Loftferðir

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 12:17:38 (1132)


[12:17]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að þetta frv. er hér fram komið og þessu mikla starfi, endurskoðun loftferðalaga og reyndar að hluta til fleiri lagaákvæða, er hér lokið eða lagt fyrir þingið endurskoðaður heildarlagabálkur á þessu sviði. Það er tvímælalaust tímabært og þarft að fá samræmda og heildstæða löggjöf á nýjan leik fyrir þennan málaflokk. Það hefur margt verið að breytast og er reyndar breytingum undirorpið þessi árin, m.a. vegna breytinga í flugmálum sem eru að eiga sér stað t.d. í Evrópu og í Norður-Ameríku, en þar hafa ýmsar reglur um flugstarfsemina verið að taka miklum breytingum. Það er nú einu sinni svo, eins og hér kemur fram og hæstv. ráðherra minnti á, að flugið er mjög alþjóðlegt í eðli sínu. Það sýnst að miklu leyti um samgöngur milli landa og minnstur hluti þess í flestum löndum innanlandsumferð, sem ríkin hafa þá í sínu valdi að stýra að öllu leyti.
    Þessar breytingar snúa að vísu að meira leyti að rekstrarþáttum flugsins heldur en kannski flugöryggisþáttunum og þeim reglum sem þar gilda, en þær hafa engu að síður áhrif. Það er auðvitað alkunna að þessir tveir þættir tvinnast saman með ýmsu móti og það geta verið ástæður til að herða öryggiskröfur í flugi og auka eftirlit við aðstæður sem lúta að lögmálum rekstrarlegs eðlis, það er jú dýrt að halda úti fullnægjandi flugöryggi. Það hefur áhrif á afkomu flugfélaga þær kröfur sem gerðar eru til öryggis og léleg afkoma og veik eiginfjárstaða flugfélaga hefur því miður tilhneigingu til að færast með vissum hætti yfir í öryggismálin eða hafa áhrif á því sviði. Þetta eru auðvitað staðreyndir sem gera það að verkum að það er ekki hægt annað en að fjalla samtímis um þetta umhverfi í heild sinni, þ.e. starfsgrundvöll flugfélaganna, rekstrarumhverfið, flugöryggisþættina, neytendaverndina og ábyrgð tryggingar o.s.frv.
    Það er að nokkru leyti gert í þessu frv. og þó sérstaklega er fjallað ítarlega um þetta í grg. og fylgiskjölum með þeim hætti að það verður að ljúka á það lofsorði, það er til fyrirmyndar að málinu eru gerð mjög ítarleg skil í grg. og rakið bæði í sögulegu tilliti og á fleiri vegu. (Gripið fram í.)
    Þannig að það fyrsta sem ég vil leggja áherslu á er, eins og hv. frammíkallandi tók eftir, að ég er í raun og veru að hrósa þessu verki sem hér er framlagt. Ég held að það sé ástæða til. Þar með er ég ekki að segja að þingið og nefnd þess þurfi ekki að fara rækilega yfir þetta mál, þetta er tæknilegs eðlis að miklu leyti og hlýtur að krefast nokkurs tíma ef fara á vandlega yfir það.
    Í öðru lagi vakna auðvitað vissar spurningar þegar lagabálkar af þessu tagi upp á um 150 greinar, ef ég hef tekið rétt eftir, 145 eru þær víst, koma fyrir, að hve miklu leyti það sé nauðsynlegt eða óhjákvæmilegt að hafa allan þann texta í lagaákvæðum. Það mætti vissulega spyrja sig að því hvort þessi ítarlegu lagaákvæði mætti að einhverju leyti leysa af hólmi með reglugerð. Sumt af því sem er tæknilegs eðlis, það er alltaf spurning hvað er skynsamlegt að ganga langt í þeim efnum og færa það inn í lagatextann. Það getur verið öllum fyrir bestu að draga svona hófsamlega markalínu milli þess sem bundið er í lögum og hins sem útfært er í reglugerð hverju sinni. Það auðveldar auðvitað breytingar og þróun mála að t.d. tæknileg atriði eða hlutir sem eru líklegir til að taka breytingum séu í reglugerðarhliðinni og þar með þurfi ekki lagabreytingar til í öllum tilvikum þó einhver

þróun sé að eiga sér stað. En það er reyndar nokkur hefð fyrir því að á sviði samgöngumála séu lagabálkarnir viðamiklir og minni hefð fyrir rammalöggjöf, ef svo má að orði komast. Það mætti nefna siglingalög og sjómannalög og fleira í því sambandi og svo hér ákvæði loftferðalaga.
