Hópuppsagnir

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 16:59:56 (1178)


[16:59]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Aðeins örfá orð. Mér fyndist að frumvörp af þessu tagi þyrftu að auðkennast sérstaklega. Þetta frv. er flutt eins og hvert annað stjfrv. og maður gæti haldið að þetta væri vilji ráðherranna í ríkisstjórn Íslands og stjórnarflokkanna sem þarna kæmi fram. Svo er nú ekki því að ég hygg að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki neinn sérsakan áhuga á því að efni þessa frv. væri lögfest ef hún hefði óbundnar hendur. En þar sem við höfum nú yfirtekið Evrópuréttinn með þeim hætti sem gert hefur verið með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og látið frelsi Alþingis til þess að setja lög eftir sínu höfði þá er kannski ekkert annað að gera en að samþykkja þetta frv. Ég held hins vegar að það væri viðkunnanlegra að þetta væri merkt með einhverjum sérstökum hætti. Ég er ekki með beina tillögu þar um en eins og þetta lítur út þá gæti maður haldið að þetta væri það sem ríkisstjórnin vildi. Þetta er mál sem ríkisstjórnin telur sig knúna til að flytja og það mætti gjarnan standa á þessu að þetta kæmi frá Brussel strax í fyrirsögn. Það að vísu tekur sig ágætlega út í textanum að þetta er nauðungarvinna sem hér er verið að vinna.
    Við höfum tekið við tilskipunum frá Brussel og kyngt þeim umræðulítið og talið að ekki væri um annað að gera. Það er reyndar ein tilskipun sem við Íslendingar höfum fært fætur við og ekki lögleitt enn þá. Það er vinnutímatilskipunin. Það er að vísu svolítið sérkennilegt að það er sú eina af þessum tilskipunum sem við höfum ekki lögfest. Nú tel ég persónulega að vinnutímatilskipun Evrópusambandsins sé arfavitlaus og ég styð ríkisvaldið í því að þvælast fyrir því að lögfesta hana. En það er dálítið sérkennilegt að það er sú eina sem stjórnvöld hafa áhuga á að sýna manndóm og draga lappirnar í að lögfesta.
    Við eigum von á fleiru í framtíðinni af málum um félagsleg réttindi þar sem þau eru yfirleitt lakari í Evrópusambandinu en á Norðurlöndum, þá verðum við að slaka á okkar löggjöf í mörgum greinum. Sama gildir um umhverfismál. Ég teldi að það væri til umhugsunar fyrir hæstv. ráðherra og þá kannski sérstaklega hæstv. félmrh. sem ég vona að sitji til vorsins. Ég vona náttúrlega að ríkisstjórnin fari frá sem allra fyrst, en ef hún hangir á annað borð, vænti ég þess að hæstv. félmrh. verði í þeim hópi, og ég tel að það sé til umhugsunar fyrir hann og hans ráðuneyti hvort er alveg þörf á að gleypa allt sem frá Brussel kemur og hvort væri ekki ráð að draga lappirnar eins og þeir hafa gert með vinnutímatilskipununum.