Jarðalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 15:07:57 (1154)


[15:08]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hér er náttúrlega um miklu stærra mál en svo að ræða að menn geti verið að skjóta sér á bak við æfingar eins og hér komu fram af hálfu hv. 5. þm. Norðurl. e., að ætla að fara að bera það fram að það sé til málsvarnar fyrir því að samþykkja þennan samning sem hv. þm. gerði að á fyrri stigum hafi sá sem með málið fór í ríkisstjórn fallið frá fyrirvara. Það lá fyrir þegar sú ríkisstjórn sem nú situr tók til starfa og tók upp þráðinn, Sjálfstfl. með Alþfl., í sambandi við þetta mál. Þessi staða sem hér blasir við var ljós fyrir alþingiskosningar 1991 þegar hv. þm. gaf þær yfirlýsingar sem hann þekkir best og liggja fyrir á prenti en ég hef ekki hér fyrir framan mig textann.
    Það er þessi ábyrgð allra þeirra sem samþykktu samninginn og beittu sér ekki gegn honum sem blasir hér við varðandi stöðuna fyrir íslenska þjóð að hafa vald á sínu landi framvegis. Það eru ekki bara samningsákvæðin sem þýðir að líta á heldur blasir við réttarþróunin sem byggist á dómum svokallaðs Evrópudómstóls, dómstólsins í Lúxemborg, sem gengur allt í þá áttina að styrkja fjórfrelsið og ganga gegn viðleitni af því tagi sem reynt er að setja fram í þessum frumvarpstexta hér.