Jarðalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 16:46:40 (1170)


[16:46]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (um fundarstjórn) :
    Hæstv. forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir kemur undarlega fram í forsetastóli þegar hún á sæti þar. Staðreynd málsins er sú að fyrir því er löng þingvenja þegar þingmenn þurfa að hverfa frá að reynt er að greiða fyrir því að þeir fái að taka til máls á undan öðrum þingmönnum. Ég þekki ekkert dæmi þess að ekki hafi við því verið orðið.
    Ég varð mjög ljúfmannlega við því í morgun að umræðu um þetta mál yrði frestað samkvæmt beiðni hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Sá hv. þm. hafði ekki samband við mig síðar í dag um það að umræðunni yrði frestað á nýjan leik síðari hluta dagsins og væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hvenær hv. þm. bað um það að ekki mætti ljúka umræðunni í dag. Og væri kannski líka forvitnilegt að fá að vita hvernig á því muni og megi standa að umræðan fékk yfir höfuð að halda áfram eftir að hv. þm. þurfti að hverfa frá úr því að ekki mátti hefja umræðuna árdegis. Ég varð við beiðni hv. þm. í morgun um að þessari umræðu yrði frestað fram eftir degi. Það hefði verið í lófa lagið bæði fyrir hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur í forsetastól og eins hv. þm. Hjörleif Guttormsson og eins hefði ég reynt að greiða fyrir því að aðrir þingmenn gæfu hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni tóm til þess að tala fyrr. Hér gekk fram hjá stólnum hv. 5. þm. Norðurl. e. og ég veit að hann hafði ekki séð neitt athugavert við það. Það er auðvitað alveg út í hött að umræður um frumvörp þingmanna fari fram á mánudögum. Það er verið að tala um að reyna að koma stjfrv. til nefndar. Það er eðlilegt að bæði forsetar greiði fyrir því, það er líka eðlilegt að ráðherrar greiði fyrir því og það er líka eðlilegt að þingmen greiði fyrir því. En það er ekki

eðlilegt að sama málinu sé frestað að morgni á árdegisfundi að beiðni þingmanns og síðan sé hann síðastur á mælendaskrá seinni hluta dagsins og það sé svo gefin sem ástæða fyrir því að aftur eigi að fresta málinu. Þess vegna væri fróðlegt að fá upplýsingar um það hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, hvenær henni var um það kunnugt í forsetastóli að ekki stæði til að ljúka umræðunni. Svo mikið er að vísu víst að ekki sá hv. þm. í forsetastóli ástæðu til að spyrja mig um þessi mál. Ég frétti af þessu þegar ég kom og spurði hverjir væru á mælendaskrá og þá sagði hv. þm. í forsetastóli við mig að frestun af þessu tagi gerðist í samkomulagi við ráðherra og um það samkomulag er ekki að ræða og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson kom ekki að máli við mig um þessi mál.