Jarðalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 14:30:49 (1150)


[14:30]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það frv. sem hér er til umræðu tekur á einum af mörgum viðkvæmum þáttum EES-samningsins og við höfum á undanförnum missirum rætt nokkuð ítarlega um málið. Þegar EES-samningurinn var á sínum tíma til umfjöllunar á Alþingi þá var það von ýmissa að takast mætti að setja upp girðingarfrumvarp sem væri fullnægjandi til þess að koma í veg fyrir að útlendingar keyptu hér upp jarðir, náttúruperlur, hlunninda- og veiðijarðir. Þetta er nauðsynlegt vegna þess að nú hafa 380 millj. manna öðlast sama rétt til Íslands og þau 260 þús. sem hér búa.
    Ég var aldrei trúaður á það að takast mundi að setja upp einhverjar girðingar sem dygðu. Ég sá það í hendi mér að það væri mjög torvelt því girðingarstæðið, ef svo mætti orða, er ómögulegt. Þetta frv., sem hér liggur fyrir og hæstv. ráðherra var að mæla fyrir, held ég í þriðja sinn, það er a.m.k. búið að þríflytja þetta mál, ( Landbrh.: Mæla fyrir í fyrsta sinn.) þetta frv. var til meðferðar á síðasta þingi og væntanlega hefur hæstv. ráðherra mælt fyrir því þá a.m.k. Þetta mál fór til nefndar í fyrra og var stjfrv., 200. mál á þskj. 222. Ég er með framsöguræðu, frú forseti, flutta af hæstv. landbrh., Halldóri Blöndal, og ég sé ekki betur en þetta sé sama frv. og flutt var í fyrra. (Gripið fram í.) Að vissu leyti svipaði ræðu hans mjög til ræðunnar sem hann flutti í fyrra. Ég fylgdist þó ekki alveg nákvæmlega með til þess að vita hvort hann las ræðuna stafrétta.

    En þetta frv. er búið að vera til meðferðar á tveim þingum áður þó hæstv. landbrh. sé búinn að gleyma því og það segir út af fyrir sig sína sögu. Alþingi hefur ekkert verið ánægt með þetta frv. og hv. landbn. hefur greinilega séð á því annmarka í fyrra og þess vegna hefur það ekki verið afgreitt.
    Ég sé að í frv. sem nú er flutt hefur ekki verið tekið hið minnsta tillit til þeirra umsagna sem hv. landbn. bárust í fyrra. Það er kannski varla von úr því að ráðherra var búinn að gleyma því að hann hefði flutt þetta áður.
    En það er svo með þær girðingar sem er verið að reyna að setja upp að þær eru gagnslitlar. Sú trygging sem þær veita gagnvart því að útlendingar geti eignast hér verðmætar lendur eru ónógar. En það er annað verra. Það er ákveðinn vítahringur sem er verið að skapa vegna þess að ókostirnir, þessar girðingar, koma verulega niður á Íslendingum og hamla að vissu leyti viðskiptum með jarðir og eru eða geta verið í vissum tilfellum hrein eignaupptaka. Útlendingar hafa hins vegar úrræði til að komast yfir girðingarnar.
    Það er fyrst til að taka að land er tekið úr landbúnaðarnotum sem getur svo sem verið eðlilegt og þá þegar er opnuð veruleg gátt ef land hefur verið tekið úr landbúnaðarnotum. Sveitarstjórn á forkaupsrétt að landbúnaðarlandi en það er ekkert víst að sveitarstjórn sé þannig innstillt eða hafi fjárhagslegt bolmagn til þess að leysa til sín dýrar jarðir. Ég efast um það að í mörgum tilfellum hafi sveitarstjórnir vald á málinu. Ef sveitarstjórn vill getur hún framselt þennan rétt sinn en ekki nema hún kæri sig um og það er ekkert víst að allar sveitarstjórnir kæri sig um það og það getur vel verið að einhver sveitarstjórn telji það bara heppilegt að fá ríka útlendinga til þess að dvelja eða eiga land í þeirri von að þeir dvelji í sveitarfélaginu hlut úr árinu og vegna þess að ákvörðunar sveitarstjórnar til þess að framselja forkaupsréttinn til Jarðasjóðs er þörf þá er þarna veruleg veila. Það gerist sem sagt ekki af sjálfu sér ef sveitarstjórn sinnir ekki málinu að Jarðasjóður gangi í það. En það er náttúrlega að fara úr öskunni í eldinn að vísa á Jarðasjóð. Jarðasjóður er alls ómegnugur. Hann gæti kannski keypt hálfa jörð á ári eða eitthvað svoleiðis eða leyst til sín. Eins og hefur verið búið að Jarðasjóði, sem er reyndar í landbrn. öðrum þræði kallaður jarðarfarasjóður, því að hann er eiginlega dáinn, þá er ekki mikils að vænta frá honum þannig að þar á ofan er engin trygging í þessu atriði.
    Síðan þarf náttúrlega, og það er kannski meginatriðið, þarf vilja hæstv. landbrh. á hverjum tíma til þess að Jarðasjóður beiti sér í málinu. Á framsöguræðu hæstv. ráðherra var það að skilja að hann sæi nú enga sérstaka annmarka á því að útlendingar keyptu hér jarðir. Ég veit að það er hægt að finna hér dæmi um það að ágætir danskir menn hafi keypt hér jarðir og rekið búskap af miklum myndarskap og því ber að fagna. En menn geta ekki gefið sér það að þó að danskir menn eða franskir eða þýskir kaupi hér jarðir þá verði þeir jafngóðir bændur eins og hægt er að finna dæmi um í samtíðinni.
    Í þeim umsögnum sem hv. landbn. bárust í fyrra og ég minntist á koma fram atriði sem mig langar til að leggja inn í þessa umræðu. Ég ætla fyrst að minnast á umsögn frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og ég vil taka það fram, frú forseti, ég er ekki að gera þau orð að mínum að öllu leyti. Hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Eignarhald á jörðum er í fjölda tilvika í höndum einstaklinga eða félagssamtaka sem ekki hafa þar fasta búsetu eða búa í nálægð jarðarinnar. Með samþykkt 3. gr. frv. væri slíkt eignarhald sett í algera óvissu og gæti leitt til ófyrirsjáanlegs ágreinings. Jafnframt má ætla að skilyrði 3. gr. geti leitt til þess að jarðeignir lækki stórlega í verði eða verði óseljanlegar. Verði ákvæði greinarinnar beitt til hins ýtrasta getur falist í því bein eignaupptaka.``
    Síðar segir í umsögninni:
    ,,Í 5. gr. er gert óheimilt að samþykkja eignarrétt yfir fasteign sem nýta á til landbúnaðar nema viðkomandi hafi starfað við landbúnað í fjögur ár. Ákvæðið útilokar þá sem vilja hefja landbúnaðarstörf og ekki hafa starfað við þau áður og gæti torveldað sölu.`` Síðast í umsögninni segir: ,,Það er hreint ótrúlegt að fram skuli koma á Alþingi stjfrv. með ákvæðum sem gera ráð fyrir jafnmikilli mismunun þegnanna og hér er lagt til.``

