Áhrif meðlagsgreiðslna á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 13:45:58 (1140)


[13:45]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Sá vandi sem hér er til umræðu er í raun og veru heimatilbúinn vandi ríkisstjórnarinnar og með þeim aðgerðum sem gripið var til til að spara ríkissjóði stórkostlega fjármuni eða áætlaða fjármuni upp á 300 millj. kr. þá voru sköpuð önnur vandamál. Þær afleiðingar sem hér eru að koma í ljós af illa undirbúnum aðgerðum ríkisstjórnarinnar, reyndar vanhugsuðum og röngum ákvörðunum, eru smærri sveitarfélögin í landinu núna að súpa seyðið af. Það var nú hins vegar svo að ríkisstjórnin var vöruð við að grípa til þeirra aðgerða sem hún greip til um áramótin 1992/1993. Það var ekki bara stjórnarandstaðan heldur flestar þær stofnanir sem komu á fund heilbr.- og trn. sem vöruðu við þeim aðgerðum að hækka meðlagið og lækka mæðra- og feðralaun.
    Þessar aðgerðir fólu það í sér að meðlagið var hækkað um 36% á þá sem greiða meðlagið. En skyldi þessi hækkun hafa skilað sér til þeirra sem sjá um framfærslu barnanna? Nei, síður en svo, vegna þess að það var skert við framfærendur barnanna á einu

ári á bilinu 12.000--36.000 kr. Síðan gerist það, sem allir sáu fyrir, að vanskil við Innheimtustofnun mundu stórkostlega aukast og þau verða, eins og hv. málshefjandi léði máls á hér áðan, 530 millj. kr. á þessu ári, eða rúmum 300 millj. kr. umfram það sem þau höfðu áður verið. Sparnaðaráform hæstv. heilbrrh. á þeim tíma með aðgerðinni voru 300 millj. Eftir stendur enginn sparnaður en 5 milljarða króna vanskil þeirra sem eiga að greiða meðlögin við Innheimtustofnun sveitarfélaga.