Tilraunastöð í jarðrækt á Reykhólum

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 10:57:05 (1115)


[10:57]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil lýsa mig samþykkan þessu litla frv. Ég held að það sé ósköp einfaldlega niðurstaða af staðreyndum sem blasa við og hafa gert um nokkurt árabil og í raun og veru fullkomlega skiljanlegur og eðlilegur hluti af þróun sem er að gerast í okkar landi að breytingar á starfsemi ríkisins af þessu tagi eigi sér stað. Ekkert er óumbreytanlegt og við hljótum að þurfa að horfast í augu við breyttar aðstæður. Ég hefði í sjálfu sér ekki þurft að taka þetta fram svo sjálfsagt sem ég tel það nema vegna nokkuð sérkennilegra orða hv. þm. Egils Jónssonar sem hafði um það m.a. þau orð að það hefði ekki verið stórmannlegur gjörningur að hætta fjárveitingum til rekstrar tilraunastöðva á Reykhólum og Skriðuklaustri á árinu 1990. Ég held að það hafi einmitt verið stórmannlegra að viðurkenna það sem orðin var þá staðreynd að það var ekki pólitískur vilji til þess að leggja það fé í rannsóknastarfsemi á vegum landbúnaðarins að unnt væri að halda úti öllum þeim stöðvum sem verið hafði þegar mest var umleikis á 7. og fram á 8. áratuginn á þessu sviði.
    Ég held að það hafi verið miklu stórmannlegra heldur en að láta þessa starfsemi svelta í hel, ef svo má að orði komast, en það var sú braut sem hún var á.
    Það kemur mjög skýrt fram í þessu stjfrv. sem ég þykist vita að hv. þm. styðji að niðurstaðan sem varð í fjárveitingum á árinu 1990 var ósköp einfaldlega endapunkturinn á þróun sem þá hafði verið í gangi um nokkurt árabil. Það segir í síðustu málsgrein greinargerðar með frv., með leyfi forseta:
    ,,Síðustu árin sem tilraunastöðin var starfrækt dró stórlega úr öllum tilraunum á sviði jarðræktar þannig að umsvif á því sviði voru ekki nema einn fjórði af því sem mest var á árunum 1970--1980. Orsök þess voru minnkandi fjárveitingar ár frá ári.``
    Þetta er mergurinn málsins. Staðreyndin er auðvitað sú að fjárveitingarnar til þessarar starfsemi höfðu dregist þannig saman á undanförnum árum að rétt nægði til rekstrarins eins. Þannig var nú komið á þessum litlu tilraunastöðvum. Þegar svo var komið að

í raun og veru voru ekki lagðir fjármunir til neins annars en að standa undir beinhörðum rekstrarkostnaði stöðvanna og þær höfðu ekkert fé aflögu til að sinna rannsóknarstarfi, þá voru brostnar a.m.k. forsendurnar fyrir því að kalla þetta tilraunastöðvar eða rannsóknastöðvar.
    Í öðru lagi er rétt að nefna að innan landbúnaðarins var vaxandi umræða og gagnrýni á það að ríkið héldi úti umtalsverðum framleiðslurétti með rekstri allmargra sauðfjárbúa og reyndar einnig mjólkurbúa og það var uppi allmikil krafa á að dregið yrði úr umfangi þessarar framleiðslustarfsemi ríkisins og það var gert í tengslum við breytingarnar sem þá voru að eiga sér stað í landbúnaðinum. Hluti þessa framleiðsluréttar var færður saman á þau bú sem eftir voru, en að hluta til féll hann niður.
