Forfallaþjónusta í sveitum

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 11:45:25 (1122)


[11:45]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það eru þrjú atriði sem ég vil drepa á. Í fyrsta lagi kom fram hjá mér áður og hefur komið fram hjá bændum, líka bændum á Suðurlandi, að þeir telja eðlilegt að úr því að þeir standa sjálfir undir kostnaðinum við forfallaþjónustuna þá sé það á valdi bænda sjálfra að skipuleggja hana og leggja á ráðin um hvernig að henni skuli staðið, hvort tryggingar skuli boðnar út ef menn slasast eða veikjast o.s.frv. Ég held að það sé auðskilið að bændur að þessu leyti vilja hafa sama rétt til þess sjálfstæðis og aðrar stéttir. Hitt er annað mál ef samstaða væri um það að ríkið stæði undir forfallaþjónustunni. Þá væri eðlilegt að setja um það lög og framfylgja þeim. En málið liggur ekki þannig fyrir. Málið liggur þannig fyrir að það eru bændur sjálfir sem standa undir kostnaðinum.
    Í sambandi við þuluna um það hver hafi brugðist garðyrkjubændum í sambandi við cohesion-listann svokallaða og hið Evrópska efnahagssvæði þá skal ég endurtaka það enn einu sinni, ef hv. þingmenn Framsfl. gætu numið, að síðasta ríkisstjórn ákvað að fulltrúar frá landbrn. yrðu ekki viðstaddir þegar fjallað var um málefni landbúnaðarins við undirbúning samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Garðyrkjubændur komu ekki að þeim málum á meðan síðasta ríkisstjórn var við völd. Það tókst á hinn bóginn að koma fram nokkrum leiðréttingum við samninginn eins og hann lá fyrir um stjórnarskiptin og má raunar segja að landbúnaðarráðherra Þýskalands, Kiechle, hafi verið okkur mjög hjálplegur í þeim efnum. En ástæðan fyrir því að staða okkar er ekki betri en raun ber vitni, ef menn telja að hún sé ekki nógu góð, er að okkur tókst ekki að ná lengra en við náðum þó eins og málið lá fyrir og eins og samkomulagið var við síðustu stjórnarskipti.