Forfallaþjónusta í sveitum

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 11:40:07 (1121)


[11:40]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mjög en ég tel að landbn. verði að skoða þetta mál gaumgæfilega því í máli hæstv. landbrh. kemur fram að hann hefur ekki hugmynd um hvort t.d. landssamtök sauðfjárbænda hafa sagt sig frá málinu.
    Það er rétt sem hefur komið fram í þessari umræðu að bændur hafa ekki borið gæfu til að standa saman í þessu máli. Það er hárrétt. En hæstv. landbrh. og löggjafarsamkoman hafa heldur ekki komið sér saman um nógu skýra lagasetningu og þá einhverjar leiðir til þess að aðilar geti staðið saman. Ég er sannfærður um að við þessar aðstæður þegar sveitafólkið er að tapa félagslegum réttindum sem menn þurfa mjög misjafnlega á að halda því vissulega eru það slys og veikindi sem valda þeirri neyð að menn þurfa að leita til slíkrar þjónustu. Ég er sannfærður um að þetta skapar einyrkjum í sveitum mjög mikla óvissu. Þess vegna hefði ég talið að þegar það liggur fyrir að í nýjum bændasamtökum eru menn að reyna að sameinast í eitt afl og koma þá saman úr öllum áttum í einn félagslegan farveg til þess að verja stétt sína og stöðu í þjóðfélaginu þá væri það þess virði að skoða hvort hægt sé að ná einhverjum nýjum tökum í þessu efni. Ég vil því velta því upp við þessa umræðu.
    En ég get tekið undir það að eins og málið er statt í dag þá skil ég þessa beiðni bændasamtakanna. Það er kannski svo með bændasamtökin að þeim finnst að málsvarann vanti. Þeim finnst að leiðtogann vanti í svo mörg málefni sem þeir eru að berjast fyrir að þeir verða að taka þá ákvörðun að fara þessa leið. Það er hægt að nefna ótal mörg rök um það. Við ræddum t.d. afkomu kartöfluræktarinnar og garðyrkjunnar á dögunum. Þeir finna ekki leiðtogann eða að verið sé að hjálpa þeim að finna lausnir á sínum málum. Bændasamtökin og búgreinasamtökin eru margbúin að biðja um að þetta mál verði skoðað á nýjan leik en það er dráttur á hlutunum. Allar stéttir á Íslandi eiga sér einhver félagsleg réttindi sem ríkisvaldið hefur fært þeim en í þessu máli blasir við að ríkisvaldið er búið að fella burtu það sem það lagði í þennan pakka í upphafi. Bændurnir eru að biðja um að ekki sé verið að taka af þeim gjald þegar þeir geta ekki einu sinni framkvæmt lögin eins og þau standa.
    Hæstv. forseti. Ég er þeirrar skoðunar að þar sem íslenskir bændur eru að stórum hluta einyrkjar og það hendir þá eins og aðra menn að veikjast og slasast þá þurfi landbn. að fara yfir þetta mál og gaumgæfa hvort hægt sé að ná á því nýjum tökum.