    Í þriðja lagi held ég að það sé óhjákvæmilegt að nefna, hæstv. forseti, að það eru einfaldlega uppi breyttir tímar hvað varðar starfsaðstæður og vinnuumhverfi vísindamanna. Með mikilli virðingu fyrir þeim mönnum sem unnu þrekvirki á þessum stöðvum á árum áður, þá held ég að það sé alveg ljóst að breyttir tímar hefðu gert það að verkum að það hefði orðið erfitt að fá menn sem hefðu sameinað alla kosti þess að vera bústjórar, verkamenn, en jafnframt vísindamenn sem gætu sinnt grunnrannsóknum sem skiluðu afrakstri við aðstæður eins og þær að vera starfandi aleinir á rannsókna- eða tilraunastöð. Alla þessa þætti og marga fleiri mætti hér til nefna. Þannig að ég sem landbrh. á þessum tíma taldi alveg ljóst að það væru ekki fyrir hendi pólitískar forsendur til að efla þessa starfsemi þannig að hún gæti staðist og þjónað sínum tilgangi og þá var auðvitað miklu hreinlegra og miklu stórmannlegra að horfast í augu við orðinn hlut. Vel að merkja er það náttúrlega Alþingi sjálft, Alþingi Íslendinga, sem vel meðvitað um þessar fjárveitingar tók þessar ákvarðanir, það er ljóst. Eins og hv. þm. reyndar nefndi, og virðist hafa áttað sig á, þá er það auðvitað sú ákvörðun að leggja ekki fé til starfseminnar sem jafngildir því að hún sé aflögð. Það liggur í hlutarins eðli. Ég vil taka fram að það var reynt að standa þannig að þessum breytingum að viðkomandi starfsmenn og aðilar sem hlut áttu, sveitarfélög, kæmust sem best frá þessu. Auðvitað er þetta sársaukafullt og enginn hefur gaman af að standa fyrir breytingum af þessu tagi. En ef enginn hefði nú kjark til að horfast í augu við staðreyndirnar og breytta tíma þá yrði nú víst lítil framþróun hér í okkar landi.
    Hefur ekki sú krafa staðið á landbúnaðinn, ekki síst undanfarin ár, að hann dragi úr sinni yfirbyggingu, nýtti betur það fé sem lagt er til rannsókna og leiðbeiningarstarfsemi, sem og auðvitað rekstrarfélagskerfis landbúnaðarins? Sem betur fer er ýmislegt að gerast í þeim efnum og talsverð þróun hefur verið í gangi þarna undanfarin ár. En mér fannst satt best að segja þessi sérkennilegu ummæli hv. 3. þm. Austurl. vitna um einhvern annan aldarhátt heldur en þann sem ég tel að menn þurfi að hafa að leiðarljósi gagnvart breytingum af þessu tagi.
    Mér fannst hv. þm. sakna sérstaklega þess þjónustuhlutverks sem tilraunastöðvarnar, einmenningsstöðvarnar, hefðu sinnt gagnvart bændum á viðkomandi svæðum. Þar held ég að sé misskilningur á ferðinni. Það hlutverk á leiðbeiningarþjónustan og ráðunautaþjónustan að annast en ekki tilraunastöðvar. Þær þurfa, ef þær eiga að standa undir nafni sem slíkar, fyrst og fremst að sinna sínum tilraunum. Svo er það verkefni út af fyrir sig að koma niðurstöðum tilraunanna út til bænda. En við hljótum nú að reikna með að tilraunir séu reknar á landsgrundvelli. Það séu ekki framkvæmdar sérstakar rannsóknir og sérstakar tilraunir bara fyrir Vestfirði og aðrar fyrir Austfirði. Auðvitað hlýtur skipulagið í þessum málum að vera þannig að afrakstur tilrauna og niðurstöður sem þannig fást nýtist bændum sem hér eiga í hlut eða þá öðrum stéttum, eftir atvikum, um allt land.
