Áhrif meðlagsgreiðslna á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 13:49:37 (1142)


[13:49]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál þegar meðlagsgreiðendur greiða ekki skuldir sínar og síðan bitnar það á sveitarfélögunum í landinu. Ég á ákaflega erfitt með að sjá af hverju það á að vera hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga að greiða meðlög. Þessu þarf að breyta, þetta getur ekki verið rétt.
    Ég vil hins vegar leiðrétta það sem hérna kom fram að stjórnarandstaðan hefði varað sérstaklega við að hækka meðlagsgreiðslur því að Kvennalistinn studdi það á sínum tíma að meðlagsgreiðslur hækkuðu. Við töldum langt frá því reyndar að það væri of há upphæð sem greidd væri með hverju barni og töldum að meðlagsgreiðendur, sem í flestum tilvikum eru karlar, væru ekkert of góðir til þess að greiða þessa litlu upphæð til uppeldis barna sinna þar sem allir vita að það er miklu dýrara að framfæra börn en sem nemur tvöfaldri þessari upphæð. Þess vegna studdum við að meðlagsgreiðslurnar hækkuðu. Við vildum hins vegar að það skilaði sér til barnanna en það gerði það ekki. Við studdum hins vegar ekki að það væri skorið niður á þeim lið eins og ríkisstjórnin stóð að. ( Gripið fram í: Þið berið nú ykkar ábyrgð á þessu máli.) Þess vegna ætla ég ekki að draga úr því hver okkar ábyrgð er, þ.e. mér finnst eðlilegt að meðlagsgreiðendur greiði hærra til barnanna en ekki að það bitni síðan á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Því er ég algerlega ósammála.
    Þeir sem komu á fund nefndarinnar á sínum tíma fyrir hönd forsjárlausra foreldra, sem allt voru karlar, lögðu mikla áherslu á það hversu annt þeim væri um börnin sín og vildu gjarnan gera þeim allt hið besta og þess vegna kemur mjög á óvart að þeir skuli ekki greiða meðlagið. Þeir hljóta að bera ábyrgð ekki síður en konur á þeim börnum sem þeir hafa komið í heiminn.