Forfallaþjónusta í sveitum

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 11:52:15 (1125)


[11:52]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Staðan var sú í EES-samningunum að það var áður en hæstv. utanrrh. vildi gera allt fyrir íslenskan landbúnað nema koma fram nakinn og þess vegna fór kannski sem fór. Tímarnir hafa batnað hvað það varðar síðan samkvæmt frægum auglýsingum. En það er enginn vafi. EES átti aldrei að snúast um landbúnaðarmál. Að Íslendingar skyldu einir og sjálfir ekki fylgja þeim leiðum sem nágrannarnir fóru heldur færa fórnaraðgerð hingað heim var ekki vitað í fyrri ríkisstjórn. Það kann vel að vera að hæstv. utanrrh. hafi sjálfur og einn verið með þessa samninga en hann hafði ekki frelsi til þess fyrr en sumarið 1991 eftir að þessi ríkisstjórn var tekin við.
    Hitt er svo annað mál að það þýðir ekki að deila um fortíðina. Hér hefur verið farið rækilega yfir það af þeim sem nú talar við hæstv. landbrh. að það strandar stórlega á vinnubrögðum varðandi ýmis atriði sem snúa að cohesion-listanum og EES, ráðherrann þurfi að móta framtíð, hann þurfi að taka á ýmsum spurningum sem garðyrkjumenn hafa lagt fyrir hann. Það er líf og dauði heillar stéttar sem blasir við ef ráðherrann markar ekki skýra stefnu og tekur afstöðu. Ég get farið út í þessi atriði ef menn vilja en ég hef ekki tíma til þess. Ég gerði það í glöggri ræðu á dögunum og hvet ráðherra til þess að setjast yfir þá vinnu.