreglunnar í Kópavogi

24. fundur
Miðvikudaginn 02. nóvember 1994, kl. 15:51:43 (1097)


[15:51]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ástæðan til þess að ég kem í pontu eru ummæli sem hafa fallið hjá þingmönnum varðandi það hvað eðlilegt er að taka til umræðu á hinu háa Alþingi. Það er nú einu sinni hlutverk Alþingis að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Alþingi á að fylgjast með framkvæmd laga og með því hvernig framkvæmdarvaldið fer með sitt vald. Það mál sem hér er til umræðu er einfaldlega komið á það stig að það er eðlilegt að spyrja hæstv. ráðherra hvað sé verið að gera til lausnar þessari alvarlegu deilu.
    Ég get tekið undir það sem hér hefur komið fram að þessir samstarfsörðugleikar sem eru til staðar hjá lögreglunni í Kópavogi eru þannig að þeir eru farnir að skaða löggæslu. Þeir valda áhyggjum hjá bæjaryfirvöldum og hjá öllum almenningi og þess vegna er ekkert óeðlilegt við það að við hér á Alþingi beinum þeim spurningum til hæstv. dómsmrh. sem hafa komið fram og hvetjum hann jafnframt til þess að leita lausna á þessu viðkvæma máli. Það dettur engum í hug að fella dóm yfir einum né neinum. Það er yfirleitt ekki einn sekur þegar tveir deila og það virðist vera margt sem spilar inn í þetta mál, en ég vil bara taka undir það sem hér hefur komið fram að hvetja hæstv. dómsmrh. til þess að finna lausn sem allra fyrst þannig að löggæslumál í Kópavogi komist á eðlilegt stig og að íbúar þar og starfsmenn séu ekki áhyggjufullir eða telji sig vart geta unnið áfram að löggæslumálum vegna þess ástands sem þarna ríkir.