    Að síðustu er óhjákvæmilegt að nefna það, úr því þessar fjárveitingar voru teknar hér upp af hv. 3. þm. Austurl. Hv. þm. hefur stutt talsvert af ríkisstjórnum á undanförnum árum. Hann mun t.d. hafa verið stuðningsmaður ríkisstjórna samfellt frá árinu 1983 til og með september 1988. ( Gripið fram í: Hvaða þingmaður er það?) Það er hv. 3. þm. Austurl., sem hafði um það þau orð hér að það hefði ekki verið stórmannlega gert að fella niður fjárveitingar til reksturs tilraunastöðvar á Reykhólum 1990. Þá ætla ég að biðja hv. þm. og aðra að rifja það upp hvernig staðan var í þessum málaflokki um áramótin

1988--1989, rétt eftir stjórnarskipti sem þá urðu. Hvaða verkefni beið þá nýorðins landbrh.? M.a. það að gera upp gífurlegan skuldahala sem myndast hafði vegna ónógra fjárveitinga til jarðræktarframlaga á undanförnum árum, sem að raungildi á núvirði mundi væntanlega vera einhvers staðar af stærðargráðunni 500--700 millj. kr. Það var aðkoman. Og af því ýmsir hafa hér á seinni árum talað mikið um fortíðarvanda þá hefði ég út af fyrir sig, ef ég hefði talið það þjóna einhverjum tilgangi, getað haldið býsna miklar ræður um þennan fortíðarvanda, sem var satt best að segja ekki þægilegur viðfangs, eins og aðkoman var almennt í ríkisfjármálum haustið 1988 þegar ríkisstjórn undir forustu Sjálfstfl. hafði gefist upp. Sem betur fer gerði hún það þá en hefur ekki vit á því núna.
    En þetta var þannig að þarna stóð skuldahali sem ríkið skuldaði bændum vegna skuldbindinga sem því bar að uppfylla samkvæmt jarðræktarlögum, sem menn höfðu ekki verið menn til að aftengja heldur látið myndast skuld ár eftir ár. Og þegar svo var komið að skuldahalinn var farinn að mælast í mörg hundruð milljónum króna þá var auðvitað ekkert annað að gera en að taka þar í taumana og það var gert. Það sem var gert var að annars vegar var lögunum breytt þannig að það mynduðust ekki lengur þessar sjálfvirku kröfur á ríkissjóð, sem fyrra fyrirkomulag fól í sér, en það var jafnframt gengið í það að gera upp við bændur með því að semja um uppgjör á þessum skuldum á þriggja eða fjögurra ára tímabili með skuldabréfum sem bændur fengu og gátu selt. Þetta þýddi það t.d. að það var ósköp lítið hægt að slá um sig með styrkjum og stuðningi við út af fyrir sig þörf verkefni á sviði jarðræktar á þessu tímabili. Það er nefnilega gallinn við veisluhöld af þessu tagi, hv. þm. Egill Jónsson, sem eru fjármögnuð með lánum, að það kemur að skuldadögunum. Ég held að sé það eitthvað sem er ekki stórmannlegt í þessum efnum þá er það að hafa ekki manndóm í sér, hafa ekki hrygg til þess að horfast í augu við aðstæður af þessu tagi. Þegar pólitískar forsendur eru brostnar fyrir fjárveitingum til tiltekinna verkefna þá á ekki að stinga höfðinu í sandinn og safna skuldum af því að menn hafa ekki kjark til að gera þær breytingar sem í kjölfarið verður að gera.
    Þetta ættum við öll að hugleiða og ekki síst hv. 3. þm. Austurl., því mér er ekki kunnugt um annað en að hv. þm. hafi verið stuðningsmaður þeirra ríkisstjórna sem söfnuðu þessum skuldum, til að mynda á jarðræktarliðnum, og stuðningsmaður ríkisstjórna sem höfðu skorið niður ár frá ári fjárveitingar til rannsóknastarfseminnar þannig að svo var komið sem raun bar vitni. Það er í raun aðeins fjárveiting eins árs sem skrifa má á reikning þess sem hér stendur eða þeirrar ríkisstjórnar, sem líður áður en sú ákvörðun er tekin hér á Alþingi að leggja alveg niður rekstur þessara tilraunastöðva. Þannig að stærstur hluti þess aðdraganda sem hér er fjallað um í greinargerð frv. er auðvitað í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem hv. þm. studdi. Þannig að mér finnst að málflutningur af þessu tagi risti ekki djúpt, hæstv. forseti, hvorki í sögulegu tilliti né öðru.