    Það sem mig langaði í þriðja lagi til að nefna og kannski hefði verið fróðlegt að heyra aðeins meira um frá hæstv. ráðherra, er staða Íslands gagnvart svokölluðum flugpökkum Evrópusambandsins, pökkum I, II og III og þá á ég sérstaklega við hvernig framkvæmd þeirra á gildistöku verði háttað hér. Nú mun það vera svo, ef ég fer rétt með, ég tek það fram að ég hef ekki haft aðstöðu til að rifja þetta nógu vel upp eða fara rækilega yfir þetta alveg nýlega, en ef mig misminnir ekki þá er það svo að við erum sjálfkrafa aðilar að pökkum I og II vegna aðildar okkar að EES-samningnum og síðan mun pakki III hafa verið tekinn að einhverju leyti a.m.k. inn í gildistöku á sl. sumri eða vori.
    Nú er mér samt ekki ljóst hvenær þær breytingar sem samningurinn felur í sér og eru að taka gildi eða í undirbúningi í hinum Evrópulöndunum koma til framkvæmda hér, til að mynda hvenær frelsi opnast fyrir samkeppni í innanlandsflugi. Ég þykist vita að praktíst séu það hlutir sem ýmsir hafa áhuga á. Þarna er væntanlega um einhvern aðlögunartíma að ræða. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra hefur aðstöðu til að svara fyrir um þetta svona í þessari umferð, en ég mundi gjarnan vilja að hann gerði hvað hann gæti í þeim efnum. Eins er það að við erum væntanlega ekki búnir að fullgilda nema lítið brot af þeim gerðum um flugmál sem Evrópusambandið dælir út. Þetta er sjálfsagt þannig að það er bara allt eða ekkert, annaðhvort erum við aðilar að þessum pökkum og þessum reglum eða ekki og þar með þýðir það væntanlega að við þurfum að gefa út þessar gerðir og fara eftir þeim. Gerðir Evrópusambandsins um flugmál skipta fleiri tugum, en lítið af þeim er komið í gildi hér eða við erum aðilar að átján stykkjum eða svo, ef ég man rétt úr grg. frv.
    Þetta held ég að væri fróðlegt að fá hér upplýst, hver er staða Íslands í þessum málum nú, hvernig verður aðlögun okkar að þessum flugpökkum háttað, hvenær ganga að fullu og endanlega í gildi hér reglur um samkeppni, sem gengur þá auðvitað í báðar áttir, og mun það vera svo að einhverjar flugleiðir hér innan lands gætu fallið undir innanlandsflugákvæði Evrópupakkans? Ef ég man rétt þá er í einhverjum tilvikum miðað við 100.000 farþega á ári á flugleið og það mundi væntanlega þýða að flugleið til að mynda milli Akureyrar og Reykjavíkur gæti fallið þar undir.
