Áhrif meðlagsgreiðslna á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 13:33:08 (1137)


[13:33]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs utan dagskrár vegna áhrifa innheimtu barnsmeðlaga á fjárhagsstöðu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Innheimtustofnun sveitarfélaga hefur það hlutverk að innheimta hjá meðlagsskyldum foreldrum meðlög sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt forráðamönnum barna þeirra. Í lögum um stofnunina segir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiði Innheimtustofnuninni það sem á vantar að tekjur hennar nægi til endurgreiðslu til Tryggingastofnunar.
    Innheimtuhlutfall af greiddum barnsmeðlögum hefur farið sílækkandi undanfarin ár og það stafar m.a. af versnandi hag meðlagsgreiðenda og einnig af því að meðlagsgreiðslur voru hækkaðar um 36% í ársbyrjun 1993. Þá þegar var ljóst að þetta mundi hafa uggvænleg áhrif á fjárhag jöfnunarsjóðsins og voru fyrirheit sem gengu eftir um að leysa þetta mál með aukafjárveitingu á árinu 1993. Sú aukafjárveiting nam 240 millj. kr. en samkomulag var um það að setja þak á þessar greiðslur í jöfnunarsjóðnum um 300 millj. kr.
    Þann 10. desember á sl. ári var svo undirrituð yfirlýsing í framhaldi af viðræðum fjmrh. og félmrh. við fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga á árinu 1994. Í 5. tölul. þeirrar yfirlýsingar sem er dagsett 10. des. er kveðið svo á að nefnd á vegum félmrh. og Sambands ísl. sveitarfélaga verði falið að taka fjárhagsmálefni meðlagsgreiðenda og meðlagsmóttakenda til gagngerðrar endurskoðunar og nefndin komi með tillögu til úrbóta fyrir mitt næsta ár.
    Þessi nefnd hefur nú skilað áliti og skilaði áliti þann 19. okt. sl. Hún leggur til, í ítarlegu áliti, sem tillögu númer eitt að ríkissjóður greiði á árinu 1994 aukafjárveitingu til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að sjóðurinn geti sinnt hlutverki sínu og aukafjárveitingin nemi sömu upphæð og fjárvöntun Innheimtustofnunar sveitarfélaga umfram 300 millj. kr.
    Samkvæmt áætlun verða vanskil í Innheimtustofnuninni um 530 millj. kr. í ár. Það vantar því 230 millj. kr. umfram 300 millj. kr. þakið og ef ekkert verður að gert þá mun þetta verða að ganga á þjónustuframlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem átti að greiða út í þessum mánuði. Þetta mun bitna á 44% sveitarfélaga í landinu, aðallega sveitarfélögum sem eru undir 3.000 íbúum, að þeim fámennustu undanskildum sem fá ekki þessi þjónustuframlög. Þessi framlög nema um 270 millj. kr. og þessi sveitarfélög hafa reiknað með þessum framlögum í fjárhagsáætlunum sínum. Það má taka dæmi af 1.000 manna sveitarfélagi þar sem þessi þjónustuframlög munu nema 6 millj. kr. Það má taka dæmi af öðru

fámennara sveitarfélagi, áþreifanlegt dæmi, sem er um 300 manna sveitarfélag þar sem þessi framlög nema 2 millj. kr. Þetta sveitarfélag hefur um 40 millj. kr. tekjur. Hér er því um mjög alvarlegt mál að ræða ef ekkert verður að gert og ég spyr hæstv. félmrh. til hvaða aðgerða verður gripið í þessu máli. Er það ætlunin að þessar greiðslur falli með fullum þunga á jöfnunarsjóðinn umfram 300 millj.? Það var á dagskrá hjá fjárln. í morgun að afgreiða fjáraukalög fyrir 1994. Það hefur engin slík beiðni borist til fjárln. Þó þessari afgreiðslu væri frestað þá liggur þessi beiðni ekki fyrir. Það er ekki útlit á öðru en þessar 220--230 millj. kr. lendi á þeim þjónustuframlögum sem jöfnunarsjóðurinn á að greiða þeim sveitarfélögum sem hafa þyngst þjónustustig og eru með íbúatölu frá u.þ.b. 300 íbúum og upp í 3.000 íbúa.
    Ég ætla ekki að eyða tímanum í að ræða meðlagsgreiðslurnar að öðru leyti. Það liggur fyrir um þau mál ítarleg skýrsla frá þeirri nefnd sem ég gat um áður. En ég vil spyrja hæstv. félmrh. Til hvaða hann ráðstafana hann hyggist grípa í þessum efnum?