Loftferðir

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 12:36:48 (1133)


[12:36]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka góðar undirtektir hv. þm. Eins og honum er kunnugt ef ég byrja á því að víkja að loftferðasamningum þá eru þau mál í höndum utanrrh. en ekki á forræði samgrh. ( SJS: Því miður.) En ég hef haft áhuga á því að gerður yrði loftferðasamningur við fleiri ríki og hef m.a. rætt það mál óformlega við aðstoðarsamgönguráðherra Kína. Ég hef einnig tekið það mál upp við samgönguráðherra Kanada, hvort forsendur séu fyrir því að beint flug verði tekið upp milli Kanada og Íslands en fram að þessu þá hefur ríkisstjórn Kanada ekki fallist á það fyrirkomulag. Við Íslendingar höfðum þá í huga að taka upp beint flug til Halifax og síðan kannski áfram til New York eða hvernig það yrði skipulagt af Flugleiðum til þess að draga úr kostnaði við heimsóknir Vestur-Íslendinga til Íslands og okkar Íslendinga til Kanada, þessar þjóðir eru mjög skyldar. Mér er raunar sagt að í Kanada séu fleiri einstaklingar af íslenskum uppruna en hér á landi þó það séu fleiri menn alíslenskir á Íslandi en í Kanada.
    Enginn vafi er á að slíkt beint flug mundi hafa margvíslega þýðingu, bæði mundi það stuðla almennt að ferðaþjónustu og samvinnu landanna á því sviði og einnig auðvitað greiða fyrir því að Vestur-Íslendingar gætu komið hingað heim. Mikill krókur er að sjálfsögðu að fara alla leið til New York ef menn eiga leið til Kanada. En eins og fram kom raunar í fréttum í morgun þá eru ný sjónarmið að koma upp á borðið hjá Bandaríkjamönnum. Þeir hafa sýnt áhuga á því að veita flugfélögum frá smáþjóðum í Evrópu ný réttindi fram yfir það sem verið hefur og hafa Flugleiðir verið nefndar í því sambandi og kemur fram að við því megi búast að eitthvað gerist mjög fljótlega. Slík heimild mundi þá opna möguleika t.d. fyrir Flugleiðir til að taka upp flug um Kanada til Bandaríkjanna eða um Bandaríkin til Suður-Ameríku eða eitthvað því líkt. Það væri auðvitað í okkar þágu því við Íslendingar lítum svo á að það sé okkar hagur ef okkur tekst að opna landamæri í samgöngum vegna sérstöðu okkar þá höfum við verið mjög miklir og sterkir talsmenn aukins frjálsræðis í samgöngum.
    Um þriðja pakkann er það að segja að varðandi Evrópuflug eða flug innan hins Evrópska efnahagssvæðis mun hann taka gildi nú hinn 1. júlí, ég held ég fari rétt með það, og 1. júlí 1997 varðandi innanlandsflugið á þeim flugleiðum eins og hv. þm. sagði þar sem farþegar eru fleiri en 100 þúsund. Um aðrar breytingar sem eru að gerast kann ég ekki að

nefna annað en að á vegum hins sameiginlega loftferðaeftirlits Evrópu eru að verða breytingar og hafa orðið og halda áfram þar sem m.a. er tekið á ákvæðum sem varða flugöryggi, hversu háttað skuli ef ég man rétt, hversu mikið eigið fé skuli vera í flugfélögum fremur en að það sé í þriðja pakkanum. Enn fremur hvort flugmenn skuli vera einn eða tveir og ýmis slík öryggisatriði.
    Ég get tekið undir með hv. þm. að það er auðvitað alltaf álitamál hversu ítarleg lög skuli vera. Ég er sammála honum um að á sviði samgöngumála hefur skapast sú venja að lög séu ítarlegri en á ýmsum öðrum sviðum og auðvitað er hægt að hugsa sér að stytta lögin og treysta meira á reglugerðarákvæði. En þá er líka á það að benda að einmitt á sviði flugmála hafa alþjóðasamþykktir meira gildi en á flestum öðrum sviðum og ég hygg að það sé m.a. skýringin á því hversu lítið er komið að neytendum. Raunar er líka fjallað þau mál í lögum um alferðir og í lögum um samkeppnismál almennt.
    Ég hef lítið að segja um þessa samráðsnefnd. Ég get tekið undir að það er auðvitað hollt ef þeir aðilar sem koma að flugi, opinberir aðilar, flugrekendur og flugliðar, hafa sameiginlegan vettvang þar sem þeir skiptast á skoðunum. Það er á hinn bóginn tilgangslaust að hafa slík ákvæði í lögum ef ekkert er með þau gert. En auðvitað er hægt að koma slíkri samráðsnefnd á fót án þess að um það séu bein lagafyrirmæli. Þannig að ég held að ef vilji manna stendur til þess að slíkt samráð sé uppi þá þurfi ekki sérstök lagafyrirmæli um þau efni.
    Loks verð ég eiginlega að víkja því til hv. þm. hvaða grundvöllur sé undir flugeftirlitsnefndinni. Er það ekki rétt munað hjá mér að hv. þm. setti þá nefnd á laggirnar á meðan hann var ráðherra? Það má vera að það sé misminni mitt en ég get því miður ekki útskýrt hvenær flugeftirlitsnefnd var sett á laggirnar, á hvaða grundvelli hún er reist, ég hef ekki kynnt mér það sérstaklega.