Lyfjalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 17:12:35 (1185)


[17:12]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það er, eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., ekki ástæða til þess að standa í vegi fyrir því að þessi bráðabirgðalög geti fengið skjóta afgreiðslu þingsins, enda eru þau tilkomin vegna þess klúðurs sem hér var í lagasetningu í lok síðasta þings. Meðan þessi lög voru í frumvarpsbúningi hér í þinginu þá var þetta mikið átakamál. Mál sem engin sátt var um milli stjórnar og stjórnarandstöðu og heldur ekki sátt innan stjórnarliðsins um þær hugmyndir sem í raun og veru eru í þeim lögum sem núna eru að hluta til í gildi. Hins vegar tókst samkomulag um það á lokaspretti þingstarfanna í vor að setja þessi lög og samkomulag tókst um það milli stjórnar og stjórnarandstöðu að fresta ákveðnum þáttum laganna, þ.e. fresta gildistöku ákveðinna þátta, verðlagningunni, sölunni og dreifingunni, sem auðvitað eru langstærstu og fyrirferðarmestu þættir laganna eins og þau liggja fyrir nú, þ.e. fresta gildistöku þessara þátta til 1. nóv. 1995. Ástæðan var sú að menn vildu fá úr því skorið og láta á það reyna hvaða afleiðingar þau ákvæði sem inn í lyfjalögin komu og snerta samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði, sérstaklega þó þann þátt sem snýr að auglýsingum og samhliða innflutningi, hvaða áhrif þessir þættir hefðu á lyfjakostnað einstaklinganna, hvaða áhrif þessir þættir hefðu á lyfjakostnað ríkisins og hvaða áhrif þessir þættir hefðu á lyfjanotkun í landinu og þá auðvitað um leið á heildarútgjöld heilbrrn. eða Tryggingastofnunarinnar til lyfjamálanna.
    Ég á sæti í þeirri nefnd sem skipuð var til að fylgjast með þessum þáttum, þ.e. áhrifunum af EES-ákvæðunum eins og samið var um, og hefur nefndin fengið bréf frá heilbr.- og trmrn. þar sem það er boðað að hæstv. heilbr.- og trmrh. ætli að víkja frá því samkomulagi sem gert var milli stjórnar og stjórnarandstöðu og fá flýtt gildistökuákvæðum verðlagningarinnar og líka þeim þætti laganna um sölu og dreifingu og þau taki gildi 1. jan. 1995.
    Í fyrsta lagi má segja um þetta að það er náttúrlega brot á því samkomulagi sem gert var milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég hef látið það koma fram í nefndarstarfinu að við erum ekki tilbúnir til þess að standa að því að flýta gildistökuákvæðunum og ég hygg að það sé svo með fleiri stjórnarandstöðuflokka sem sæti eiga í nefndinni. Það hefur reyndar komið fram hjá einum stjórnarþingmanni, sem sæti á í nefndinni fyrir hönd Sjálfstfl., hv. þm. Láru Margréti Ragnarsdóttur, og það kom hér fram við umræðu um frv. til fjárlaga, að þingmaðurinn væri ekki tilbúinn til að standa að slíkri flýtingu á gildistökuákvæðum.
    Því spyr ég hæstv. heilbr.- og trmrh.: Er um þetta samkomulag milli stjórnarflokkanna og í ríkisstjórninni, að þessum kafla laganna verði hrint í framkvæmd frá 1. jan. 1995? Fyrir utan það er alveg ljóst að það er ekki farið að reyna á þau ákvæði laganna er snúa að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði, þ.e. auglýsingarnar og heldur ekki samhliða innflutninginn, þannig að reynslan sem átti að fást með nefndarstarfinu um það hvaða áhrif yrðu af þessum tveimur þáttum mun ekki koma í ljós, einangruð og ein út af fyrir sig, ef gildistökuákvæðinu verður flýtt. Þannig að þá er reyndar enginn tilgangur með nefndarstarfinu.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v., Páll Pétursson, minntist hér á annað mál sem má fullyrða að sé einnig að nokkru leyti klúður í lagasetningunni og það vill nú því miður oft verða

þannig þegar svo skammur tími er til þess að ljúka málum. Þrátt fyrir að þetta mál hafi á sínum tíma fengið mjög rækilega umfjöllun í hv. heilbr.- og trn. þá var það hins vegar þannig að það var verið að reyna að ljúka þessum hlutum hér alveg á síðustu stundu í þinginu og mönnum hefur yfirsést ýmislegt í sambandi við það að málið væri nógu vel undirbúið þegar það kom hér til lokaafgreiðslu.
