Sala ríkisvíxla og fjármögnun ríkissjóðs

26. fundur
Mánudaginn 07. nóvember 1994, kl. 15:30:37 (1204)


[15:30]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa þessa umræðu og einnig hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Ég varaði við því í umræðum hér á þingi fyrir nokkru síðan að það væru ískyggileg hættumerki á ferðinni varðandi stöðu peningamála og vaxtastigið, að spilaborgin eða móverkið væri í raun og veru að hruni komið, fyrst og fremst í gegnum það að nú gæti Seðlabankinn ekki meir, nú væri hann kominn á endastöð í sínum kaupum á bréfum og stæði ekki lengur undir því að halda þessu á floti. Þessar upplýsingar komu mjög skýrt fram í heimsókn bankastjóra til efh.- og viðskn.
    Það er algerlega óþolandi og ískyggilegt ef vextirnir fara upp á við á nýjan leik og almenn vaxtahækkunarskriða gengur yfir þjóðfélagið. Í því sambandi eru þær breytingar sem fram undan eru um næstu áramót mikið áhyggjuefni, þ.e. þá verður endanlegt frelsi til fjármagnsflutninga úr landi virkt. Auðvitað hefðu málin þurft að standa miklu betur þegar að þeim breytingum kæmi. Annað eykur hættuna á því að þá skapist enn meira upplausnarástand og það er auðvitað alveg sýnilegt að það er yfirvofandi stórhætta á vaxtahækkun með þeim ískyggilegu afleiðingum sem það mundi hafa og hugsa ég þá ekki síst um skuldsett íslensk heimili sem því miður hafa enn verið að auka við skuldir sínar á þessu ári eins og kunnugt er.
    Ég skil það vel, hæstv. forseti, að hæstv. fjmrh. reyni að bera sig vel, það er út af fyrir sig ekki mikið annað fyrir hann að gera í þeirri stöðu sem slíkir eru jafnan en að reyna að bera sig mannalega. En ég held að hæstv. fjmrh. hljóti að vera ljóst að staðan er afar veik og það er mikil þörf á öflugum viðnámsaðgerðum ef ekki á illa að fara og vaxtahækkunarskriða að ganga yfir. Ég hvet því hæstv. fjmrh. til þess að leggja fram áætlun um öflugar viðnámsaðgerðir til þess að missa ekki vextina upp.