Forfallaþjónusta í sveitum

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 11:29:12 (1118)


[11:29]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Mér er nú eftirsjá að forfallaþjónustunni og ég tel að það sé skaði að svona sé komið. Forfallaþjónustan var á sínum tíma talsvert framfaraspor og eins og hæstv. ráðherra rakti í framsögu sinni, þá var þetta liður í kjarasamningum 1979. En svo raunalega hefur nú farið að ríkisvaldið hefur ekki staðið við sinn hluta og ríkisvaldið gekk þvert á fyrirmæli laganna og það er raunverulega óhjákvæmilegt að horfast í augu við þá staðreynd að það er búið að eyðileggja forfallaþjónustukerfið. Auðvitað hefði verið meiri stórhugur í því að endurreisa það heldur en afnema. Ég vil spyrja vegna þeirra orða sem nefnd landbrh. lét falla í nefndaráliti sínu og hæstv. landbrh. hefur nýlokið við að lesa: Hefur eitthvað verið gert til þess að endurreisa þessa forfallaþjónustu? Það var reyndar skilyrði af hendi nefndarinnar að gert yrði áður en lögin yrðu afnumin. Mér sýnist að hæstv. landbrh. sé e.t.v. að hlaupa fram úr þeirri nefnd sem hann skipaði.
    Bændur hafa gefist upp á því að halda forfallaþjónustunni úti og stór hluti bænda hefur sagt sig frá og stéttarsamband og búnaðarþing hafa óskað eftir endurskoðun. Nefnd landbrh. leggur til að lögin verði afnumin og það er sjálfsagt þægilegast fyrir ríkisvaldið að afnema þau.
    Ég veit ekki hvort það þýðir nokkuð að vera að berjast fyrir framhaldi á forfallaþjónustunni en ég vildi láta það koma fram við 1. umr. málsins að ég tel það spor aftur á bak sem hér er verið að stíga. Æskilegra hefði verið ef menn hefðu haldið sig við upphaflegt markmið þessara laga, ríkisvaldið uppfyllt sinn hluta, eins og gert var ráð fyrir við setningu laganna, sem hluta af kjaramálapakka og bændur hefðu staðið saman um að halda úti að sínum hluta þessari mikilvægu þjónustu.