Tilraunastöð í jarðrækt á Reykhólum

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 10:35:05 (1106)

[10:35]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Hæstv. landbrh. mælti hér fyrr fyrir frv. til laga um að leggja niður tilraunastöð í jarðrækt á Reykhólum og lét svo ummælt að hér væri um lagahreinsun að ræða. Það má sjálfsagt til sanns vegar færa að tilraunastarfsemin þarna er fallin niður, en hins vegar finnst mér vert að vekja athygli á því að þrátt fyrir það þó svo hafi farið þarna þá megi það ekki þýða að dregið sé úr tilraunastarfsemi.
    Við vitum að það eru nú að gerast miklar breytingar í landbúnaðinum. Breytingar kalla að sjálfsögðu á nýja þekkingu og einn liður í því að afla þekkingar er að gera tilraunir. Þess vegna vildi ég leggja áherslu á það að við slíkar aðstæður er tilraunastarfsemi í landbúnaði ákaflega mikilvæg og það verður að gæta þess að ekki dragi úr henni heldur að laga hana eftir aðstæðum og beina henni inn á þær brautir sem mikilvægastar eru. Þar sem hér er rætt um Reykhóla þá er t.d. ástæða til að benda á að nýting á sjávargróðri er talin einn af þeim möguleikum sem gæti verið vænlegur hér á landi.
    Fyrir forgöngu Búnaðarfélags Íslands hefur verið aflað markaða fyrir söl í Kanada og þau eru flutt út þangað fyrir allviðunandi verð en kostnaðurinn við þá framleiðslu er algjörlega innlendur, þ.e. það er fyrst og fremst vinnan við að afla þeirra og ganga frá. Það er mat t.d. næringarfræðinga að sjávargróður sé mjög mikilvægt næringarefni og geti komið í veg fyrir eða dregið úr tíðni ýmissa sjúkdóma. Líka má benda á að þangmjöl eins og framleitt er á Reykhólum er talið að einhverju leyti geta komið í staðinn fyrir annan áburð, þ.e. tilbúinn áburð, og því mikilvægt að vita að hve miklu leyti það gæti orðið þar sem nú standa vonir til að framleiðsla lífrænna afurða gæti orðið mikilvægur þáttur í íslenskri landbúnaðarframleiðslu.
    Þar sem þetta var tilraunastöð í jarðrækt, þannig stofnuð í upphafi á Reykhólum, þá væri það náttúrlega ákaflega nærtækt að tilraunir með þangið sem framleitt er á Reykhólum og nýtingu þess sem áburðargjafa færu þarna fram. Kannski er staðsetningin ekki úrslitaatriði en það er mjög mikilvægt atriði samt sem áður að slíkar tilraunir fari fram. Ég vil því spyrja hæstv. landbrh. að því hvort það standi nú yfir tilraunir með nýtingu á þangmjöli og öðrum efnum í staðinn fyrir tilbúinn áburð þannig að framleiðsla og uppskera geti orðið lífræn.
    Það er auðvitað ákaflega mikilvægt þegar nú standa vonir til að það verði settir staðlar um það hvaða kröfur eigi að gera til lífrænnar framleiðslu að þá sé hægt að leiðbeina bændum með það hvernig þeir eigi að framleiða þær vörur. Það verður því aðeins gert að tilraunir hafi farið fram um það og Rannsóknastofnun landbúnaðarins sé í stakk búin til að svara þeirri spurningu þegar bændur koma til hennar, hvernig eigum við nú að standa að þessari framleiðslu.
    Ég vildi í tilefni þessara umræðna leggja áherslu á þetta mikilvæga atriði. Þetta er hreinlega grundvallaratriði fyrir þróun þessara mála hér á næstu árum. Það má ekki eingöngu hugsa um að leggja niður heldur líka byggja upp. Um leið og þetta frv. nær fram að ganga þá verði því reynt að aðlaga þessa starfsemi að kröfum og þörfum líðandi stundar og framtíðarinnar og beina rannsóknum inn á þær brautir sem mikilvægar eru.