Sala ríkisvíxla og fjármögnun ríkissjóðs

26. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 15:14:42 (1200)

[15:14]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Að undanförnu hefur komið fram í fréttum, m.a. í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi að ríkissjóður hafi á síðustu dögum orðið að taka í talsverðum mæli erlend lán sökum þess að ríkispappírar hafa ekki selst á móti þeirri innlausn spariskírteina ríkissjóðs sem fallið hefur til á síðustu dögum. M.a. kom fram í frétt ríkissjónvarpsins þar sem var viðtal við ráðuneytisstjóra fjmrn., Magnús Pétursson, að í sl. viku einni saman komu til innlausnar ríkisverðbréf upp á 3,5 milljarða kr. og til að standa straum af kostnaði vegna þeirrar innlausnar voru boðnir út ríkisvíxlar fyrir sambærilega upphæð eða 3,6 milljarða til 12 mánaða en sala þeirra víxla var mjög dræm. Pappírar seldust fyrir aðeins tæplega 1,5 milljarða þannig að ríkissjóð vantaði um 2 milljarða kr. til að geta fjármagnað þessa innlausn. Samkvæmt þeim reglum sem nú gilda átti hann ekki í annað hús að venda en erlenda lántöku til að leita fjármagns á móti og sló erlend lán eða nýtti sér yfirdrætti sína eða dráttarlínur í erlendum bönkum.
    Ég tel að enn ein vísbending sé á ferðinni um það sem er að gerast í peningamálum og vaxtamálum. Sú staða er komin upp að nú eru það ekki lengur aðeins húsbréfin sem ekki seljast á þeirri ávöxtunarkröfu sem ríkisstjórnin hefur einsett sér að halda. Eins og kunnugt er hafa nánast engin húsbréf selst fyrir utan það sem Seðlabankinn hefur keypt af miskunnsemi sinni á undanförnum mánuðum. En nú er svo komið að ríkisvíxlarnir seljast ekki heldur á þeim ávöxtunarkjörum sem ætlunin hefur verið að halda. Þó hafa vaxtakjör eða nafnávöxtun ríkisvíxla verið á uppleið undanfarna mánuði og líklega í raun og veru á uppleið alveg frá því í apríl til júní sl. þannig að þrátt fyrir hækkandi vexti seljast ekki lengur ríkisvíxlarnir.
    Ég hygg að hæstv. fjmrh. hafi fyrir ekki löngu borið sig vel og talið að nú væri staða ríkissjóðs slík að hann mundi ekki þurfa að taka frekari lán og allt væri í harla góðu lagi. En ég leyfi mér að efast um að svo sé, því miður, vegna þessara upplýsinga og ég hlýt að spyrja hæstv. fjmrh. í fyrsta lagi: Hvað segja þessi tíðindi um stöðu ríkissjóðs á þessum markaði?
    Í öðru lagi: Hvað segja þau um stöðuna á peningamarkaði og um vaxtaþróunina?
    Verður hæstv. fjmrh. ekki að horfast í augu við það að sú ávöxtunarkrafa sem ríkið hefur verið að reyna að verja gengur ekki upp? Ríkissjóður nær ekki lengur að uppfylla fjárþörf sína miðað við þessi viðmið. Það að flýja í erlenda lántöku getur ekki verið þróun sem við horfum til til frambúðar.
    Einnig væri fróðlegt að heyra frá hæstv. fjmrh. hve mikil innlausn ríkisverðbréfa er fram undan á næstu vikum því að augljóslega munar mikið um hverja vikuna sem er svona dýr þó ég geri ekki ráð fyrir því að í hverri viku falli til innlausnar spariskírteini í þessu magni en eitthvað er væntanlega fram undan úr eldri flokkum ríkisverðbréfa á næstu vikum og fróðlegt væri að vita hvað það er mikið.
    Hæstv. forseti. Ég vil að lokum minna á að í nýframkominni skýrslu Seðlabankans er greinilega verið að vara við þessari stöðu. Þar verður varla annað lesið milli línanna en að Seðlabankinn sé að boða óhjákvæmilega vaxtahækkun. Í kaflanum um vaxtamál segir m.a. að þetta leiði til þess sem áður er rakið að Seðlabankinn geti hvenær sem er þurft að beita stjórntækjum peningamála, þar með töldum vöxtum sem hann ræður eða hefur áhrif á, til þess að mæta misvægi á peninga- og/eða gjaldeyrismarkaði. Með öðrum orðum, til þess að tryggja gjaldeyrisvaraforðann og til þess að verja gengið geti Seðlabankinn á næstunni þurft að grípa til vaxtahækkana. Í því ljósi að Seðlabankinn lýsir efnahagsþróuninni að undanförnu þannig að hún hafi einkennst af rýrnun gjaldeyrisstöðu og mikilli aukningu krafna Seðlabankans á ríkisstjórn verður varla annað lesið þarna út úr samhenginu en að Seðlabankinn sé að boða vaxtahækkun.
    Um þetta vil ég spyrja hæstv. fjmrh. Ég tel að nauðsynlegt sé að fá fram upplýsingar um þetta.