Hópuppsagnir

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 17:05:14 (1181)


[17:04]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Það er einmitt þetta atriði sem ég hef tekið eftir í vinnutilskipun Evrópusambandsins, þ.e. það er talað um 48 stunda vinnuviku en það er ekki í hverri viku, það er meðaltal yfir langan tíma. Það er talað um fjóra mánuði og ég held að einmitt væri heppilegt fyrir okkur að taka upp slíka tilskipun vegna þess að við vinnum mjög mikið yfir t.d. ákveðinn tíma, viljum vinna jafnvel sólarhringana yfir ákveðna daga, ákveðnar vikur, en síðan viljum við hvíla okkur þess á milli. Þess vegna finnst mér ástæða til þess að við tökum akkúrat þessa tilskipun upp, þ.e. efni hennar, frekar heldur en ýmislegt annað sem verið er að gaufa við að taka inn í íslensk lög sem hefur ekkert með íslenskan veruleika að gera. Við eigum kannski eftir að ræða þetta einhvern tíma seinna, kannski ekki undir umræðum um þetta frv. sem hér er til umræðu. En ég held að hv. þm. ætti að lesa þessa tilskipun betur. Ég held að ASÍ hafi sérstaklega beitt sér fyrir að þetta yrði tekið upp, vegna þess að þetta væri eitt af því sem hægt væri að nota gegn því fáránlega launakerfi

sem hér ríkir, þ.e. að meiri hluti launa fólks sé fyrir yfirvinnu og oft og tíðum er það fyrir óunna yfirvinnu hjá sumum, þeim sem eru hæst launaðir. Þannig væri kannski tækifæri ef við tækjum upp slík ákvæði í íslensk lög að breyta til hins betra. Ég er því algerlega ósammála hv. þm. í því að við eigum ekki að taka upp 48 stunda vinnuviku.