    Ég held sem sagt og kem þá aftur að því sem ég tók fram í upphafi, að aðstæðurnar séu ósköp einfaldlega þannig að við verðum að horfast í augu við þær og það sé skynsamlegri kostur að reka rannsóknastarfsemina á færri og öflugri stöðvum, efla frekar þess í stað ráðunautaþjónustuna og leiðbeiningaþjónustuna við bændur út í héruðunum. Auðvitað er það mikill missir og sjónarsviptir að því fyrir landsfjórðung eins og Vestfirði eða þess vegna Austurland að missa út rannsóknastöð af þessu tagi. En ég býst við að Austfirðingar teljist sæmilega sáttir við þau skipti sem urðu einmitt á þessu ári, 1990, því í stað þess að segja mætti að tilraunastöð á Skriðuklaustri væri lögð niður þá fluttist þangað starfsemi höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins og stórátak í skógrækt fór af stað á því svæði. Þannig að nú meta menn það svo að á Fljótsdalshérði séu það að verða hátt í 100 ársverk sem skógrækt skilar inn í það hérað. Hlutirnir þurfa því ekki endilega að ganga þannig að allt sé það aftur á bak og vissulega má skoða hvaða möguleikar eru þá til að efla aðra starfsemi sem grundvöllur er fyrir á Vestfjörðum. En ég fullyrði að það væri að berjast með vonlausum hætti við breyttar aðstæður og þróun mála að ætla að ríghalda í form af því tagi sem þarna var á sinni tíð. Skilaði góðu verki á meðan það var og hét og á meðan þeir hlutir gengu fyrir sig, en ég held að það hafi verið orðið augljóst mál að svo var ekki lengur. Þó ekkert annað kæmi til en ósköp einfaldlega þær staðreyndir sem liggja

í hinu pólitíska baklandi, þ.e. það var ekki hér á Alþingi vilji til þess að vera að leggja fjárveitingar til starfsemi af þessu tagi eða á þessum stöðum sem dugði nema rétt fyrir blárekstrinum og varla það. Því í aðdraganda fjárlagagerðar á þessum árum var iðulega lagt til af fjmrh. að þessi starfsemi yrði slegin af og hún hafi í reynd verið varin í nokkur skipti af þeim sem að fyrir stóðu.
    Þannig er nú það, hæstv. forseti, og úr því að þessi umræða var upphafin hér á annað borð þá taldi ég mér skylt að láta þetta sjónarmið koma fram. Ég styð sem sagt efni þessa frv. Það er ósköp einfaldlega raunsæi sem í því felst að gera þá hreingerningu eða snyrtingu í lagasafninu sem í raun og veru er hér fyrst og fremst á ferðinni, að fella úr gildi þessi lög. Það er alsiða, eins og menn þekkja, að lagaframkvæmd fellur niður af ýmsum ástæðum. Ýmist vegna þess að ekki eru lagðar til fjárveitingar eða vegna þess að það myndast sú réttarvenja eða hefð að lög eru ekki framkvæmd. Hæstv. núv. landbrh. minnti t.d. á það fyrir nokkrum árum síðan að í lagasafninu væru enn ákvæði um legorð presta, sem ekki hefði verið farið mikið eftir hina síðari áratugi, en það gerði svo sem engum til þó það stæði þar. Þetta er einfaldlega dæmi um lagaframkvæmd eða hefð þar sem lög voru ekki framkvæmd. Sama má segja að hafi átt við um þessi lög núna í fjögur ár, en ég held að það sé snyrtilegra að standa svona að málum, að fella þau einfaldlega úr gildi þegar ljóst er að þau eru ekki framkvæmd og ekki stendur til að framkvæma þau. Ef hv. þm. Egill Jónsson hefur önnur sjónarmið þá verður hann náttúrlega að berjast fyrir þeim, en ég held að það mundi þá ekki vefjast fyrir mönnum að finna starfsemi á Reykhólum viðunandi lagagrundvöll, ef vilji yrði til þess á nýjan leik að leggja til fjárveitingar sem dygðu þar fyrir einhverjum rekstri eða einhverri starfsemi.