Lyfjalög

25. fundur
Fimmtudaginn 03. nóvember 1994, kl. 17:44:41 (1190)


[17:44]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er að flestu leyti sammála hv. þm. Ég vek athygli á því að þessi vandamál hafa ekki skapast varðandi lyfjagjafir heilsugæslulækna, en auðvitað er alltaf hægt að búa til vandamál ef menn endilega vilja það. Það getur vel verið að menn hafi áhuga á því að búa til vandamál í þessu sambandi, en ég skil ekki hvers vegna dýralæknar ættu frekar að hafa áhuga á því að búa til vandamál en heimilislæknar, en það er kannski önnur saga.
    Það væri líka vel hægt að hugsa sér að tvímælin yrðu tekin af í nefndaráliti hv. nefndar, við það er stuðst í lagatúlkun, eða í framsögu nefndarformanns eða frsm. nefndarinnar með þeim tillögum sem hún kann að gera. Það er einnig leið sem hægt er að hugsa sér. En eins og ég segi, ég tek undir með hv. þm. um það að þarna þarf að taka af tvímæli og það er út af fyrir sig ekkert meginatriði hvort þau lagaákvæði eru afgreidd um miðja næstu viku eða einhvern tíma eilítið síðar. Meginatriði málsins er að tekin séu af tvímælin, lagatextinn sé þannig orðaður, og það getur vel verið að nefndin þurfi að gefa sér meiri tíma til að skoða hvernig það yrði gert.