    En sá þáttur sem nú hefur nokkuð reynt á er sá þáttur frv. sem snýr að dýralæknum og sölu dýralyfja. Við þingmenn Framsfl. fluttum hér frv. til breytinga á gildandi lögum er snýr að þeim þætti, þ.e. dýralæknunum. Það er nú til umfjöllunar í hv. heilbr.- og trn. Þar eru einnig fleiri atriði til umfjöllunar er snúa að þeim þætti. Það sem þó er alvarlegast í því er að mér sýnist í raun að það sé ágreiningur um grundvallaratriði, þ.e. milli ráðuneytisins og þeirra sem þurfa síðan að búa við frv. eða lögin, þ.e. milli dýralækna annars vegar og svo bænda hins vegar. Dýralæknar vilja hafa lyfsöluna og vilja geta ráðið því á hvaða verði lyf eru seld og þeir munu ráða því. Um leið og gildistökuákvæði verðlagningarinnar koma til framkvæmda munu dýralæknar í raun og veru ráða verðlagi dýralyfja, þ.e. helmings lyfsölunnar sem eru lausasölulyfin. Sé það hins vegar vilji ráðuneytisins að dýralæknar hafi ekki fjárhagslegan ávinning af því að vera með lyfsölu þá er mjög mikilvægt að það komi skýrt fram, en ekki verði farið til þess við afgreiðslu þessa máls eða með sérstökum tillöguflutningi af hálfu nefndarinnar að búa þannig um hnútana að menn skilji alls ekki hvaða leið menn eru að fara. Það sé ekki ein túlkun á því þegar dýralæknar túlka lögin og svo önnur þegar ráðuneytið túlkar lögin. Ég legg þess vegna áherslu á að ef afgreiða á þann þátt málsins um leið og bráðabirgðalögin þá verði alveg skýrt hvort dýralæknar eigi að hafa lyfsölu með höndum eða ekki en ekki að þeir geti hugsanlega gert það frá sinni starfsstöð sem gæti nánast verið bíll dýralæknisins eða apótekið sem viðkomandi dýralæknir mundi þá setja upp í því byggðarlagi þar sem hann væri starfandi.
    Mér finnst hins vegar koma til greina og ætla að færa fyrir því örlítil rök að láta annað gilda um sölu dýralækna á lyfjum en sölu heimilislækna á lyfjum. Lyfjavelta dýralækna er í kringum 150 millj. kr. á ári. Helmingurinn af þeim lyfjum sem dýralæknar selja verða þegar gildistökuákvæði laganna koma til svokölluð lausasölulyf, þ.e. dýralæknarnir geta þá ráðið verðinu sjálfir þar sem það verður ekki háð neinum ákvæðum hvernig verð á lausasölulyfjum er ákveðið líkt og með önnur lyf. Mér finnst þess vegna koma til greina að það verði ákveðið að dýralæknir geti haft þessa sölu með höndum en öll dýralyf verði sett undir ákvæði lyfjaverðsnefndar. Ég tel að ekki sé verið að brjóta nein prinsipp með frv. þó svo að þessi leið yrði farin og ekki hægt að túlka það að menn vilji láta annað gilda um dýrin en mannfólkið. Ég tel það vera útúrsnúning vegna þess að gert er ráð fyrir því í gildandi lögum að þegar lyfsalan verður tekin af heimilislæknunum á einstökum heilsugæslustöðum sé hægt að grípa þar inn til að veita þjónustu með því að stjórnir heilsugæslustöðvanna geti rekið apótekin. Það er því varnagli í gildandi lögum um að hægt sé að veita þjónustuna eftir sem áður. Ef þetta er hins vegar skilið eftir opið varðandi dýralyfin þá stendur það eftir að dýralæknarnir geta hugsanlega farið að ákveða verðið á dýralyfjunum sem þeir mega þó alls ekki selja samkvæmt anda laganna. Í sjálfu sér er þetta því ef menn skilja málið eftir með þessum hætti eins vitlaust og nokkur kostur er að hafa það. Ég spyr hæstv. heilbr.- og trmrh.: Finnst hæstv. ráðherra það koma til greina að þetta verði gert þannig að skilja að annars vegar dýralyfin og svo hin venjulegu lyf?