Sala ríkisvíxla og fjármögnun ríkissjóðs

26. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 15:25:46 (1202)


[15:25]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég held að það sé alveg ljóst að hæstv. núv. ríkisstjórn hefur skapað verulega óvissu á peningamarkaðinum. Skuld ríkissjóðs við Seðlabankann er komin í 24 milljarða. Hún hefur aukist á árinu 1994 um 15 milljarða. Hreinar skuldir hins opinbera hafa aukist um helming á þessu kjörtímabili. Skuldirnar voru rúmir 15 milljarðar 1991 en eru áætlaðar 1995 rúmir 30 milljarða.
    Ég held að það sé alveg ljóst að samkvæmt upplýsingum Seðlabankans sem koma fram á bls. 24 í nýju riti um þessi mál.
    Það er ljóst að útgáfa ECU-bréfanna hefur skapað verulega óvissu á peningamarkaðinum. Þar eru vextir 8,6% og þá er reiknað með yfir 3% verðbólgu. M.a. af þessum sökum seljast ekki ríkisvíxlar og ríkispappírar í þeim mæli sem áður gerðist.
    Ég spyr því hæstv. fjmrh.: Hvað hyggst ríkisstjórnin fyrir til að eyða þessari óvissu?
    Á bls. 27 í skýrslu Seðlabankans kemur fram að búast megi við því með litlum fyrirvara að það þurfi að breyta vöxtum. Ég tek skýrt fram að ég er algjörlega andvígur vaxtahækkun og styð ríkisstjórnina í því að reyna að gera það sem hún getur til þess að lækka vexti þannig að fjárfestingar komist af stað á nýjan leik. En ég sé ekki að hæstv. fjmrh. hafi eytt þeirri óvissu sem nú er á peningamarkaðinum með því sem hann sagði áðan.
    Ég óttast að vextir kunni að hækka nema það komi alveg skýrt fram hjá ríkisstjórninni að hún ætlar að gera allt sem í hennar valdi stendur til að koma í veg fyrir þetta og nú séu í gangi viðræður við bankakerfið og Seðlabankann um þessi mál sem leysa þá óvissu sem nú er ríkjandi.