    Í fjórða lagi vil ég inna hæstv. ráðherra eftir stöðu málanna varðandi gerð loftferðasamninga. Hæstv. ráðherra nefndi að við hefðum ekki verið afkastamiklir í þeim efnum að gera loftferðasamninga, enda hafi kannski ekki verið nein knýjandi þörf á því þar sem flug okkar hefur fyrst og fremst verið til okkar næstu nágrannalanda og við höfum náð ágætum samskiptum við Bandaríki Norður-Ameríku annars vegar og síðan nokkur Norðurlandanna og nokkur lönd í Evrópu hins vegar sem hafa dugað varðandi það áætlunarflug og reglubundna flug sem við höfum starfrækt héðan og þurft í raun á slíkum samningum að halda um. En það segir nú ekki að ekki gæti verið ástæða til að vinna betur að á þessu sviði og ég hef reyndar verið áhugamaður um það að þessum málum væri betur sinnt. Ég vil nefna í þessu sambandi að það var í undirbúningi á sínum tíma, á árunum 1988 og 1989, að gera loftferðasamning við Sovétríkin sálugu, sem þá hétu og voru. Af því varð því miður ekki. Það gætti nokkurrar tregðu á ónefndum stöðum í íslenska stjórnkerfinu gagnvart þeirri vinnu, illu heilli, því ég held að ég megi segja að í sjónmáli hafi verið á árinu 1989, ef ég man rétt, möguleikinn á því að ná allhagstæðum loftferðasamningi við Sovétríkin sem hefði falið í sér m.a. réttindi til yfirflugs yfir sovéskt land, hugsanlega án millilendinga sem hefði getað reynst íslenskum flugrekendum verðmætt. Á þeim tíma voru Finnar nánast einir þjóða með slík réttindi sem þeir gátu nýtt sér og auðveldaði þeim áætlunarflug til Asíulanda og það er lítill vafi á því að þetta hefði getað verið áhugavert fyrir Íslendinga einnig ef þarna hefðu nást samningar. Rússland hefði væntanlega erft þessar skuldbindingar Sovétríkjanna sálugu á alþjóðavettvangi eins og aðrar og þar með hefði samningur sem gerður hefði verið við Sovétríkin haldið gildi sínu.

    Nú er það svo að íslenskir aðilar, Flugleiðir, hafa sýnt því vissan áhuga að halda a.m.k. opnum möguleika á því að hefja flugsamgöngur til Suðaustur-Asíu, til Japans, eða inn á það svæði og er reyndar viss undirbúningur þegar í gangi með starfsemi þar í landi. Þetta er líka spennandi frá sjónarhóli íslenskrar ferðaþjónustu, en nokkur sókn er hafin inn á þennan markað á þessu svæði.
    Því vildi ég gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hvort við þessum málum hafi verið hreyft á nýjan leik, gerð loftferðasamnings við Rússland og hvetja til þess að það verði þá gert og tekinn upp þráðurinn þar sem frá var horfið á árunum 1988--1990, hvenær nákvæmlega sem það nú var þyrfti ég að rifja upp. Ég sé dálítið eftir því að þessu máli skyldi ekki vera komið í höfn á þeim tíma og tel að það hafi verið mistök og í raun og veru engin rök staðið fyrir því að gera ekki þann samning þá eða a.m.k. láta á það reyna hvort hann fengist gerður.
    Í þessu frv. er, í samræmi við það sem er í gildandi lögum, ákveðinn kafli um vinnuumhverfi áhafna. Hann er væntanlega lítt breyttur hér eða ég geri ráð fyrir því, að öðru leyti en því að ég tek þó eftir því að fella á niður svokallaða samráðsnefnd sem ákvæði voru sett um líklega árið 1989. Það voru færð fyrir því rök að hún hafi ekki starfað svo vitað sé. Það hljóta nú að vera einhverjir möguleikar á að ganga úr skugga um það. Það kemur mér reyndar á óvart ef það er svo að þessi nefnd hafi aldrei komið saman eða starfað. Ef svo er þá bendir það til þess auðvitað að þetta fyrirkomulag sé ekki heppilegt og væntanlega væri þá ráð að leita að einhverju öðru.
