Jarðalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 16:32:04 (1163)


[16:32]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. er fyrst og fremst að velta því fyrir sér hvort lagasetning af því tagi sem hér er til umræðu verði nauðsynleg eða ekki nauðsynleg við það að EES-samningurinn breytist að formi til úr fjölþjóðasamningi í tvíhliða samning milli Íslands annars vegar og Evrópusambandsins hins vegar. Mitt svar er þetta: Verði Ísland eitt eftir EFTA-megin sem aðili að EES-samningnum en fyrrum bandalagsþjóðir okkar verða aðilar að honum áfram ESB-megin þá breytir það engu um inntak samningsins. Afstaða íslenskra stjórnvalda er þessi: Við viljum forðast það að fara út í nýjar samningaviðræður sem myndu leiða til nýrrar samningsniðurstöðu sem mundu kalla á staðfestingarferli í 16 þjóðþingum með þeirri áhættu sem því er samfara. Kjarni málsins er þá þessi: Okkar stefna er að EES-samningurinn haldi sér að því er varðar efni, inntak, réttindi og skuldbindingar þótt hann að formi til breyttist. Það hefur því engin áhrif á það að ef þessi fyrirhugaða löggjöf, girðingarlöggjöfin svokallaða, er á annað borð talin nauðsynleg af pólitískum ástæðum þá er hún eftir sem áður nauðsynleg þrátt fyrir þessa formbreytingu sem kynni að verða í upphafi næsta árs.