Áhrif meðlagsgreiðslna á Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 13:54:29 (1144)


[13:54]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það er rétt að árétta vegna þeirrar makalausu ræðu sem varaformaður fjárln. var að halda áðan að það var yfirlýst að sveitarfélögin ættu ekki að verða fyrir skakkaföllum vegna þessarar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar. Það þýðir auðvitað að fjmrh. og fjárln. eiga að hafa forgöngu um að efna þessi fyrirheit. Það var gert fyrir árið 1993 með því að hæstv. fjmrh. lagði fram brtt. við afgreiðslu fjárlaga til þess að tryggja greiðslu úr ríkissjóði í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem nam þeirri fjárhæð sem var yfir 300 millj. kr. Þannig á þetta auðvitað að vera á þessu ári. Það þarf ekkert annað í þessa umræðu en að fjmrh. eða oddviti Sjálfstfl. í fjárln. komi hér upp og lýsi því yfir að sami háttur verði hafður á fyrir þetta ár og þá er málið leyst. Vandinn er hins vegar sá að þessir ágætu menn vilja ekki lýsa því yfir vegna þess að þeir vilja þvinga sveitarfélögin inn í samningaviðræður um óskyld málefni til að ná af þeim peningum í málefnum óskyldum þessu, þ.e. greiðslu sveitarfélaga í Atvinnuleysistryggingasjóð. Varaformaður fjárln. og mér heyrist líka hæstv. félmrh. eru að blanda þessu máli jöfnunarsjóðsins saman við greiðslur sveitarfélaga í Atvinnuleysistryggingasjóð sem ríkisstjórnin hefur pínt þau til þess að gera með lögum gegn þeirra vilja og hefur lýst því yfir að hún muni ekki framlengja en ætlar sér greinilega að ganga á bak þeirra orða og er það ekki í fyrsta skipti sem þessi hæstv. ríkisstjórn gengur á bak orða sinna gagnvart sveitarfélögunum.