    Ég leyfi mér að spyrja hvort það sé örugglega engin þörf fyrir það að eiga vettvang af þessu tagi, hvort ekki hefði verið e.t.v. eðlilegri breytingar að koma á því skipulagi sem dygði í þessum efnum. Ég er nefnilega alls ekki viss um nema það geti verið gott að eiga samskiptavettvang milli þessara aðila, milli atvinnurekenda í fluginu, starfsfólksins eða samtaka þess og flugmálayfirvalda. Flugreksturinn eða vinna við flugstarfsemina er mjög sérhæfð og vinna t.d. í flugfélögum er í afar sérstöku umhverfi. Þetta er viðurkennt. Það eru m.a. rökin fyrir því að um þau mál er fjallað með sérstökum hætti í loftferðalögum en ekki látið nægja að styðjast við hin venjubundnu ákvæði vinnumarkaðarins í þessum efnum. Ef ég man rétt þá hafa það verið helstu rökin fyrir því að ýmsir þættir, sem annars væri eðlilegt að féllu undir almenna löggjöf, eru meðhöndlaðir með sérstökum hætti og um þá fjallað t.d. í loftferðalögum. Það er ósköp einfaldlega vegna þessarar miklu sérstöðu og það hversu sérhæfð starfsemin er og þar með talið auðvitað vinnuumhverfi áhafna. Það hefur verið einhver óróleiki á þessum vinnumarkaði nú að undanförnu og það minnir okkur á að þetta er afar viðkvæm starfsemi gagnvart öllu sem lýtur að vinnufriði og verkföll kannski óvíða erfiðari ef svo má að orði komast fyrir alla aðila en þegar flugsamgöngurnar, jafnmikilvægar og þær eru, eiga í hlut. Þess vegna leyfi ég mér að inna eftir því hvort þetta hafi verið eitthvað athugað eða rætt t.d. við starfsfólk eða samtök starfsmanna í fluginu og ég teldi óskynsamlegt að gera þessa breytingu þótt hún kunni að sýnast næsta sjálfsögð í ljósi þess ef rétt er að nefndin hafi ekkert starfað án þess að það sé þá gert í fullu samráði við samtök starfsmanna í fluginu. Vonandi getur hv. nefnd gengið úr skugga um að það sé þá a.m.k. ekki ágreiningur um þetta. Eins væri ástæða til að spyrja hvort fullt samkomulag væri milli samgrn. og félmrn. um þessa verkaskiptingu sem þarna er og snýr að vinnuumhverfinu.
    Í frv. eru svo ítarleg ákvæði um tryggingar og bótaákvæði og annað því um líkt en á hinn bóginn er kannski ekki fjallað með neinum beinum hætti um flugfarþegana sem neytendur því auðvitað eru flugfarþegarnir neytendur þjónustu í þessu tilviki rétt eins og aðrir neytendur. Ég vil leyfa mér að spyrja að því hvort það kom ekki til greina og hvort það hafi ekki verið skoðað að inn í þessi lög kæmu einhver ákvæði almenns eðlis sem tækju til stöðu flugfarþega og viðskiptavina flugsins sem neytenda. Það getur vel verið að það sé séð fyrir því annars staðar og sjálfsagt gilda ýmis ákvæði t.d. samkeppnislaga að breyttu breytanda eftir því sem við getur átt. En þetta er nú samt umhugsunarefni m.a. með vísan til þess hvað algengt er að mæla sérstaklega fyrir um hlutina í loftferðalögum en láta ekki nægja að styðjast við almenn ákvæði sem taka þá yfir alla atvinnustarfsemi eða allar greinar.
    Það síðasta sem ég vildi nefna í þessu sambandi, hæstv. forseti, er flugeftirlitsnefnd. Nú man ég ekki alveg á hvaða grundvelli hún er á laggir sett. Mér er nær að halda að það sé fyrst og fremst reglugerðarákvæði sem fjalli um hennar starfsemi en vonandi á það sér nú lagastoð. Þá er náttúrlega spurningin: Hefðu lagaákvæði um flugeftirlitsnefnd átt að koma inn í loftferðalög eða eru þau fyrir hendi annars staðar eða er talið að fullnægjandi umbúnaður sé um þá þætti starfseminnar eins og málin standa í dag? Ég spyr nú meira til upprifjunar og fróðleiks vegna þess að ég held að það væri a.m.k. ástæða til að hafa í huga að ganga frá öllum lausum endum sem kynnu að vera óhnýttir í skipulagi og framkvæmd þessara mála í tengslum við þessa víðtæku heildarendurskoðun.
    Ég tek svo undir það með samgrh. hæstv. að það væri ánægjulegt ef tími ynnist til að afgreiða þennan mikla lagabálk á þessu skamma þingi en auðvitað verður það að ráðast af framgangi málsins. Hitt er auðvitað meira atriði eða meir um vert þrátt fyrir allt að vinnan sé vönduð heldur en nákvæmlega hvort það nær afgreiðslu hér á þessu þingi eða hinu næsta.