Forfallaþjónusta í sveitum

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 11:32:25 (1119)


[11:32]
     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Eins og þetta mál ber nú að þá er það vissulega ekkert sérstaklega auðvelt til umfjöllunar. Hér er látið liggja að því að stór hluti bænda sé andvígur þessari starfsemi og fyrst og fremst lagt til grundvallar sjónarmið búgreinafélaganna í þessum efnum. Mér er til efs að það sé svo afskaplega stór hópur sem hefur sagt sig frá forfallaþjónustunni enn þá þótt stjórnir og fundir þessara samtaka hafi gert um það ályktanir.
    Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að mér finnst að í þessu felist undanhald. Það var gert um það sérstakt samkomulag milli ríkisvaldsins og bændasamtakanna að stofna til þessarar þjónustu og þar var lagt til grundvallar að það yrðu 60 ársverk sem skipt yrði á milli bænda landsins til þjónustu í þessum efnum. Það náðist reyndar að þetta fjármagn kom allt saman á fjárlögum og allt saman til skila. Síðan var sú breyting gerð, eins og menn væntanlega muna, að hluti af stofnlánadeildargjaldinu var fært yfir til forfallaþjónustunnar þannig að hún hafði fjármagn eftir sem áður þótt það kæmi annars staðar frá.
    Ég hefði gjarnan viljað spyrjast fyrir um það hér hvað hæstv. landbrh. hugsar sér með framhaldið. Ég get ekki séð annað en það sé algjörlega út í hött að tala um það að bændur stofni til forfallaþjónustu á einhverjum hugsjónagrundvelli. Um það verða að sjálfsögðu að gilda reglur og gilda lög til þess að vinna eftir og menn verða að sjálfsögðu að taka á sig einhverjar sameiginlegar skyldur. Það er útilokað að hugsa sér að það gæti gengið að stofna til samtaka þannig að þessi gjöld yrðu bara innheimt með gíróseðli og svo útdeilt af einhverri stjórn eða stjórnum, eins og mér skildist helst á hæstv. landbrh. að hann ætlaðist til, sem víðast um landið.
    Í þessu felst ekki stefna í málinu. Þar af leiðandi verður það að koma skýrar fram

áður en afgreiðslu þessa máls lýkur hvort ríkisvaldið ætli með einhverjum hætti að ganga til móts við þessar þarfir. Það kemur fram í umsögnum að menn vilja ekki hverfa frá þessu. Ég er vel kunnugur því í sambandi við umræðu á búnaðarþingi að menn vilja ekki hverfa frá þessari þjónustu. Menn geta vel hugsað sér að taka upp breytta skipan og að fjármagnið komi með öðrum hætti til þessarar starfsemi. Mér sýnist þess vegna að það verði að svara því við afgreiðslu málsins hvort eitthvað á að koma á móti eða hvort ríkisvaldið ætlar að ljúka sínum afskiptum af þessum málum með þeim hætti sem hér er lagt til fyrir fullt og allt. Það er grundvallaratriði að það liggi fyrir.
    Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.