    Þetta var úr umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga um málið, þ.e. glefsur úr umsögninni, en hún er nokkuð ítarleg.
    Búnaðarþing fjallaði um málið 1993. Þar leggur búnaðarþing til breytingar á frv. og ég ætla að nefna eina þessara breytinga því að ég tel að hún sé mikilvæg, en þeir leggja til að 8. gr. laganna orðist svo, með leyfi forseta:
    ,,Nú neitar sveitarstjórn og/eða jarðanefnd að samþykkja áformaða sölu, sbr. 6. og 11. gr., og ráðherra staðfestir þá ákvörðun. Þá á eigandi eða umráðamaður eignarinnar rétt á að ríkissjóður kaupi þá eign sem hann vill láta af hendi hafni sveitarsjóður forkaupsrétti. Náist ekki samkomulag um verð skal kaupverð eignarinnar ákveðið samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms, nr. 11 frá 1973.``
    Ég tel, frú forseti, að ef þetta ákvæði væri inni í frv. og fjárveitingarvaldið eða löggjafinn stæði sig í stykkinu þá væri þetta mjög til bóta og ég vil beina því til hv. landbn. að hún athugi það vandlega hvort henni þætti ekki tiltækilegt að taka þetta ákvæði inn í frv.
    Frú forseti. Ég ætla að fara að ljúka máli mínu. Þetta frv. ber sjálfsagt vott um góðan vilja þeirra sem að því standa til þess setja upp girðingu. Því miður eru girðingarnar mjög ófullkomnar og að sumu leyti varasamar. Jarðir eru gerðar eða geta verið gerðar verðlitlar án þess að fyrir það sé girt að þær lendi í ómildum höndum útlendinga. Hér getur verið um hreina eignaupptöku að ræða, en eins og ég hef margoft sagt á umliðnum missirum í umræðum um Evrópskt efnahagssvæði og málefni því tengd þá er hér um að ræða einn af þeim þáttum þar sem við verðum að bera ekki lítinn fórnarkostnað af því að gerast aðilar að Evrópsku efnahagssvæði. Ég hygg að það væri til bóta að samþykkja þetta frv., setja upp þessar lélegu og ófullkomnu girðingar, enda takist hv. landbn. að lagfæra þetta mál að því leyti sem búnaðarþing lagði til.